06.12.1973
Sameinað þing: 31. fundur, 94. löggjafarþing.
Sjá dálk 1139 í B-deild Alþingistíðinda. (1032)

120. mál, rannsókn á reki gúmbjörgunarbáta

Flm. (Pétur Sigurðsson) :

Herra forseti. Ég hef á þskj. 146 leyft mér að endurflytja þáltill. um rannsókn á reki gúmbjörgunarbáta. Till. þessi er endurflutt, hún var flutt seint á síðasta þingi, en varð þá ekki útrædd. Þessi till. var þá flutt að gefnu tilefni og reyndar fleiri en einu. Og enn hefur liðið tímabil sannað gildi þessara björgunartækja, þótt þau séu ekki einhlít, enda slys á sjó af margvíslegum tilefnum.

Ég hef hér á hv. þingi bent á fyrir nokkrum dögum, að frá því að við færðum út okkar fiskveiðilögsögu í 50 mílur 1. sept. í fyrra, hafa samkv. upplýsingum Slysavarnafélags Íslands 33 íslenskir sjómenn látið líf sitt í starfi, og síðan má bæta við a. m. k. einum, sem fórst austur á Norðfirði í gær, 5. des., er bát hans hvolfdi.

Yfirleitt má segja, að á hverju reglulegu þingi, eða a. m. k. síðan ég var kjörinn á þing, hafi komið fram till. og frv., sem varða bæði trygginga- og öryggismál sjómanna, og eru mörg góð mál þar á meðal. Má segja, að yfirleitt hafi Alþ. tekið vel í þær till., sem fram hafa komið á þessu sviði. Það hefur hins vegar komið fram gagnrýni frá eigendum skipa, útgerðarmönnum, vegna mikils kostnaðar, sem þessu hefur fylgt. En það eru líka til þeir útgerðarmenn, sem ekki hafa kvartað, en hafa hins vegar gengið á undan með góðu fordæmi og jafnvel verið framar áhugamönnum í þessum málum og betrumbætt skip sín og og búnað á þessu sviði, þannig að til fyrirmyndar er. Hins vegar skal því ekki leynt, að útgerðinni eru bundnir ýmsir baggar, ekki aðeins á sviði trygginga- og öryggismála sjómanna, heldur og á öðrum sviðum. Ég hef oftar en einu sinni lýst yfir hér á Alþ. þeirri skoðun minni, að í sambandi við öryggi sjómannastéttarinnar, sem skilar árlega nær hinni sömu ákveðnu prósentutölu sjómanna í hafið, væri sá kostnaður greiddur af almannafé, sem fylgir því að halda uppi mannsæmandi tryggingum — eða sá kostnaður væri greiddur af almannafé, sem fylgir því að halda uppi mannsæmandi tryggingum og öryggi, sem a. m. k. fylgir því besta, sem þekkist hjá öðrum útgerðar- og siglingaþjóðum.

Það er enginn vafi, að gúmbjörgunarbátarnir eru ein þörfustu björgunartæki, sem tekin hafa verið í notkun á okkar íslenska flota, og reyndar á flota annarra þjóða líka, og þeir hafa þegar bjargað fjölda mannslífa. Þeir hafa verið mikið endurbættir, frá því að notkun þeirra hófst hér á landi. Þetta hefur verið gert samkv. ráðleggingum sjómannanna sjálfra, en fyrst og fremst þeirra aðila, sem vinna að slysavarna- og öryggismálum, viðgerðarmanna og eftirlitsmanna þessara björgunartækja, sem hafa átt góða samvinnu við bæði innflytjendur bátanna og framleiðendur. Þessir bátar hafa verið styrktir á margan hátt. Það hafa verið festar í þá sterkari taugar og festingar í þeim sjálfum, þannig að þeir hafa betur haldist við skipshlið í sjávarróti, það hefur verið settur þakbúnaður á þá, það hafa verið settar í þá dælur og margbættur búnaður, sem við kemur hlífðarfötum í kulda og vosbúð, auk annars búnaðar, og fleira mætti að sjálfsögðu telja. En það er samdóma álit þeirra, sem að slysavarnamálum vinna hér við land, að það þurfi að halda áfram þessum endurbótum með frekara öryggi sjófarenda í huga.

