18.12.1972
Efri deild: 28. fundur, 93. löggjafarþing.
Sjá dálk 1341 í B-deild Alþingistíðinda. (992)

131. mál, vegalög

Eggert G. Þorsteinsson:

Herra forseti. Mér fannst hæstv. ráðh. fara svolítið á hlið við það, sem ég veit hann hefur skilið, að ég var að spyrja hann um hér áðan. Ég var ekki endilega að spyrja um hag þeirra, sem reka langferðabifreiðar eða almenningsstrætisvagna, eftir gildistöku laganna, heldur það, hvers farþegar þessara farartækja mættu vænta. Hvað mega þeir gera ráð fyrir mikilli hækkun á sínum daglegu greiðslum? Þetta var það, sem ég óskaði að fá að vita. Ég var ekki að spyrja um, eins og hann vildi þó vera láta, hver yrði hagur þeirra, sem gera út þessar bifreiðar, heldur þeirra, sem þessar bifreiðar nota. Það er tvímælalaust lægst launaða fólkið í landinu, sem er neytt til þess að nota þessar bifreiðar framar öðrum og á nokkurn rétt á því að vita, hvaða kauprýrnun það á í vændum með hækkuðum fargjöldum hjá almenningsvögnum, áður en við hnýtum lokapunktinn á þetta hér í þinginu. Það er þetta, sem ég vildi fá svar við en ekki endilega hver útgerðarkostnaður þessara tækja væri.