10.12.1973
Efri deild: 33. fundur, 94. löggjafarþing.
Sjá dálk 1160 í B-deild Alþingistíðinda. (1046)

145. mál, tekjustofnar sveitarfélaga

Axel Jónsson:

Herra forseti. Ég þakka hæstv. ráðh. svör hans við fsp, minni, og fagna því, að það skuli verða metið, þegar þar að kemur, í einstökum tilvikum, hvort sveitarfélögum verði heimilt að hækka útsvör um 10%. Eins og ég gat um í fyrri ræðu minni tel ég óeðlilegt, meðan þetta heimildarákvæði til handa ráðh. er, að því sé fyrir fram slegið föstu, að ekki komi til greina, að nein sveitarfélög fái að hækka útsvör sín samkv. þessu. Þarfir þeirra eru vissulega mismunandi og sér í lagi flestra eða allra þéttbýlissveitarfélaganna, sem standa í miklum framkvæmdum og eru gerðar miklar kröfur til um síaukna þjónustu. Þau munu kannske þurfa á þessu að halda. En það kemur í ljós, þegar álagning liggur fyrir. Um það er ekkert unnt að segja fyrr en þá. En ég fagna því, að það skuli ekki vera áform uppi um það að kveða það alfarið niður, heldur verði það skoðað, þegar málið liggur ljóst fyrir, eins og gert var á s. l. ári.

Varðandi fasteignaskattana og það, að ýmsum eldri og veikbyggðari gjaldendum sé gert þungt fyrir með þeim, þá má það kannske að einhverju leyti til sanns vegar færa. Hér á Reykjanessvæðinu hafa sveitarstjórnirnar, held ég, gengið mjög langt í því að beita þeim undanþáguheimildum, sem eru í 5. gr. l., og sveitarstjórnarmenn eru ekki síður dómbærir um slíkt og kannske ekki með minni yfirsýn yfir þá hluti heldur en rn., með allri virðingu fyrir því, og sveitarstjórnarmenn þurfa að leggja sín verk undir dóm íbúa sinna sveitarfélaga. Til viðbótar því, að þeir hafa staðarþekkingu, þá hygg ég, að reynslan varðandi þetta hafi sannað það ótvírætt, að heimildarákvæðin eru verulega notuð. Og ég get nefnt það frá því sveitarfélagi, sem ég þekki gleggst til, Kópavogi. Það er hins vegar mikið samræmi meðal sveitarfélaga á Reykjanessvæðinu og Reykjavíkur um beitingu tekjustofnalaganna og heimildarákvæða til lækkunar. Það er eðlilegt, að það sé samræmi milli þessara sveitarfélaga. Þau hafa mjög svipaðar þarfir og svipuðum skyldum að sinna, og það er óhætt að fullyrða, að það hafi verið gengið mjög langt í að beita því ákvæði 5. gr., sem er þannig með leyfi forseta:

„Heimilt er sveitarstjórn að lækka eða fella niður fasteignaskatt, sem efnalitlum elli- og örorkulífeyrisþegum er gert að greiða. Sama gildir um lífeyrisþega, sem ekki hafa verulegar tekjur umfram elli- og örorkulífeyri.“

T. d. hjá bæjarstjórn Kópavogs er framtalsnefndinni falið að yfirfara öll framtöl slíkra aðila og gera síðan till. til bæjarráðs um lækkun eða niðurfellingu. Ég get ekki svarað nákvæmlega, hversu há sú tala var. Það mun vera hátt í 200 gjaldendur í Kópavogi, sem fengu lækkanir samkv. þessu, án þess að verulegur hluti þeirra sækti um það. Og varðandi innheimtu á fasteignasköttum nú, hygg ég, að á þessu svæði sé yfirleitt innheimt 85–90% miðað við síðustu mánaðamót. Og svo að ég vitni enn til þess staðar, sem ég þekki best til, Kópavogs, þar var 90.25% innheimt af fasteignagjöldum ársins í ár um síðustu mánaðamót. En ég bendi á, að varðandi fasteignaskattana áður, meðan þeir voru lægri, þá voru samt ekki heimildir til þess að fella þá niður og urðu oft nokkur vandamál fyrir sveitarstjórnirnar, þegar í hlut áttu gjaldendur, sem alfarið gátu ekki risið undir lágum fasteignasköttum einu sinni, en þá var þetta óheimilt lögum samkv.

Ég hef, herra forseti, aðeins rakið þetta til þess að undirstrika það, að ég tel, að sveitarstjórnir hafi farið mjög varlega í það og einmitt tekið mikið tillit til þeirra gjaldenda, sem vissulega þarf að hlífa við háum sköttum í þessu efni.