10.12.1973
Efri deild: 33. fundur, 94. löggjafarþing.
Sjá dálk 1158 í B-deild Alþingistíðinda. (1045)

145. mál, tekjustofnar sveitarfélaga

Félmrh. (Björn Jónsson) :

Herra forseti. Það eru aðeins örfá atriði út af því, sem fram hefur komið í ræðum þeirra, sem hér hafa tekið til máls.

Það er þá kannske fyrst í sambandi við það, sem hv. 5. þm. Reykn. tíundaði, að ég hefði haft uppi aðra skoðun á þessu máli, þegar það hefði verið hér til umr. fyrir nokkrum árum. Ég held, að mér sé nú næst að segja eins og maðurinn, að ég hef oft skipt um skoðun á skemmri tíma en 2–3 árum. En það, sem hér er um að ræða, er auðvitað það, að nú eru meiri breytingar milli ára á verðlagi og tekjum heldur en áður hafa verið. Það er staðreynd, sem er ljós, hvort sem mönnum þykir hún ljúf eða leið, og þess vegna er það eðlilegra nú, að þessi háttur sé á hafður, heldur en meðan minni breytingar voru milli ára á tekjum manna og gjöldum sveitarfélaganna. Það er hins vegar alveg rétt hjá hv. þm., að auðvitað þýðir slík heimild, ef hún er notuð til hins ýtrasta, þyngingu á gjöldum þeirra, sem fasteignir eiga og ekki hafa undanþágur. Og ég er alveg sammála honum um, að auðvitað er nauðsynlegt fyrir hæstv. fjmrh., sem hér hefur úrskurðarvald, að beita þessari heimild með fullri gætni. Ég tel líka, að það sé full ástæða til að athuga um undanþáguréttinn og e. t. v. að víkka hann eitthvað út frá því, sem nú er. En það er önnur saga, sem þetta frv. fjallar ekki um.

Það eru ekki alveg rétt rök, að þetta frv. þýði endilega það, að gert sé ráð fyrir því, að verðbólga geisi áfram. Það er bent á, að það hafi alltaf verið breytingar á milli ára, og þær hafa orðið meiri núna en áður. En ég skoða ekki þessa breytingu, sem hér er gerð, sem neitt eilífðarmál. Þessu er hægt að breyta aftur, ef aðstæður breytast, og kemur þá að sjálfsögðu til endurskoðunar, ef hér kæmist á stöðugt verðlag, sem því miður virðast ekki miklar líkur til, að verði á næstunni. En auðvitað segir frv. ekkert um skoðanir eins eða neins um það, hvort verðbólgan geisi áfram, eins og hún hefur gert, eða hvort þar verður hægt að hemla að einhverju leyti, sem óskandi væri.

Svar við því, sem hv. 2. þm. Reykv. sagði, að það vantaði lög um fasteignamat, er raunverulega komið, með því að búið er að leggja frv. á borð hv. þm. Ég varð ekki var við það á mínu borði að vísu, en mér er kunnugt um, að frv. til l. um fasteignamaí er tilbúið af hálfu ríkisstj. og er meiningin að reyna að halda fasteignamati í réttu horfi framvegis, en frv. stefnir að því.

Þá er það loks varðandi bað, sem hv. 3. þm. Reykn. sagði hér, sérstaklega það, sem hann spurði mig um, hvort áform væru uppi um það í félmrn. að gefa út fyrir fram fyrirskipun eða yfirlýsingu um, að bæjarfélögum yrði ekki leyft að hækka um þetta 1%, sem rúm er fyrir í tekjustofnalögunum, þá er því til að svara, að til mín hafa ekki borist enn þá neinar óskir frá neinu sveitarfélagi um að beita þessu hækkunarákvæði. Ég skal ekkert segja um, hvað verður í því efni, en ég hef a. m. k. ekki í hyggju að gefa neina algilda fyrirframyfirlýsingu um slíkt. Ég mun beita mér fyrir því, að það verði vegið og metið af sanngirni, þegar og ef slíkar óskir berast, og hef ekki í hyggju að beita mér fyrir því, að neinar algildar yfirlýsingar verði gefnar um það, að slík hækkun verði undir engum kringumstæðum leyfð. Ég álít, að það sé nauðsynlegt, að ýmislegt í sambandi við fjármál sveitarfélaganna og gerð fjárhagsáætlana skýrist betur en nú er, áður en ákvörðun er tekin um slíka hluti.

Það er augljóst, að ef heimildarákvæðinu, sem hér er gert ráð fyrir til fjmrh. varðandi fasteignagjöldin, verður beitt að verulegu eða öllu leyti, þá er um að ræða verulegt fjárhagsatriði fyrir bæjarfélögin, og ætti þá að vera minni þörf á hækkun útsvars um það 1%, sem hér getur verið um að ræða. En ég treysti mér ekki á þessari stundu til þess að kveða upp neinn allsherjardóm um það, hver sú þörf yrði, þrátt fyrir þá breytingu. Það mál verð ég að íhuga og mitt rn. betur, áður en ákvörðun verður tekin um slíkt.

Ég get að flestu leyti verið sammála því, sem hv. 3. þm. Reykn. sagði um aðstöðugjöldin. Ég held, að það mál þurfi athugunar við. Það er rétt, að það komi fram, að a. m. k. í mínum huga og margra annarra, sem stóðu að þeirri breytingu, sem var gerð hér á tekjustofnal. og þar með ákvörðun um söluskatt á sínum tíma eða í ársbyrjun 1972, þegar aðstöðugjöldin voru lækkuð, þá var það í okkar huga margra, að þetta væri spor í þá átt til að afnema aðstöðugjöldin. Vegna tiltölulega og stundum a. m. k. mjög þröngs fjárhags sveitarfélaganna, hefur ekki þótt fært að stíga þarna skref lengra til lækkunar eða afnáms gjaldanna. Ég er þess vegna þeirrar skoðunar, að sé það að athuguðu máli talið rétt, að aðstöðugjöldin haldist í svipuðu formi og þau eru núna, þá eigi að jafna aðstöðu sveitarfélaganna til þess að leggja eitthvað á og það eigi að gilda ein og sama reglan fyrir öll sveitarfélögin, ef ekki er um það að ræða að stefna rakleitt að því að afnema þau gjöld. Ég álít, að gjöld eins og aðstöðugjöld, sem eru lögð á og greidd án tillits til greiðslugetu, séu óeðlileg, og ég álít, að miklu æskilegra væri að afnema þau. En það er ekki víst, að allir séu mér sammála um það. En verði hins vegar talið nauðsynlegt að halda þeim áfram miklu lengur en nú er og sem frambúðartekjustofni fyrir sveitarfélögin, þá tel ég sjálfsagt mál, að öll sveitarfélögin sitji þar við sama borð.