06.12.1973
Sameinað þing: 31. fundur, 94. löggjafarþing.
Sjá dálk 1138 í B-deild Alþingistíðinda. (1029)

109. mál, aðild að háskóla Sameinuðu þjóðanna

Flm. (Magnús Jónason) :

Herra forseti. Ég þakka hæstv. utanrrh. fyrir svör hans, sem voru ágæt, svo langt sem þau náðu. Ég saknaði þess kannske ekki, vegna þess að ég veit, að rn, eru ógjarnan að vinna að störfum hvors annars, en ég hafði vikið að því í mínu máli áðan, að ég held, að ég verði að leyfa mér að gera þá fsp. til hæstv. utanrrh. vegna upplýsinga, sem ég fékk hjá fastanefndinni í New York, að það hafi ekki verið svarað umræddu bréfi, sem fastanefndin bað um, að væri svarað, með bréfi til utanrrn., að ég hygg 10. maí 1973, — því bréfi, sem hafði verið sent frá framkvæmdastjóra Sameinuðu þjóðanna, dags. 31. jan. 1973. Með þessu bréfi til utanrrn., hygg ég, að hafi fylgt uppkast, eins og ég gat um, af svarinu við bréfi framkvæmdastjóra Sameinuðu þjóðanna, en þessu bréfi hafi aldrei verið svarað. Fastanefndin a. m. k. tjáði okkur þm.-fulltrúunum, að það ylli henni miklum vandræðum, eftir að hafa flutt þetta mál í umboði íslensku ríkisstj. eða eftir heimild frá hæstv. utanrrh., sem hann réttilega gat um í svari sínu áðan, að málið skyldi hafa verið meðhöndlað á þennan hátt hér heima og þeir fyrst og fremst standa andspænis því við ráðamenn Sameinuðu þjóðanna, eftir að hafa verið meðflutningsaðilar að þessari till., að slíku bréfi hefði ekki verið svarað, og það enda þótt sent hefði verið hingað heim uppkast að svari, þannig að það hefði átt að kosta viðkomandi rn. ákaflega litla vinnu, þótt rn. séu önnum kafin, að láta umrita þetta bréf á sinn bréfhaus og senda þetta svar. Og ég vil nú leyfa mér að spyrja hæstv. utanrrh., hvort hér sé ekki rétt með farið af minni hálfu, því að ég vil ógjarnan vera með aðfinnslur, ef þær eiga ekki við rök að styðjast. Þess vegna þætti mér vænt um, af því að ég var búinn að segja það í frumræðu minni, að hann láti okkur í té upplýsingar um það, hvort hér sé ekki rétt með farið hjá mér að þessu leyti, að þessu bréfi hafi ekki verið svarað.