25.10.1973
Sameinað þing: 7. fundur, 94. löggjafarþing.
Sjá dálk 176 í B-deild Alþingistíðinda. (100)

348. mál, vegagerð í Mánárskriðum

Félmrh. (Björn Jónsson):

Herra forseti. Hv. fyrirspyrjandi, 5. þm. Norðl. e., spyr um, hvað líði framkvæmd þál., sem samþ. var á síðasta þingi, þar sem ályktað var að fela ríkisstj. að láta gera frumáætlun um kostnað við vegagerð niður við sjó í Mánárskriðum á Siglufjarðarvegi. Áður en ég fer lengra út í þetta mál, vil ég minna á það, að þessi þáltill. var á sínum tíma send Vegagerð ríkisins til umsagnar, og þar sagði m. a., að eitt fyrsta verkefni í sambandi við þetta væri að kortleggja allt svæðið, en það væri erfitt og dýrt verk. Enn fremur var bent á, að hættan á snjóskriðum og aurskriðum gæti með tímanum orðið mun meiri á vegi með sjónum en núverandi vegi uppi í skriðunum, nema mjög kostnaðarsamar ráðstafanir væru gerðar. Ég ætla ekki að rekja þessa umsögn ítarlega, en í lok hennar segir, að engin leið sé til þess, að Vegagerðin geti leyst þetta verkefni af hendi, nema sérstök fjárveiting að upphæð 5.6 millj. kr. komi til. En eftir upphaflegu till. hefði þurft 3.5 millj., ef um fullkomna áætlun hefði verið að ræða.

Nú er frá því að segja, að engin slík fjárveiting, sem Vegagerðin taldi algert skilyrði fyrir rannsókn málsins, hefur komið til og Vegagerðin hefur þess vegna ekki treyst sér til, þrátt fyrir það að henni hafi verið sent málið til meðferðar, til þess að hefjast handa um þetta verkefni. Mér þykir leitt að þurfa að skýra frá þessu, því að að sjálfsögðu hefði verið æskilegt, að þessi athugun hefði farið fram og henni hefði verið lokið, áður en endurskoðun vegáætlunar fer fram á yfirstandandi þingi. En ég treysti mér ekki til þessa sem samgrh. að leggja fyrir stofnanir, sem undir rn. heyra, að framkvæma verk, sem það hefur enga lagaheimild til þess að gera fjárhagslega, og það hefur sem sagt láðst hjá þeim áhugamönnum sem ég get vel skilið, sem hafa borið þetta mál fyrir brjósti, að fá fjárveitingu, sem þarna hefði þurft að koma til. En fjárhag Vegagerðarinnar er þannig varið, svo sem síðar mun koma í ljós hér á þinginu, að ég hef ekki treyst mér að bæta þar á neinum böggum, sem ekki er full heimild fyrir. En ég tel það vera eðlilegt framhald þessa máls, enda mun ekki vera tímasetning fyrir því í þál. og ekki í sjálfu sér brotið í bága við hana, þátt þetta hafi ekki verið gert enn þá, — en ég tel eðlilegt framhald af samþykkt þáltill. að afla fjár til þessara ranasókna, sem hér um ræðir, í sambandi við endurskoðun vegáætlunar, sem fram fer á yfirstandandi Alþ., og að því vil ég mjög gjarnan styðja.