06.12.1973
Sameinað þing: 31. fundur, 94. löggjafarþing.
Sjá dálk 1137 í B-deild Alþingistíðinda. (1028)

109. mál, aðild að háskóla Sameinuðu þjóðanna

Utanrrh. (Einar Ágústsson) :

Herra forseti. Ég vil leyfa mér að segja hér aðeins örfá orð um það, sem þegar hefur gerst í þessu máli og snertir utanrrn. og fastanefnd Íslands hjá Sameinuðu þjóðunum, þótt flest af því hafi raunar þegar komið fram í máli hv. frsm.

Árið 1969 kom U Thant, framkvæmdastjóri Sameinuðu þjóðanna, fram með þá till., að stofnaður yrði háskóli Sameinuðu þjóðanna. Ekki komst neinn skriður á mál þetta fyrr en í ársbyrjun 1972. Sendinefnd Íslands hjá Sameinuðu þjóðunum sendi þá langa grg. um málið, þar sem lagt var til, að framkvæmdastjóra Sameinuðu þjóðanna yrði tilkynnt, að áhugi væri á því á Íslandi, að ein deild háskólans væri stofnsett þar. Grg., var send menntmrn. og sjútvrn. til umsagnar. Menntmrh. taldi, að hér væri um athyglisvert mál að ræða og sjálfsagt væri að rannsaka það gaumgæfilega. Menntamrn. hafði haft samráð við háskólarektor og Hafrannsóknastofnunina. Einnig höfðu þeir leitað umsagnar Fiskifélags Íslands. Utanrrn, fól fastanefndinni að tilkynna framkvæmdastjóra Sameinuðu þjóðanna, að Íslendingar hefðu áhuga á að kanna, hvaða aðstöðu Íslendingar kynnu að geta látið í té. Sérstök áhersla var lögð á rannsóknir, sem fjölluðu um auðlindir hafsins.

Í nóv. 1972 var fastanefndinni í New York heimilað af utanrrn. að gerast meðflutningsaðili að till. um stofnun háskóla Sameinuðu þjóðanna. Hinn 12. des. 1972 lýsti fulltrúi Íslands yfir við umr. í allsherjarþinginu, að íslenska ríkisstj. hefði áhuga á að bjóða háskólanum aðstöðu á Íslandi fyrir vísinda- og rannsóknastofnun háskólans í haf- og fiskifræðum. Hinn 10. maí s. l. sendi fastanefndin ítarlega skýrslu af samtölum við þá fulltrúa Sameinuðu þjóðanna, sem hafa með málið að gera. Í viðtölum þessum kom fram, að góðar líkur væru taldar á, að Ísland gæti fengið staðsetta hér á landi einhverja vísindadeild úr háskólanum. Skýrsla þessi var send utanrmn., menntmrn. og sjútvrn.

Hinn 5. nóv. s. l. var ályktunartill. um háskóla Sameinuðu þjóðanna lögð fram í 2. nefnd Sameinuðu þjóðanna og var íslenska sendinefndin meðflutningsaðili. Fulltrúi Íslands í nefndinni lýsti áframhaldandi áhuga á því, að vísindastofnun háskóla Sameinuðu þjóðanna eða sú deild, er hefur með haf- og fiskifræðirannsóknir að gera, hefði aðsetur á Íslandi. Íslenski fulltrúinn setti jafnframt fyrirvara vegna kostnaðar og annarra framkvæmdaatriða. Rn. veitti fastafulltrúanum heimild til þess að taka þessa afstöðu, eftir að hafa haft samráð við menntmrh. Fastafulltrúa var einnig falið að afla gleggri upplýsinga um það hjá Sameinuðu þjóðunum, hvers mundi verða krafist fjárhagslega af Íslandi vegna háskóladeildarinnar, ef hún yrði sett á stofn hér á landi.

Málið stendur því þannig, að Ísland er meðflutningsaðili að till. um háskóla Sameinuðu þjóðanna. Fastanefndin er að rannsaka, hvaða kostnað það mundi hafa í för með sér, ef ein deild úr þeim háskóla yrði hér á Íslandi. Við meðferð málsins hefur verið haft samband bæði við menntmrn. og sjútvrn.

Ég vildi láta þessa getið til upplýsinga fyrir n. þá, er fær málið til meðferðar, hæstv. utanrmn., og að sjálfsögðu getur hv. n. hvenær sem er fengið frekari upplýsingar um málið hjá utanrrn.

Ég held, að þetta mál sé mikillar athygli vert og sé sjálfsagt að kanna það til þrautar, hver hlutur Íslands getur orðið, eins og þessi till. fjallar raunar um. Ég fagna því, að þessi till. er fram komin, þannig að Alþ. hafi ástæðu eða aðstöðu til að taka afstöðu til þessa máls öðruvísi en þannig, að utanrmn. einni hafi verið skrifað, og ég vona, að við getum einnig sagt b, þegar við erum búnir að segja a í þessu máli, því að ég held, að það geti orðið okkur til mikils framdráttar að fá hér eina deild þessa alþjóðlega háskóla, og vona, að kostnaðurinn sé ekki óviðráðanlegur, en um það fást upplýsingar mjög bráðlega.

Ég vildi aðeins láta þetta koma fram, herra forseti.