10.12.1973
Neðri deild: 38. fundur, 94. löggjafarþing.
Sjá dálk 1172 í B-deild Alþingistíðinda. (1071)

86. mál, rannsóknarnefnd vegna landhelgisgæslu

Pétur Sigurðsson:

Herra forseti. Þegar mál þetta kom til umr. hér á hv. Alþ. næstliðinn fimmtudag, vakti það að sjálfsögðu mikla athygli, að báðir flm. till. og hv. 5. þm. Vesturl., sem þá var, hv. þm. Jónas Árnason, allir yfirlýstir stuðningsmenn ríkisstj. kepptust við að lýsa þeirri skoðun sinni, að hæstv. forsrh. og dómsmrh. ætti hér enga sök á og till. væri ekki beint að honum sem slíkum, þótt æðsti maður landhelgisgæslunnar sé. Hv. 1. flm. till., Karvel Pálmason, sagði m. a., að hann hefði ekki ástæðu til annars en ætla, að forsrh. hafi farið með rétt mál, þegar hann lýsti því yfir hér á hv. Alþ., að engin breyting yrði á framkvæmd landhelgisgæslunnar meðan samningar stæðu yfir. Og hv. 5. þm. Vesturl. vissi, hvar sök var að finna. Þá sök var að finna í röngum og villandi upplýsingum frá starfsmönnum landhelgisgæslunnar sjálfrar, en ekki hjá þessum viðurkennda drengskaparmanni, hæstv. forsrh. og dómsmrh. Bæði ég og hv. 2. þm. Vestf. bentum á, að þessi till. hlyti fyrst og fremst að vera ákæra og vantraust á æðsta stjórnanda landhelgisgæslunnar, sjálfan hæstv. dómsmrh., og þess vegna ætti að samþykkja hana einmitt með það í huga og af þeirri ástæðu.

En það, að ég stend upp núna og tek til máls aftur um málið, er sérstaklega að gefnu tilefni í ræðu hæstv. forsrh. og dómsmrh. Ég held, að það megi sjá það í þingtíðindum, að hvorki ég né 2. þm. Vestf. veittumst nokkru sinni að áhöfnum varðskipanna, enda er hlægilegt að ætla sér að gera það í sambandi við þetta mál. Það vita allir, að skipshöfnin, frá næstæðsta til lægsta manns, tekur við sínum fyrirmælum og skipunum frá skipherranum á viðkomandi varðskipi, en hann frá stjórnendum landhelgisgæslunnar í landi, og æðstur þeirra stjórnenda er hæstv. dómsmrh., það fer ekkert á milli mála. En hæstv. dómsmrh. notaði meginhluta ræðu sinnar til þess að bera af áhöfnum skipanna einhverjar ímyndaðar ásakanir, sem engir okkar hinna, sem töluðum, minntist nokkurn tíma á, og ég heyrði það aldrei frá öðrum ræðumönnum, sem hér töluðu í þessu máli. En hann varð auðvitað eitthvað að segja, og hann tók það fram, að sér þætti miður, að hann skyldi ekki falla undir þessa till. líka, eins og hún væri orðuð, enda var fyrir það tekið hjá hv. flm. Ég tel ekki, að það sé rétt fyrir hv. flm. að vera svona hugulsama við æðsta stjórnanda landhelgisgæslunnar, ef þeir ætla sér að komast til botns í málinu og halda, að eitthvað sé til grundvallar þeim ásökunum, sem á landhelgisgæsluna hafa verið bornar. Ég vil þess vegna flytja brtt. við till. þeirra tvímenninganna, að tillgr. orðist svo:

Nd. Alþingis ályktar að kjósa 7 manna n. samkv. 39. gr. stjórnarskrárinnar til að rannsaka framkvæmd landhelgisgæslu frá útfærslu 1. sept. 1972 og kanna, hvort ásakanir, sem fram hafa verið bornar um, að gæsla landhelginnar á Vestfjarða- og Austfjarðarmiðum hafi ekki verið með eðlilegum hætti, hafi við rök að styðjast. N. skal hafa rétt til að krefjast skýrslna munnlegra og bréflegra, bæði af embættismönnum og ráðh. dómsmála, svo og starfsmönnum landhelgisgæslunnar og öðrum einstaklingum. Að loknum störfum skal n. gefa Nd. skýrslu um niðurstöður sínar.“

Ég vil, herra forseti, leyfa mér að leggja þessa till. fram nú þegar sem skriflega brtt. Ég tel nefnilega, að fyrst verið er að fara út í þetta á annað borð, þá eigi að stíga sporið til fulls til þess að sjá, hvort um sekt er að ræða hjá stjórnendum landhelgisgæslunnar, sem í landi eru, því að ég tel ekki, að um aðra sé að ræða, nema þá máske minni háttar brot hjá einum og einum skipherra, sem ég hef þó ekki heyrt talað um nema í einu tilfelli og kom ekki þessu máli við, heldur var það í sambandi við annað. Ég tel, að það eigi ekki að vera að undanskilja æðsta og ábyrgasta aðilann, heldur eigi rannsókn jafnframt að ná til hans og hans verka í sambandi við stjórnun þessara þýðingarmiklu stofnunar.