16.12.1972
Sameinað þing: 32. fundur, 93. löggjafarþing.
Sjá dálk 1314 í B-deild Alþingistíðinda. (953)

Umræður utan dagskrár

Því hefur verið haldið fram æ ofan í æ, að í málefnasamningnum hafi því verið lýst yfir, að ríkisstj. mundi ekki gripa til gengisfellingar. Ég hef leiðrétt það hér, það stendur ekkert þvílíkt í málefnasamningi ríkisstj. Það stendur orðrétt í málefnasamningi ríkisstj. það, sem ég vil mega leyfa mér að lesa hér upp, með leyfi hæstv. forseta:

Ríkisstj. mun ekki beita gengislækkun gegn þeim vanda, sem við er að glíma í efnahagsmálum.“ Ég er að vísu enginn íslenzkusérfræðingur, en ég tel mig þó skilja almennt mælt mál. Þarna er ákveðið ábendingarfornafn „þeim“, og sagnorðið „er“ í nútíð, og mér hefur verið kennt það, að þetta gæti ekki átt við nema tiltekinn vanda, sem þá er fyrir hendi. Það mundi hafa verið orðað á aðra lund, ef ríkisstj. hefði ætlað að segja, að hún mundi aldrei gripa til gengislækkana. Þá hefði ég haldið, að það mundi verða orðað svo: Ríkisstj. mun ekki beita gengislækkun gegn þeim vanda, sem við verður að glíma. — Ég held, að það geti enginn sæmilega læs maður lesið þetta á annan veg en þennan, sem ég hef hér gert grein fyrir. En auðvitað verður haldið áfram að klifa á því í blöðum stjórnarandstöðunnar, hvort sem og hvaða ráðstafanir sem verða gerðar nú, að ríkisstj. hafi lýst því yfir í málefnasamningi sínum, að hún mundi aldrei grípa til gengisfellingar. En ég vil vona, að þeir af landsmönnum, sem vilja heldur hafa það, sem sannara reynist, taki tillit til þess, sem stendur prentað í þessum samningi, og sjái ástæðu til að taka til greina þá leiðréttingu, sem ég hef hér komið á framfæri.

En þetta er ekki það eina, sem sagt hefur verið um gengislækkun og haft hefur verið eftir mér í því sambandi. Því hefur verið haldið fram í blöðum stjórnarandstöðunnar hvað eftir annað, a.m.k. í blöðum Sjálfstfl., að ég hafi sagt það hér í umr. um tímabundnar efnahagsráðstafanir, að ríkisstj. mundi ekki gripa til gengisfellingar. Þessar umr. um tímabundnar efnahagsráðstafanir fóru fram 25. okt. s.l. og 30 okt. Við þessar umr. hélt ég tvær ræður. Þær eru birtar í 3. og 4. hefti Alþingistíðinda, sem nú eru, sem betur fer, gefin út jafnharðan. Ég vil taka það fram, að ég hef þann hátt á, að ég les ekki yfir ræður mínar og leiðrétti þær ekki. Þær koma því prentaðar í þessum tíðindum algerlega eins og talað er inn á hljóðnemann. Um þetta getur fulltrúi Alþ., sem hefur með þetta að gera, borið vitni. Og nú hef ég gert mér það til dundurs, eftir að þeir hafa þrástagazt á þessum fullyrðingum, að ég hafi sagt í þessum ræðum, að þessi ríkisstj. mundi ekki gripa til gengisfellingar, að lesa nú yfir þessar ræður mínar, og ég hef ekki fundið í þeim eitt einasta orð um það, að ekki yrði gripið til gengisfellingar. Ég hef ekki fundið í þeim stafkrók um það, að ég lýsti því yfir, að ég afneitaði gengislækkun eða breytingu á gengisskráningu. Ég finn hins vegar í þessum ræðum, að ég legg hvað eftir annað áherzlu á, að það sé ekki tímabært að ræða um úrlausnir í efnahagsmálum, það eigi að bíða eftir áliti valkostanefndarinnar og athuga þær niðurstöður, sem hún kemst að, og velja síðan úrræði samkv. því. En þetta hafa þau sagt, stjórnarandstöðublöðin, dag eftir dag, að ég hafi sagt á þingi. Nú skora ég á hv. 1. þm. Reykv. að lesa þessar ræður eða láta einhvern þjóna sinna lesa þessar ræður og finna eitt einasta orð, sem bendir í þá átt, að ég hafi út af fyrir sig afneitað gengislækkun eða ég hafi boðað, að það yrði alls ekki gripið til breytinga á skráðu gengi. Ég skora á þá að gera það.