Það, sem kemur fyrst upp í hug þeirra, sem hafa mælst til þess, að áfram verði haldið á þeirri braut, eru erfiðleikarnir á því að finna þessa báta, þegar hafrót er. Það hefur ekki tekist enn þá að yfirvinna vandamálið um að koma fyrir á þeim ratsjárendurskinsmerki svokölluðu, sem gerir skipum, sem þannig eru búin, kleift að sjá bátana á haffletinum. Það hafa ýmsar till. komið upp um þetta, en þær hafa ekki komist í framkvæmd og reyndar engar tilraunir farið fram hér við land, eins og t. d. að búa bátana sjálfa eða þak þeirra slíku endurskinsmerki, þannig að það verði alltaf til staðar, um leið og þak þeirra og þeir sjálfir blásast upp.

Þá er auðvitað sjálfsagt að huga að radíótækjum. Það er nokkuð langt síðan hér á landi komu fram till., sem voru framkvæmdir af nokkrum útgerðarmönnum og skipstjórum, þeir tóku sig til af sjálfsdáðum án nokkurra fyrirmæla um að vera með hreyfanlegar neyðartalstöðvar í skipum sínum. Og stuttu síðar var sett í reglugerð ákvæði um, að hin stærri skip skyldu búin þessum stöðvum. Það kom samt sem áður fram á þinginu í fyrra í sambandi við þáltill., sem flutt var í Sþ., að bátarnir skyldu útbúnir með mjög handhægum neyðarsenditækjum, sjálfvirkum, sem taka ætti með, þegar farið væri í björgunarbátana. Það kom fram, að bátarnir hefðu ekki enn verið búnir þessu tæki vegna kostnaðar. Þessi tæki eru þannig, að það þarf enga kunnáttumenn til að fara með þær, það þarf ekki annað en draga út loftnet þessara stöðva, til þess að þær fari í gang og hefji útsendingar á neyðarbylgju. En því miður er oft svo um þessi tæki og öryggisútbúnað skipanna, að hann kemur alls ekki að notum vegna kunnáttuleysis þeirra, sem um borð eru, og er enginn vafi á því, að undanþágufarganið svokallaða á fiskiskipaflotanum á stóran þátt í því. Ætti auðvitað að gera þá lágmarkskröfu til þeirra skipstjórnenda, sem á undanþágu eru, að þeir kunni að fara með lögboðin öryggistæki, sem í skipunum eru. Það er ekki alltaf nóg að geta veitt fisk.

Hinu er auðvitað ekki að leyna, að þetta leysir ekki allan vanda. Svo getur staðið á, ef slys verður um borð í skipi, að þar sem þessari talstöð sé komið fyrir, sé útilokað fyrir áhöfn að ná til hennar og taka hana með sér, auk þess sem menn geta þurft að hugsa um annað en brjóta sér kannske leið aftur í brú eða stýrishús báts til þess að ná í hana, ef t. d. eldur geisar, eða þá hún sé hreinlega farin fyrir borð, ef brotsjór hefur tekið yfirbyggingu báts.

Menn, sem ég hef rætt við, hafa hins vegar fest hugann við þá till., að hægt verði að koma fyrir í bátunum sjálfum sjálfvirkum radíósendi, sem fari í gang, um leið og báturinn fyllist af lofti eða blæs út. Þetta mundi vera byggt á sama fyrirkomulagi og sjódælur, sem eru í þessum bátum og fara í gang, ef sjór hefur komist í bátana, þegar þeir eru blásnir út. Ég hef þá trú, að ef ekki verður lagt út í að útbúa flotann með fyrrnefndu talstöðvunum, komi þessar siðarnefndu stöðvar að gagni og langdrægi þeirra geti verið allt að 50–80 sjómílur, en það fer að sjálfsögðu nokkuð eftir kringumstæðum og aðstæðum. Þessar stöðvar yrðu stöðugt í gúmbjörgunarbátunum og yrðu aldrei teknar úr þeim, en yrðu skoðaðar árlega eins og önnur björgunartæki skipsins.

Þá er auðvitað fleira, sem getur komið til greina í sambandi við útbúnað þessara báta. Ef menn eru slasaðir í þeim eða illa farnir og hrjáðir, þá geta bátarnir verið á hvolfi langtímunum saman. Það vantar á bátana, bæði á botn þeirra og að ég held á þak flestra þeirra, sjálflýsandi gjarðir eða merki, þannig að ef skip er í sjónmáli, þá sjást þeir í myrkri. Þessi atriði og mörg önnur koma auðvitað til álita hjá þeim mönnum, sem mundu að þessu vinna, ef till. þessi verður samþykkt.

