18.12.1972
Efri deild: 28. fundur, 93. löggjafarþing.
Sjá dálk 1342 í B-deild Alþingistíðinda. (993)

131. mál, vegalög

Jón Árm. Héðinsson:

Herra forseti. Það er oft sagt um menn, ef þeir vilja ekki standa í þrasi um eitt og annað, að þeir hlusti þannig, að þeir sleppi því út um annað eyrað, sem þeir setja inn um hitt. Mér virðist þannig hafa orðið afstaða hæstv. ráðh. Ég var ekki að bera neitt á hann að hann hefði lofað neinu. En ég velti vöngum yfir því, hvort hann mundi ekki hugleiða það í leiðinni, hver heildarrekstrarkostnaður yrði fyrir fjölskyldu, sem á bíl, vegna þess að í hinni deildinni er verið að tala um ráðstafanir, sem hafa það í för með sér, að billinn mun stórhækka. Ég spurði hæstv. ráðh. um það, og það kemur í ljós, að hann hefur ekkert hugleitt það og hefur ekki af því áhyggjur, og það er mjög fróðlegt fyrir okkur hér í hv. d. og almenning. Það er mjög fróðlegt að vita, að hann hefur engar áhyggjur af því, hver heildarkostnaðurinn, stofnkostnaðurinn og rekstur bílsins, muni verða fyrir almenning. Það var það, sem ég var að spyrja um, en ekki um ein eða nein loforð. Ekki á nokkurn hátt. Ég tók fram, að við verðum að glíma við að útvega fjármagn. Það hefur verið tvenns konar: erlend lán og innlend fjármögnun í gegnum benzíngjald. En ég vildi forvitnast um það í leiðinni, hvort hæstv. ríkisstj. hafi nokkuð hugleitt heildarkostnað við bílinn, en svo er ekki. Það er fróðlegt að fá að vita af því.