Það er ekki ástæða til að vera að fárast um það, þó að dagblöð séu að fara með fleipur dag eftir dag. Það tekur maður ekki nærri sér og lætur eins og vind um eyru þjóta. En hitt, — ég vil ekki segja, að mig taki það sárt, en mér þykir það leiðinlegt, að maður eins og hv. 1. þm. Sunnl., sem ég hef talið og tel, að vilji vera heiðarlegur, skuli halda áfram að tönnlast á þessu og skuli ekki vilja taka til greína leiðréttingar, sem ég hef gert á þessu, bæði varðandi málefnasamninginn og varðandi þessi ummæli, sem höfð hafa verið eftir mér um gengislækkun.

Í þeim ræðum mínum, sem ég geri nú hér að umtalsefni, vík ég aðeins á einum stað að gengi. Það var að gefnu tilefni frá hv. 2. þm. Norðurl. e., sem hafði verið að halda því fram, að við stjórnarandstæðingar hefðum ekki viljað ljá máls á hækkun gengis 1970. — Ég þurfti að svara því nokkrum orðum og vil — með leyfi hæstv. forseta — mega lesa það upp, sem ég í því sambandi segi um gengismál:

„Ég man það t.d., að hv. 2. þm. Norðurl. e. var að tala um gengishækkun, sem þeir hefðu viljað gera 1970, og lét að því liggja, að þá hefði stjórnarandstaðan ekki tekið líklega undir það mál. Ég minnist þess nú ekki að ég hafi látið uppi neitt álit um það efni, enda komst það víst aldrei á það stig, að það kæmi til kasta stjórnmálaflokka. Hitt mun hafa verið rétt, að aðilar vinnumarkaðarins höfðu ekki mikla trú á þessu úrræði.

Ég held, að það geti verið ákaflega hættulegt að fordæma einhver úrræði í eitt skipti fyrir öll. Þó að það hafi tekizt þannig til, að menn hafi í huga eitt ákveðið fordæmi í sambandi við gengishækkun, sem ekki tókst sem skyldi, þá held ég fyrir mitt leyti, að það sé mjög vafasamt að slá því föstu í eitt skipti fyrir öll, að aðstæður geti ekki verið þannig, að hún geti komið til greina. Og þó að ég sé þeirrar skoðunar, að það sé mjög veigamikið undirstöðuatriði í efnahagslífi landsins að hafa sem tryggast gengi, þá getur vel verið, að í okkar landi, sem er svo ákaflega háð sveiflum, að það gæti verið hugsanlegt að — hafa einhvern ramma, svigrúm, þar sem gengið væri látið hreyfast innan einhverra ákveðinna takmarka, upp eða niður eftir aðstæðum, innan mjög þröngra takmarka. En ég ætla að vona, að mér leyfist að láta þetta í ljós sem hugleiðingu, án þess að það verði farið að herma það upp á ríkisstj., að hún verði að bera ábyrgð á þessum u1nr. Þetta er persónuleg skoðun.“