Ég tók það fram, þegar till. þessi var flutt hér á síðasta þingi, að hún hefði verið flutt af sérstöku tilefni eða þess slyss, þegar vélskipið Sjöstjarnan fórst, og þeirrar umfangsmiklu leitar, sem þá átti sér stað með innlendum og erlendum skipum og flugvélum. Það kom þá í ljós, að jafnvel þeir, sem fróðastir eru um þessi mál, telja sjálfir, að það sé ábótavant um þá vitneskju, sem þurfi að vera fyrir hendi, þegar til slíkrar leitar er gengið, þeir vita ekki með fullri vissu, hvaða áhrif vindar og straumar hafa á rek gúmbjörgunarbáta, auk þess sem þetta eru óþekkt öfl að miklu leyti, þegar kemur að því að reikna þau út. Það má segja, að niðurstöður breytist, bæði með stærð björgunarbátanna og eins með þyngd þeirra eða lestun. Að vísu er skylt að taka það fram, að á síðustu árum hefur Hafrannsóknastofnunin miðlað íslenskum sjófarendum mikilli þekkingu um strauma hér við land, hraða þeirra og styrkleika. En samt vantar mikið á, að nægilegt sé gert fyrir skipstjórnarmenn hér við land á þessu sviði. Það, sem vantar á í sambandi við þetta, er um áhrif vinda og hafróts og hvernig þessi öfl vinna saman, þegar slíkt farartæki eða björgunartæki, ef svo mætti orða það, þegar slíkur bátur er á reki við þessar aðstæður. Það er þetta, sem ég er að leggja til, að verði kannað hér við land. Það hefur líka verið kannað og er hægt að kanna það, hvaða áhrif kuldi hefur á menn í slíkum bátum að vetrarlagi. En líklegast eru rannsóknir á því sviði í sambandi við þessi björgunarmál lengst komnar, og er það að sjálfsögðu byggt á rannsóknum, sem áttu sér stað í og eftir síðustu heimsstyrjöld.

Það var stórt átak gert á sínum tíma, þegar konur í björgunarsveitum víðsvegar um land, sérstaklega í nokkuð mörgum sjávarplássum, tóku sig til og bjuggu þessa gúmbjörgunarbáta með íslenskum ullarfatnaði og öðru, sem mátti verða til þess að bjarga frá þeim hræðilega kulda, sem hlýtur að hrjá menn, er þeir komast í björgunarbátana, þegar sjór er kannske við frostmark eða undir frostmarki og lofthiti langt undir frostmarki, auk hafróts, og þeir koma kannske votir eða blautir í bátana. Um það leyti sem þessi till. var flutt í fyrsta sinn, fengum við ábendingu úr heimsfréttunum, sem varðaði einmitt þessa till., en þá var sagt frá slysi, sem margir munu minnast, við austurströnd Bandaríkjanna, þegar skip fórst þar og eftir 4 sólarhringa fannst einn maður á lífi af þessu skipi, en hann hafði verið á lestarhlera allan þennan tíma, ofurseldur bæði stórviðri, miklum sjó og vindi. En það var talið þá í fréttum, að hann mundi ná fullri heilsu eftir þetta álag. Að vísu er þarna um allt önnur skilyrði að ræða en hér við Ísland. Þetta hefur gerst þar sem Golfstraumurinn gengur norður með Bandaríkjunum og þar sem hann er sterkastur, þannig að sjór hefur verið heitur, en hins vegar hefur loft verið kalt um þetta leyti. En það er auðvitað sjálfsagt fyrir aðila, sem koma til, ef till. þessi verður samþ., að skoða slík dæmi, enda veit ég, að það hefur þegar verið gert og allar þær staðreyndir, sem koma í ljós í sambandi við það.

