16.12.1972
Neðri deild: 25. fundur, 93. löggjafarþing.
Sjá dálk 1334 í B-deild Alþingistíðinda. (980)

118. mál, tekjuskattur og eignarskattur

Flm. (Ingólfur Jónsson):

Herra forseti. Ég hef leyft mér að flytja hér frv. ásamt 4 öðrum hv. þm. úr öllum þingflokkum, lítið frv. til breyt. á l. um tekju- og eignarskatt. Frv. felur þá einu breyt. í sér, að ákvæðum l. um heimild til endurmats verði breytt þannig, að atvinnutækjum verði leyft að miða fyrningarverð fasteigna við ný ja fasteignamatið, þótt fyrirtæki hafi ekki eignazt þær fyrr en á árunum 1969–1971, en ákvæði um endurmat lausafjár haldist óbreytt. Þegar talað er um atvinnufyrirtæki í lögunum, er einnig átt við bændur, en lögin eru þannig, að ef eignaskipti hafa orðið eftir 1968, er óheimilt að miða fyrningar við nýja fasteignamatið, þótt það sé miklu hærra en söluverðið var. Þetta hefur komið óneitanlega illa niður á tiltölulega fáum aðilum. Ég þekki eitt dæmi hvað bændur snertir, um feðga á sömu jörðinni. Bóndinn seldi syni sínum jörðina og útihúsin á talsvert lægra verði en fasteignamatið reyndist verða. Nú verður sonurinn að standa skil á sköttum og skyldum, sem miðast við nýja fasteignamatið, en hann fær ekki til frádráttar fyrningu nema af kaupverðinu, — eins og það var. Þetta er óréttlátt og þarf að leiðrétta. Og þó að ég þekki ekki nema eitt dæmi, eru þau ábyggilega fleiri. Ég get trúað, að þau finnist eitt eða tvö í flestum sýslum landsins. Þetta snertir ríkissjóðinn ekki mikið. Það verða ekki stórar upphæðir, sem þarna er um að ræða, en einstaklingana getur munað talsvert um þetta. Annað dæmi er um verkstæði, þar sem líkt stóð á, að það voru feðgar, sem áttu saman verkstæðið. Sonurinn keypti helminginn af því, og það var á lægra verði en fasteignamatið reyndist verða. Nú fær sonurinn ekki að fyrna nema sem svarar kaupverðinu. Ef engin eignaskipti hefðu orðið, hefði fyrning af allri eigninni miðazt við fasteignamatið. Þess vegna er hér mál á ferðinni, sem má skoða nánast sagt sem leiðréttingu. Þetta hefur fengið viðurkenningu fulltrúa allra þingflokkanna. Það eru fulltrúar frá öllum þingflokkunum, sem eru flm. að þessu frv.

Ég tel, herra forseti, ekki ástæðu til að tala meira fyrir þessu frv. Ég vænti þess, að þessi breyt. verði gerð á l. um tekju- og eignarskatt nægilega fljótt til þess, að það megi taka til greina við næstu skattframtöl. Ég legg til, herra forseti að að lokinni þessari umr. verði málinu vísað til 2. umr. og hv. fjh.- og viðskn.