10.12.1973
Neðri deild: 38. fundur, 94. löggjafarþing.
Sjá dálk 1166 í B-deild Alþingistíðinda. (1062)

149. mál, innflutningur búfjár

Flm. (Guðmundur Þorsteinsson) :

Herra forseti. Ég hef leyft mér að leggja fram frv. til l. um breyt. á l. nr. 74 frá 28. apríl 1962, um innflutning búfjár, og er það prentað á þskj. 202, sem útbýtt hefur verið í deildinni.

Frv. til þeirra laga, sem hér um ræðir, var samið af nefnd, sem skipuð var af þáv. landbrh., og með því var mörkuð sú stefna að heimila innflutning á djúpfrystu sæði af Galloway-holdanautastofninum. En þá er þetta frv. var samið, hafði um nokkra áratugi verið bannaður allur innflutningur á búfé, eða allt frá því að sannað þótti, að karakúlpestirnar svonefndu, þ. e. garnaveiki og mæðiveiki, hefðu borist hingað með innfluttu sauðfé. Afleiðingum þessara pesta þarf ekki að lýsa fyrir þm., og innflutningsbönn voru eðlileg og sjálfsögð viðbrögð við þessum atburðum. Með tilkomu nýrrar tækni í geymslu sæðis við mjög lágt hitastig sköpuðust hins vegar ný viðhorf, og með setningu áðurnefndra laga 1962 og endurskoðun þeirra 1972 var komið til móts við eindregnar óskir ýmissa bænda og stofnana þeirra um innflutning holdanautasæðis. Þar sem svo skammt er síðan um þessi mál var fjallað hér á Alþingi, er mér væntanlega óhætt að fara fljótt yfir þá sögu, en þó vil ég aðeins drepa hér á fáein atriði.

Gert er ráð fyrir í núgildandi l., að komið verði upp sérstakri sóttvarnarstöð, þar sem 12 kýr af íslenska Galloway-stofninum verði frjóvgaður með innfluttu sæði af sama stofni, sömuleiðis þau afkvæmi, sem af þeim fæðast, og þannig áfram til þess að fá sífellt hreinni stofn. Gert er ráð fyrir, að eftir u. þ. b. 12 ár frá fyrsta innflutningi sæðis verði kominn þarna tiltölulega arfhreinu stofn, sem síðar yrði notaður til einblendingsræktunar með íslenska mjólkurkúastofninum. Fyrirkomulag þetta er tvímælalaust mjög öruggt varðandi sjúkdómshættur, en gallarnir við það eru þeir, að það er bæði fjárfrekt, rekstur stöðvarinnar og þetta stranga eftirlit, sem gert er ráð fyrir, og þar að auki nokkuð seinvirkt. Stærstan ókost við þetta tel ég þó vera þann, að engin vitneskja fæst með þessari starfsemi um það, hvort önnur kyn kynnu ekki að henta að ýmsu leyti betur eða a. m. k. jafnvel til þessara nota fyrir íslenska bændur, en það er skoðun margra þeirra, sem eru kunnugir þessum málum. Allar tilraunir á þessu sviði með mismunandi holdanautakyn eru útilokaðar með ákvæðum þeirra l., sem í gildi eru, og ég hef flutt þetta frv. til þess að bæta úr því. Tilraunum með slík kyn fylgir augljóslega allmikill kostnaður, en hér er um svo mikið hagsmunamál að ræða, að full ástæða er til að verja nokkrum fjármunum til að afla sem fyrst einhverrar vitneskju í þessum málum.