Þetta er það eina, sem ég sagði í þessum umr. um gengi, og ég ætla að vona, að hv. 1. þm. Reykv. leggi nú í lúsarleit og athugi, hvort hann finnur eitthvað annað í þessum ræðum, sem ég hélt við þetta tækifæri, um gengismál. Hitt er svo laukrétt, að í viðtali við fréttamann frá útvarpinu svaraði ég 25. okt. aðspurður spurning um það, hvort ríkisstj. mundi grípa til gengislækkunar, á þá lund, að mér þætti ekki líklegt, að þessi ríkisstj. gripi til gengislækkunar. Vilja nú hv. þm. gefa mér leiðbeiningar og fræða mig um, hvernig ég hefði átt að svara svona spurningu á þessum tíma öðruvísi? Vilja ekki hv. þm. hugleiða, hvaða áhrif það hefði haft á spákaupmennsku og „spekúlasjón“ í landinu, ef ég hefði farið að segja á því stigi: Það getur vel verið, að það verði gripið til gengisfellingar. — Eða sagt sem svo: Ég vil ekki útiloka nokkurn möguleika, það getur vel komið til greina. — Hvernig gat ég á þessu augnabliki og hvernig hefði ég og hvaða ráðh. sem er yfirleitt getað að undanförnu svarað svona spurningu, ef henni er beint til hans beint frá fjölmiðlum, sem flytja þjóðinni svarið, öðruvísi en á þann veg, að það komi ekki til gengisfellingar? Ég tel, að ef ég hefði farið að svara þessu á þá lund, að víst gæti það komið til greina, að til gengisfellingar yrði gripið, þá hefði ég verið að fremja brot á góðri ráðsmennsku ráðh. Ráðh. má aldrei gefa slíkar yfirlýsingar fyrirfram, og ég er í góðum félagsskap að þessu leyti til. Ég man ekki betur en Bjarni Benediktsson lýsti því yfir í nóv. 1967, að gengi yrði ekki fellt, að það yrði ekki grípið til gengisfellingar, af því að gengisfelling, ef ég man rétt, skapaði meiri vanda en hún leysti. Hvað skeði? Rúmlega viku síðar var gengið fellt. Og hvað sagði hv. 7. þm. Reykv. í ráðherrastóll í ágúst 1967? Efnislega alveg á sömu lund sagði hann, að ekki yrði gripið til gengisfellingar. Ég er ekki að segja þetta mönnum til lasts, síður en svo. Þeir gátu blátt áfram ekki svarað svona spurningu öðruvísi en þeir gerðu á þeim tíma. Annað hefði verið brot hjá þeim. Og eitthvað minnir mig einnig um það, að sá margrómaði og heiðarlegi maður, Sir Stafford Criffs, hafi á sínum tíma í Englandi lýst því yfir undir svipuðum kringumstæðum, að til gengisfellingar yrði alls ekki gripið, þó að það væri svo gert nokkrum dögum seinna.

Nei, þeir Morgunblaðsmenn mega halda áfram skítkasti á mig fyrir að hafa sagt þessi orð í útvarpi. En þeir skyldu þá gæta að því, þeir góðu menn, að jafnframt eru þeir að ata auri minningu síns fallna foringja, Bjarna Benediktssonar. Kannske er þeim öllum ekki sárt um það. Þeir vita það fyrir víst, að þeir komast aldrei í þau spor sem hann steig, — með tærnar þar, sem hann hafið hælana. (ÞK: Það eru fleiri um það.) Já, mér dettur ekki í hug að halda, að ég komist það heldur. Ég hef aldrei haldið því fram. Ég álít mig yfirleitt ekkert stórmenni.

