18.12.1972
Neðri deild: 27. fundur, 93. löggjafarþing.
Sjá dálk 1343 í B-deild Alþingistíðinda. (998)

Umræður utan dagskrár

Bjarni Guðnason:

Herra forseti. Seðlabankinn hefur nú í samráði við ríkisstj. fellt gengi íslenzku krónunnar um 10.7%. Af þeim sökum langar mig til þess að taka fram eftirfarandi:

Á fundi stjórnmálanefndar SF í Reykjavík var gerð svofelld ályktun, áður en gengisfellingin var ákveðin, hún hljóðar svo:

„Fundur í stjórnmálanefnd SF í Reykjavík haldinn 16. des. 1972 lýsir yfir, að af þeim leiðum, sem svokölluð valkostanefnd hefur lagt fram samkv. upplýsingum fjölmiðla, er gengisfellingarleiðin sú lakasta fyrir launþega, fordæmd áratugum saman af þeim og forustumönnum þeirra. Gengisfelling er afleiðing af verðbólgu og leiðir til frekari verðbólgu, eins og ferill viðreisnarinnar hefur sýnt, og kemur það mat skýrt fram í stjórnmálayfirlýsingu stofnfundar SF, undirstrikuð í öllum málflutningi samtakanna fyrir síðustu kosningar, svo og staðfest í sjálfum stjórnarsáttmálanum. Gengisfelling nú yrði til þess að staðfesta þann áróður stjórnarandstöðunnar, að ekki séu til aðrar leiðir í efnahagsmálum en þær, sem viðreisnarstjórnin fór. Þess vegna skorar stjórnmálanefnd SF í Reykjavík á alla launþega, hvar í flokki sem þeir standa, að berjast af alefli gegn því, að þessi lausn verði valin.“

Svo mörg eru þau orð. Óþarft er að ræða um almennar afleiðingar gengisfellingar. Hún er, eins og kom fram í ofangreindri ályktun, sprottin af verðbólgu og leiðir til frekari verðbólgu. Hún ómerkir íslenzku krónuna, elur á skuldasöfnun og rýrir fé sparifjáreigenda. Hún stuðlar að röngu gildismati og fjárhagslegu misrétti. Hún stangast því á við grundvallarboðskap SF, enda hafa þau sýknt og heilagt fordæmt hana og bent á fjórar gengisfellingar viðreisnarstjórnarinnar sem viti til varnaðar. Gengisfelling má heita algert neyðarúrræði, og aðrar þjóðir forðast hana í lengstu lög. Þegar aflabrögð eru sæmileg, eins og verið hefur á þessu ári, verðmætaaukning í framleiðslu sjávarafurða veruleg og markaðsverð útfluttra sjávarafurða í hámarki og fer stöðugt hækkandi, brestur að mínu viti eðlilegar forsendur gengisfellingar.

Þingflokkur SF hefur átt frumkvæði að því og knúið fram, að ríkisstj. leysti efnahagsvandann með gengisfellingu, sem bersýnilega er aðeins bráðabirgðaráðstöfun. Hann hefur brugðizt þeim fyrirheitum, sem gefin voru kjósendum og staðfest eru í stjórnarsamningnum. Og með því að vinnubrögð sumra forustumanna þingflokksins eru af því tagi, að þau eru fremur fallin til að splundra vinstri mönnum en sameina, segi ég mig úr þingflokknum. Þetta merkir alls ekki, að ég segi mig úr samtökunum, heldur mun ég kappkosta eftir mætti að hrinda fram stefnumálum þeirra, eins og þau eru mótuð í stefnuyfirlýsingu SF í Reykjavík frá stofnfundi 1969 og í stjórnmálayfirlýsingu heildarsamtakanna, einnig frá stofnfundi.

Núv. ríkisstj, hefur verið í ýmsu mislagðar hendur. Lögð hefur verið of þung skattabyrði á herðar lágtekju- og miðlungstekjufólki, og enn kunna margir á því lagið að koma sér undan því að greiða eðlilegan skatt til almannaþarfa miðað við þær tekjur, sem þeir hafa. Fjárfestingar og útgjöld hins opinbera hafa farið úr hófi fram, og skort hefur sparsemi og ráðdeildarsemi.

Þótt þetta komi til og gengisfelling ríkisstj., kem ég ekki auga á, eins og nú hagar í íslenzkum stjórnmálum, neina aðra hugsanlega ríkisstj., sem ég treysti betur en núv. stjórn til að leysa deiluna um fiskveiðilögsöguna farsællega til lykta, vinna að brottvikningu varnarliðsins og þoka áleiðis þeim umbótum í atvinnu- og félagsmálum, sem hún hefur þegar lagt grundvöllinn að. Þess vegna mun ég styðja áfram stjórnina, en jafnframt veita henni aðhald eftir beztu vitund.