Till. mín var og er á þá leið, að ríkisstj. verði falið að láta fara fram hið fyrsta ítarlega rannsókn á reki gúmbjörgunarbáta við mismunandi veðurskilyrði á hafinu umhverfis Ísland, enn fremur á búnaði bátanna, þ. á m. radíósenditæki, sem staðsett væri í þeim. Og í niðurlagi till. legg ég til, að það sé sjóslysanefnd, sem hafi forgöngu um rannsókn þessa, en kostnaður allur greiðist úr ríkissjóði. Að sjóslysanefnd standa allir þeir aðilar, sem að okkar fiskiflota standa, að ég tel. Þar eiga aðild bæði útgerðarmenn og sjómenn, bæði yfir- og undirmenn, Siglingamálastofnunin og svo sá aðilinn, sem hefur hugsað mest um öryggi sæfara, Slysavarnafélag Íslands. Ég held, að mér sé óhætt að segja, að það sé fullt traust borið til allra þessara aðila, sem ætlað er að starfa að þessu máli.

Um það leyti sem síðasta þingi lauk, bárust fréttir af því, að Raunvísindastofnun háskólans eða einn af starfsmönnum hennar, Þorbjörn Karlsson vélaverkfræðingur, hefði tekið sig til og reynt að reikna út á sama hátt og gert hefur verið í Bandaríkjunum og samkv. bandarískum reglum þau áhrif, sem straumar og vindar hefðu á rek þessara báta hér við land. Nú er enginn vafi á því, að þetta er það, sem koma skal, og ég skal verða fyrstur til þess hér að lýsa sérstökum fögnuði yfir því, að einn af okkar vísindamönnum skuli leggja starf fram til að vinna að þessu. Hins vegar verður að játa, að það næst ekki fullkominn árangur af því, fyrr en þær staðreyndir, sem þarf að setja í tölvuna, eru byggðar á íslenskum aðstæðum og það helst ekki aðeins á einum stað við landið, heldur víðs vegar í kringum land. Hann gerði sína reikninga og byggði þá á staðreyndum, sem fundnar höfðu verið út af strandgæslu Bandaríkjanna með rannsóknum, sem hún hafði látið fara fram. Ég held, að það sé óhætt að segja fyrir hönd þeirra, sem til þekkja, að það sé ákaflega mikill munur á sjávarróti, a. m. k. víða, þar sem þær rannsóknir fóru fram, fyrir utan það, að ég held, að aldrei hafi verið og ekki reiknað með fleiri vindstigum en 8, sem ég held, að sumir íslenskir sjómenn mundu nú kalla nafni tíkargjólunnar, en allavega ekki rok eða storm. En þetta þarf auðvitað að liggja fyrir hér og það þarf einmitt að liggja fyrir um erfiðustu svæðin, sem okkar fiskimenn þurfa að fara um, þar sem bæði sterkir straumar og kannske gagnstæður vindur eða kannske vindar úr tveimur áttum, eins og þekkist, eða straumar úr fleiri en einni átt mætast. Þetta er jafnframt ósk Slysavarnafélags Íslands, en ég hef átt um þetta viðræður við framkvæmdastjóra þess. Það er ósk Slysavarnafélags Íslands, að að þessu verði unninn bráður bugur, til þess að þetta geti legið sem fyrst fyrir og það verði hægt að vinna að þessu fullkomlega nú á yfirstandandi vetri. Sá misskilningur komst inn í málgagn yfirmanna, sjómannablaðið Víking, að þessi till. hefði verið samþ. á s. l. þingi, en það var því miður ekki, enda hún þá seint fram borin.

Ég tel eðlilegt, eins og lagt var til af hæstv. forseta á síðasta þingi, að um málið verði tvær umr., því að ég legg til í niðurlagi till., að kostnaður greiðist úr ríkissjóði, ef hún verður samþ., og það er kannske meginmál till. gr. og það sést best á því, sem ég hef þegar sagt, af því, sem þegar hefur verið unnið að þessu máli, að það er meginmál gr. að fá fé til þess að standa undir þessum tilraunum. Ég vil hins vegar benda hv. þm. á það, að ég sjálfur óttast ekki kostnaðinn svo mjög. Ríkissjóður á stóran skipaflota, sem hefur farið vaxandi að undanförnu, bæði skip, sem vinna að rannsóknum og við landhelgisgæslu, og þarf hvorki að taka upp mikinn tíma fyrir þeim né vera mikill kostnaður af. Og ég veit, að einstök útgerðarfyrirtæki í eigu einstaklinga og annarra mundu verða fús til þess að leggja hönd á plóginn, og ég vænti þess, að samtök sjómanna verði það jafnframt.

Herra forseti. Ég legg til, að þegar umr. þessari er lokið, verði málinu vísað til síðari umr. og hv. fjvn.