Ég tel mig með þessu hafa nokkuð sýnt fram á, að það er ástæðulaust að vera að brýna mig á því, að ég hafi verið með einhverjar yfirlýsingar um, að aldrei yrði gripið til gengisfellingar. Og ég er ekkert að segja það hér á þessari stundu, að það verði gripið til gengisfellingar. Ég vona, að það liggi fyrir innan skamms, til hvaða efnahagsaðgerða verði gripið. En ég veit, að blaðamenn gera sér oft leik að því að tína upp ummæli, Sem hafa verið höfð löngu áður og undir öðrum aðstæðum, og þetta gengur kannske gegnum blöðin árum saman. Og þetta gerum við líka á þingi, og sjálfsagt hef ég einhvern tíma tekið þátt í þeim leik. En auðvitað er þetta ákaflega lítils virði og oftast nær gagnslaust og tilgangslaust að vera að rifja það upp og rekja, sem menn hafa sagt þá og þá, e.t.v. við allt aðrar aðstæður. Sannleikurinn er sá, að það er engum leggjandi til lasts, þó að hann skipti um skoðun að fengnum nýjum upplýsingum, að fenginni nýrri vitneskju, að fenginni nýrri reynslu, að framlögðum nýjum rökum. Ég tel það ekki ljóð á neinum manni, þó að hann breyti um skoðun og fari þann veg og breyti nú á þá lund, sem hann sér, að er betri en hann áður taldi. Ég hygg, að enginn hv. þm. hafi lýst þessu betur en hv. 7. þm. Reykv., sem hefur sýnt fram á, hvað það væri fornaldarlegur hugsunarháttur, að menn ættu að steinrenna og staðna í einhverjum skoðunum, sem þeir hafi einhvern tíma haft. Auðvitað eiga menn að laga sig að fenginni reynzlu og breyttum aðstæðum. Annars væri maðurinn blátt áfram ekki skyni gædd vera. Það er mergurinn málsins. Við erum öll að læra og eigum öll að vera að læra allt okkar líf.

Þess vegna er það í sambandi við þær efnahagsaðgerðir, sem kunna að verða gerðar og ég vil ekki segja neitt um nú, þá er það í rauninni algert aukaatriði, hvað ég hef sagt áður. Það, sem skiptir höfuðmáli, það eina, sem skiptir máli, er, að við þær aðstæður, sem nú eru fyrir hendi, sé valin sú leið, sem skynsamlegust er. Það veltur allt á því, en ekki á því, hvað menn hafa sagt endur fyrir löngu eða kannske fyrir stuttu. Erum við ekki allir sammála um, að það eigi að velja skynsamlegustu leiðina? Hver er skynsamlegasta leiðin? Það kemur á daginn, hvaða leið við í stjórnarflokkunum teljum skynsamlegustu leiðina. Þá kemur til kasta stjórnarandstöðunnar að segja til um það, hvaða leið hún telur skynsamlegustu leiðina. Ef hún vill ekki fallast á þau úrræði, sem við komum með, þá er það hennar að benda á, hvaða úrræði hún vill færa fram, og hún hefur til þess betri aðstöðu nú en stjórnarandstaða hefur nokkru sinni haft áður, vegna þess að það hefur aldrei verið hagað vinnubrögðum gagnvart stjórnarandstöðu á sömu lund og gagnvart þessari stjórnarandstöðu. Við höfum látið hana fylgjast með. Hún hefur fengið nokkurn veginn jafnsnemma í hendurnar álit sérfræðinganefndarinnar og við fengum það. Hún hefur þess vegna haft alla möguleika til að mynda sér skoðun á þessu máli, skapa sér aðstöðu, koma með till. og vera reiðubúin til þess jafnsnemma og við. Við skulum bíða, sjá og heyra, hvað hún segir, þegar efnahagsaðgerðirnar liggja fyrir. (Gripið fram í.). Ég er að vona það. En víst er um það, að ef þessi stjórn gefst upp, þá er beðið eftir því með óþreyju að komast í stólana. Það er ekki alveg víst, að þeir verði lausir strax.

Ég skal svo, herra forseti, ekki syndga öllu meira upp á náðina að þessu sinni, en ég gat ekki orða bundizt. Ég sá enga ástæðu til þess að gera hið minnsta verður út af þeim orðum, sem hv. 7. þm. Reykv. lét hér falla, því að þau voru málefnaleg á allan hátt og réttmæt. En þegar hv. 1. þm. Reykv. kemur hér upp og flytur með hávaða fyrirlestur um það, hversu oft ég hafi orðið mér til skammar að undanförnu, þá ætla ég að svara honum fullum hálsi, og í hvert eitt einasta sinn, sem hann kemur upp með það, þá ætla ég að svara honum alveg fullum hálsi.