10.12.1973
Efri deild: 33. fundur, 94. löggjafarþing.
Sjá dálk 1154 í B-deild Alþingistíðinda. (1042)

145. mál, tekjustofnar sveitarfélaga

Axel Jónsson:

Herra forseti. Ég fagna því, að þetta frv. er komið fram. Það hefur verið kappsmál sveitarstjórnarmanna að ná fram breytingu eða leiðréttingu efnislega í þá átt, sem hér er lagt til. Ég get tekið undir það, sem hæstv. ráðh. sagði í sinni framsöguræðu varðandi þá efnisliði, sem hér er lagt til að gera breytingar á. Ég minni á, að sveitarfélögin verða að byggja að meginparti tekjur sínar á útsvörum og þan eru grundvölluð á tekjum næstliðins árs á undan. En ávallt fyrri hluta árs, þar til álagning hefur farið fram, hafa tekjur sveitarsjóðanna af útsvörum verið byggðar á tekjum fyrir tveimur árum, en allt, sem sveitarfélögin þurfa að framkvæma, hvort heldur er þjónusta eða mannvirkjagerð o. s. frv., þarf auðvitað að greiða á verðlagi þess tíma, er framkvæmdin á sér stað. Sér í lagi þegar eru þenslutímar, er vissulega mikið hagræði, að sveitarsjóðunum verði gert kleift að innheimta þó 60% af fyrirframgreiðslum í stað 50%, eins og gildandi lög kveða á um. Ég tel einnig, að þetta sé til hagræðis fyrir gjaldendurna, þannig að þegar er komið fram yfir mitt ár, þá eru þeir búnir að greiða eðlilega stærri hluta af þeim gjöldum, sem þeir þurfa að greiða, með því að hafa þennan háttinn á, heldur en er varðandi framkvæmd l. eins og þau eru í dag.

Ég gat þess, að sveitarsjóðirnir verða fyrst og fremst að byggja tekjur sínar á útsvörunum. Fyrir áramótin eða fyrir hátíðar á s. l. ári skeði það, að gefin var út yfirlýsing um, að engu sveitarfélagi yrði veitt heimild til þess að hækka útsvör um 10%. En eins og kunnugt er, er ákvæði um það í 25. gr. núgildandi tekjustofnalaga, að sveitarstjórnir geti hækkað útsvörin frá 10% skalanum um 10%, en þurfi til þess samþykki ráðherra. Það er hins vegar mín skoðun, að það sé óeðlilegt, að sveitarstjórnir séu háðar samþykki ráðherra. Það er hins vegar mín skoðun, að það sé óeðlilegt, að sveitarstjórnir séu háðar samþykki ráðherra til þess að hækka útsvör um allt að 10%. En meðan það ákvæði er í l., tel ég enn fráleitara, að fyrir fram sé því slegið föstu fyrir öll sveitarfélögin á landinu, að ekki komi til greina að líta á nauðsyn þeirra til þess að fá að nýta skalann til fulls, þ. e. a. s. að leggja 10% álag á útsvörin. Ég vil því beina þeirri fsp. til hæstv. ráðh., hvort nokkur áform séu nú uppi um slíkar ákvarðanir fyrir fram og án þess að málin séu skoðuð betur, eins og gert var á s. l. ári.

Eins og hæstv. ráðh. tók fram, hækkuðu fasteignaskattarnir og eru nú verulegri þáttur í tekjuöflun sveitarfélaganna en áður, og eins og hann tók fram, getur það átt við það sveitarfélag, sem ég þekki gleggst til, að þar voru fasteignaskattarnir 18% af tekjum sveitarsjóðsins árið 1972, en mundu verða að óbreyttum ákvæðum nú aðeins 12% fyrir árið 1974. Og það er vissulega rík nauðsyn á því fyrir sveitarsjóðina, að fasteignaskattarnir haldi sínu gildi í tekjuöflun þeirra, en rýrni ekki í raun, eins og varð á s. l. ári, þar sem þeir eru óbreyttir að krónutölu, að öðru leyti en því, þar sem er um að ræða aukningu á húsnæði, sem skattlagt er.

