18.12.1972
Efri deild: 28. fundur, 93. löggjafarþing.
Sjá dálk 1342 í B-deild Alþingistíðinda. (994)

131. mál, vegalög

Geir Hallgrímsson:

Herra forseti. Hæstv. ráðh. virtist vera feginn því, að ég tók ekki afstöðu gegn þeirri gjaldahækkun, sem í frv. felst, við 1. umr. Það er e.t.v. hans háttur að taka afstöðu gegn frv., sem ríkisstj. flytur, sem hann er í andstöðu við, án þess að hafa kynnt sér málið. Í þeim skilningi get ég vel skilið, að honum finnist þetta virðingarverð afstaða. Ég vonast til þess, að hæstv. ráðh. taki upp þennan hátt, þegar hann lendir í stjórnarandstöðu, að hugsa málin fyrst, áður en hann tekur afstöðu, og taka ekki afstöðu til mála eingöngu á grundvelli þess, hvort hann er í stjórn eða stjórnarandstöðu. Það, sem við þdm. ætlumst til af hæstv. ríkisstj., er, að hún leggi mál þannig fyrir, að unnt sé að taka afstöðu til málsins. Eins og mál þetta er lagt fyrir, er ekki unnt a.m.k. við 1. umr. málsins að taka afstöðu til þess.

Hæstv. ráðh. sagði, að þetta mál stæði eitt sér, sjálfstætt, fjallaði um fjáröflun í vegasjóð til þarflegra framkvæmda. Á þessu stigi skal ég ekki ræða, hvort gjaldahækkun á þessu stigi málsins, eins og nú er umhorfs í okkar þjóðfélagi, er réttlætanleg, það er svo annað mál. Þetta vil ég láta koma fram. En þá vil ég líka spyrja hæstv. ráðh., ef frv. það verður að l., sem hann nú hefur mælt fyrir, hvað verð á benzínlítranum í útsölu verði, þegar búið er að taka tillit til hinnar nýju gengisskráningar ísl. kr. og þeirra gjaldahækkana, sem þetta frv. hefur í för með sér. Hvað verður útsöluverðið á benzínlítranum til neytenda?