Einblendingsræktun holdakynja er í því fólgin, að þær kýr, sem ekki eru líklegar til kynbóta, eru frjóvgaðar með sæði úr holdanautum, til þess að afkvæmin verði verðmætari sláturgripir vegna bættra holdsöfnunareiginleika, sem þau afkvæmi erfa frá föðurnum. Vegna langrar húsvistar og mikils fóðurkostnaðar nautgripa hér á landi virðist ólíklegt, að fyrir hendi sé grundvöllur fyrir hagkvæmri framleiðslu nautakjöts af hreinum holdakynjum, svo sem gerist í öðrum löndum, þar sem mjólkurnyt kúnna fer nær öll til uppeldis kálfanna. Hins vegar er um að ræða tvær stefnur í framleiðslu nautakjöts með einblendingsræktun. Önnur stefnan er í því fólgin að nota harðgert beitarkyn til blöndunar, eins og t. d. Galloway-kynið, þó að ýmis fleiri kyn komi þar einnig til greina, og miða notkun þessara kynja við lágan fóðurkostnað og sætta sig þá jafnframt við langan vaxtartíma og hægari umsetningu. Að hinu leytinu er sú stefna, sem að mestu leyti mun vera fylgt í nágrannalöndum okkar í V-Evrópu nú, en hún er í því fólgin að nota stórvaxin og hraðvaxta holdakyn, kappala kálfana og stefna að miklum vaxtarauka á sem skemmstum tíma. Á þessu sviði hafa á seinni árum orðið ákaflega örar framfarir, bæði á sviði kynbóta og einnig hafa víðtækar tilraunir á sviði fóðurfræði og lífeðlisfræði leitt til næsta ótrúlegs árangurs á þessu sviði. Það er ekki óalgengt að heyra talað um, að kálfar, sem þannig hefur verið stofnað til, þyngist um allt að 2 kg. á hverjum degi.

Á undanförnum árum hafa aukist tveir þættir í hina innlendu fóðurframleiðslu fyrir búfé. Þar er annars vegar um að ræða undanrennuduft, sem bætt er í tólg og notað er til fóðurs ungkálfa í staðinn fyrir nýmjólk. Hins vegar er svo hraðþurrkað og kögglað gras eða grænfóður, sem hafin er framleiðsla á á þó nokkrum stöðum á landinu og er í örum vexti. Ef þær vonir, sem bundnar eru við þessa fóðurframleiðslu, rætast að miklu leyti, sýnist mér einsætt, að sú hámarksafurðastefna, sem ég var að lýsa áðan, eigi fullan rétt á sér, a. m. k. meðfram og til jafns við hina stefnuna, að nota beitarþolin kyn með hægri umsetningu.

Eins og þm. geta séð, bendi ég í grg. með frv. mínu á hugsanlega leið til þess að gera samanburð á kostum og göllum hinna ýmsu kynja í blöndun við íslenska mjólkurkúastofninn. Hún er í því fólgin, að teknar verði inn á sóttvarnarstöðina eins og tíu kýr af íslenska mjólkurkúastofninum og þær sæddar sitt árið með hverju kyninu, þ. e. a. s. innfluttum holdakynjum, og fengist þannig hópur kálfa á hverju ári af ákveðnum kynjum, sem álitleg þættu til að gera tilraunir með. Þetta eru að vísu ekki mjög vandvirknislega unnar tilraunir, en þetta fyrirkomulag mundi hafa þann kost í för með sér, að það yrði ekki nálægt því eins dýrt og að ætla sér að stofnrækta þessi ákveðnu kyn. Auk þess mundum við fá á 4–6 árum sýnishorn af blöndun með jafnmörgum kynjum, og yrði slíkt forval, ef svo mætti kalla, ábending um það, hvaða kyn ætti að taka til stofnræktar og notkunar með íslenska mjólkurkúastofninum. Með þessu fyrirkomulagi, sem nú er gert ráð fyrir, að stofnrækta á 12 árum fyrst Galloway-kyn og síðan eitthvert annað, sem yrði fyrir valinu, — ég er ekki að benda á neitt sérstakt, — en ef það tekur 10–15 ár að stofnrækta hvert kyn, þá er það alger hending, ef við fáum úr því skorið á næstu 50 árum, hvort eitthvert kyn sé heppilegra en Galloway-kynið eða ekki. Slíkt er að mínu áliti allt of langur tími, hér er allt of mikið í húfi og þetta er of mikið hagsmunamál til þess, að við getum sætt okkur við, að þessi háttur verði hafður á. Væri hins vegar sú aðferð notuð, sem ég bendi á í grg. minni, ætti að liggja fyrir eftir 5–7 ár, frá því að innflutningur sæðis hefst, hvert af þeim kynjum væri vænlegast til góðs árangurs við blöndun með íslenska mjólkurkúastofninum. Að lokinni stofnrækt Galloway-kynsins væri þá hægt að snúa sér að stofnrækt þess kyns, sem mestar vonir gefur.

Eins og ég drap á áðan, er stutt síðan þessi mál voru til umr. hér á Alþingi, þ. e. a. s. rúml. eitt ár, svo að ég tel ekki ástæðu til að fylgja þessu frv. úr hlaði með langri ræðu, en legg til, að að þessari umr. lokinni, að frv. verði vísað til hv. landbn.