Ég vil aðeins víkja örfáum orðum að enn einum tekjulið sveitarsjóðanna. Það eru aðstöðugjöldin. Eins og kunnugt er, þá er það ákvæði í núgildandi lögum um tekjustofna sveitarfélaga, að sveitarstjórnum er heimilt að innheimta sem nemur 65% af þeim aðstöðugjöldum, sem þau innheimtu árið 1971. Ég hygg, að það sé ekki ofsagt, þó að þetta ákvæði hafi á sínum tíma verið hugsað sem bráðabirgðaákvæði fyrir árið 1972. Og það hlýtur að liggja í augum uppi, að það er óeðlilegt til lengdar og raunar nú þegar að miða fasteignagjöldin við þá tilviljun, vil ég segja, sem ríkti í þessum efnum árið 1971. Ég skal taka sem dæmi, að af 15 sveitarfélögum í Reykjaneskjördæmi innheimtu 13 aðstöðugjöld og hafa nú heimild til þess að innheimta 65% af því, sem þau innheimtu 1971. Hin tvö hafa hins vegar ekki möguleika til þess að taka upp aðstöðugjöld, þó svo að aðstæður hafi að öðru leyti breyst í sveitarfélaginu. Og ég vil nefna enn frekar kannske sláandi dæmi um eitt sveitarfélagið af þessum 13. Þau tóku upp aðstöðugjöld á árinu 1971 og töldu þar upp í þremur liðum þær atvinnugreinar, sem þau ætluðu að leggja aðstöðugjald á. En þeim sást yfir það að hafa hið almenna orðalag, að gera ráð fyrir því, að annað ótalið félli síðan undir tiltekna aðstöðugjaldsálagningu. Þetta þýddi það, að síðan 1971 hefur þetta sveitarfélag fengið inn til sín verktakafyrirtæki, sem ekki voru þar árið 1971. Það hvarflaði ekki að þeim að leggja aðstöðugjöld á annan atvinnurekstur heldur en var hjá þeim, og þeir geta ekki með neinu móti fengið synjun á því að leggja aðstöðugjald á þessi verktakafyrirtæki, sem flutt hafa til þeirra síðan. Ég nefni þetta sem dæmi um, að það er fráleit ráðstöfun að búa lengi við það, að grundvöllur aðstöðugjaldanna sé sú álagning, sem beitt var á árinu 1971. Menn getur greint á um réttmæti aðstöðugjaldanna, en meðan þau eru tekjustofn til sveitarfélaganna, og það þurfa þau að vera, þar til annar eða aðrir tekjustofnar leysa þau af hólmi, þá þarf að vera réttlátari skipan og eðlilegri á, hvernig þeim er beitt.

Þá vil ég og víkja örlítið að dráttarvöxtunum. Áður fyrr var það þannig, að þeir, sem voru skuldlausir, fyrst um mitt ár og síðan að lokum um áramót, fengu afslátt í útsvari næsta árs, þannig að það var jákvæður hvati til gjaldenda um að standa í skilum. Síðan var þessu breytt og tekið upp dráttarvaxtakerfið. Raunar var það í lögum áður. Ég vil minna á, að það er búið að vera lengi í lögum, mun vera gamalt í sveitarstjórnarlögum, það er allt frá þeim tíma, þegar voru einn eða tveir gjalddagar. Þrátt fyrir það að það hafi verið í l., þá mun því óvíða hafa verið beitt. En síðan þessi breyting var gerð, var vissulega enn frekar nauðsyn sveitarfélaganna að framfylgja þessu lagaákvæði til þess að reyna að hafa eitthvert aðhald um sín innheimtumál. Það er hins vegar mála sannast, að það hefur reynst mjög erfitt í framkvæmd hjá sveitarfélögunum um þennan 1.5% dráttarvaxtaútreikning, þegar um 10 gjalddaga er að ræða, eins og er víðast hvar nú, a. m. k. nema þá í alfámennustu sveitarfélögunum. Þar að auki er kannske hægt að segja sem svo, að 11/2% dráttarvextir á mánuði séu ekki verulegir refsivextir, miðað við þá vaxtahækkun, sem orðið hefur síðan þetta var ákveðið á árinu 1972. En ég varpa þessu fram vegna þess, að mér er kunnugt um, að það hefur reynst mörgum sveitarstjórnum erfitt að framkvæma þetta, og ég hygg, að það séu mjög fáar, sem gera það nákvæmlega eftir lagabókstaf, þó að fleiri og fleiri reyni að nálgast það í framkvæmd, eftir því sem föng eru á.

Ég tek undir það með hæstv. ráðh., að það er mikil nauðsyn á því, að þetta mál fái sem skjótasta afgreiðslu. Sveitarfélögin eru að ganga frá sínum fjárhagsáætlunum. Þau þurfa að senda til úrvinnslu í skýrsluvélum gjaldseðla, og fyrri gjalddagi fasteignaskattanna er 15. jan., þannig að það er skammur tími til þess að vinna út þá gjaldseðla, sem senda þarf út vegna þessa, og því mikil nauðsyn á, að þau fái sem fyrst vitneskju um, hvaða möguleika þau hafa í þessum efnum. Og vissulega er ástæða til þess, að sá hæstv. ráðh., sem á að ákveða samkv. þessari gr., hvað verður með fasteignaskattana, láti ekki standa á sinni ákvörðun, þegar lögin hafa verið samþykkt. Það er því mikið hagsmunamál fyrir sveitarstjórnir að fá sem skjótasta afgreiðslu málsins.