24.10.1972
Sameinað þing: 6. fundur, 93. löggjafarþing.
Sjá dálk 233 í B-deild Alþingistíðinda. (99)

26. mál, áætlun um hafrannsóknir o.fl.

Sjútvrh. (Lúðvík Jósepsson):

Herra forseti. Þessari fsp. svarar forstöðumaður Hafrannsóknastofnunarinnar, Jón Jónsson, þannig með bréfi til rn.:

„Varðandi bréf rn., dags. 18. okt. s.l., um ofangreint málefni vil ég taka fram eftirfarandi:

Mál þetta var tekið fyrir og rætt ýtarlega af sérfræðingum stofnunarinnar í byrjun þessa árs, en þeir treystu sér ekki til að gera áætlun til svo langs tíma sem hér um ræðir, sérstaklega vegna hins hreytta ástands, er skapaðist við útfærslu landhelginnar. Þess má geta, að stofnunin gerir áætlanir um rannsóknir eitt ár fram í tímann og ýtarlegar áætlanir um notkun rannsóknarskipanna. Er nú verið að vinna að þessu fyrir árið 1973, og er ætlazt til, að þessu verði lokið fyrir miðjan des., en þá mun rannsóknar- og fiskileitaráætlun stofnunarinnar verða birt opinberlega, svo sem gert hefur verið undanfarin ár.“

Sú áætlun, sem gerð hefur verið fyrir eitt ár í senn og hér er minnzt á, hefur verið birt í tímaritinu Ægi, og áætlunin fyrir árið 1972 var birt í 5. tbl. Ægis á þessu ári. Það kemur sem sagt í ljós, að það hefur ekki verið unnið að þessu þýðingarmikla verkefni svo sem ætlazt hefur verið til af þeim, sem stóðu fyrir flutningi þessarar till. og hér kom fram hjá hv. fyrirspyrjanda, en nú hefur málið verið tekið upp á ný í rn. og viðræður hafnar við rétta aðila um það, hvort ekki sé hægt að byrja á þessu verkefni þrátt fyrir þá erfiðleika, sem fiskifræðingarnir benda á, þannig að áætlun af þessu tagi verði gerð fyrir lengra tímabil en aðeins eitt ár fram í tímann.

En þetta eru sem sé þau svör, sem fyrir liggja við þessari fsp.