06.12.1973
Sameinað þing: 31. fundur, 94. löggjafarþing.
Sjá dálk 1139 í B-deild Alþingistíðinda. (1030)

109. mál, aðild að háskóla Sameinuðu þjóðanna

Utanrrh. (Einar Ágústsson):

Herra forseti. Ég hygg, að hv. 2. þm. Norðurl. e. fari hér með algerlega rétt mál, og ég hygg, að ástæðan fyrir því, að bréfinu hefur ekki verið svarað, sé sú, að menn hafi verið að velta fyrir sér kostnaðarhliðinni og eru að bíða eftir því að fá upplýst, hvað þetta muni kosta. Ég vænti þess, að þessar upplýsingar geti legið fyrir mjög fljótlega og þá verði hægt að svara bréfinu. Það er að sjálfsögðu til hægðarauka að fá svörin samin fyrir sig, en þó held ég, að málið hefði ekki strandað, þó að uppkast að svari hefði ekki fylgt. En ég veit ekki betur en það, sem ég var að segja núna, að tregðan stafi af því, að menn hafi verið hræddir við kostnaðarhliðina og viljað afla sér frekari upplýsinga um hana. (MJ: Það hefði verið hægt að svara því þá á þann hátt, þótt það hefði kostað að umsemja bréfið.) Ég skal taka þessa ábendingu til vinsamlegrar athugunar.