10.12.1973
Neðri deild: 38. fundur, 94. löggjafarþing.
Sjá dálk 1180 í B-deild Alþingistíðinda. (1075)

86. mál, rannsóknarnefnd vegna landhelgisgæslu

Matthías Bjarnason:

Herra forseti. Hv. fyrri flm. þessarar till. kvartaði sáran yfir því, hvað hafi gengið illa að fá þetta mál tekið til umr. hér í hv. þd. Það var þó að lokum gert 22. nóv., og síðan var gert alllangt hlé á umr., og þær fara ekki fram fyrr en í datt. Hann kvartaði mjög yfir því, hvað hefði verið farið illa að ráði sínu gagnvart þeim flm. till., lambinu og móðurinni, eins og þeim var líkt við hér áðan, en loksins eru þeir ánægðir yfir að hafa fengið till. til framhaldsumr. Ég verð nú að segja eins og er, að þegar jafnþungar ásakanir og þessi till. í raun og veru gerir ráð fyrir eru fluttar, þá vil ég taka undir þau orð hv. fyrri flm. málsins, að það væri fullkomin ástæða til þess að hraða umr. og koma málinu til n. og sú n., sem fengi málið til athugunar, skilaði sem allra fyrst áliti.

Hins vegar finnst mér skjóta nokkuð skökku við hjá hv. fyrri flm. þessarar till., þegar hann segir, að till. sé ekki stefnt gegn neinum, hvorki einum né öðrum. Þessari till. hlýtur að vera stefnt gegn þeim, sem sekur er, þó að hún geri ekki ráð fyrir því fyrir fram, hver sé sekur. Till. er flutt í þeim tilgangi að komast til botns í því, hver er sekur. Þess vegna er till. í raun og veru stefnt gegn þeim, sem sekur er. En fyrri flm, till. dró mjög í land, þegar hann flutti framsögu fyrir till., og hann dró enn meira í land áðan. Það eina, sem hann dró ekki í land, var raddstyrkurinn, hann varð eftir. En hann hefur ekki orðið meira á bak við þessa till. en það, að það væri mjög mikils virði, að hann kæmi í ljós, þessi mikli misskilningur, sem væri hér um að ræða. Þetta er nú orðið að miklum misskilningi, svo að ég noti orð hans sjálfs. Eftir allt saman er enginn sekur. Það eru sem sagt allir saklausir, en það er einhver mikill misskilningur, sem þarf að flytja till. um og skipa rannsóknarnefnd samkv. 39. gr. stjórnarskrárinnar til þess að kanna þennan mikla misskilning. Þannig er nú af flm. dregið. Og ef hæstv. 1. varaforseti Nd., sem situr nú hér í forsetastóli, þm. úr hópi stjórnarandstöðunnar, hefði ekki séð aumur á hv. flm. og tekið þessa till. fyrir, þá hugsa ég, að hann hefði verið algerlega búinn, því að hann er alveg að ganga út. Þetta er eins og vekjaraklukka, sem hefur verið trekkt upp og er búin að hringja, hann er eiginlega útgenginn.

Sá ágæti maður, hv. 3. þm. Norðurl. v., var að tala hér áðan og flutti skemmtilega ræðu. Það má nú segja, að ber er hver að baki, nema sér bróður eigi. Það má þá segja um forsrh., að hann átti þó hauk í horni að fá slíkan málsvara hingað í ræðustólinn. En þó að hv. 7. landsk. hafi upprunalega ætlað að klípa í hæstv. forsrh., þá hugsa ég, að hann hafi ekki búist við því, að hv. 3. þm. Norðurl. v. mundi æpa eins og hann gerði hér í ræðustól áðan.

Það fer ekki á milli mála, að þessari till. er auðvitað fyrst og fremst stefnt gegn þeim, sem ábyrgðina ber. Mér dettur ekki í hug að halda, að matsveinar eða hásetar á varðskipunum geti verið sekir í þessum efnum eða aðrir menn á varðskipunum. Auðvitað eru það þeir, sem ábyrgðina bera, sem eru sekir, og það eru þeir, sem till. er stefnt að.

Svo talaði hv. fyrri flm. till. um það, að við stjórnarandstæðingar vildum aðeins líta á þessa till. sem vantraust á forsrh. Hv. flm. þessarar till., fyrri flm., veit það mætavel og hefur fengið að heyra það, síðan hann lagði þessa till. fram, frá mörgum stjórnarþm., að þeir telja þessa þáltill. algert vantraust á hæstv. dómsmrh., svo að það er hrein blekking, þegar hann er að koma hér og belgja sig út um, að það væru stjórnarandstæðingar einir, sem hefðu þessa skoðun á flutningi þessa máls. Nei, hann þarf ekki að leita til stjórnarandstæðinga í þeim efnum. Það eru fjölmargir stjórnarþm., sem líta sömu augum á þetta mál og við hv. 10. þm. Reykv. gerðum í upphafi þessara umr.

En út af ræðu hæstv. forsrh., sem hann hélt hér 22. nóv., þegar hann fór að tíunda hlutverk Landhelgisgæslunnar, þá er það alveg rétt, að það voru engar ásakanir á Landhelgisgæsluna viðhafðar í þeim umr. Landhelgisgæslan hefur hlaupið undir bagga fyrir hinar strjálu byggðir landsins, þegar hefur þurft að sækja sjúkan mann eða gera mönnum greiða, koma vöru á milli hafna, sem hefur verið erfitt að flytja. En hitt fer ekki á milli mála, að það var litið á það mjög öðrum augum, þegar það ástand hafði skapast, sem var á þessum tíma, og hæstv. forsrh. sagði, að Íslendingar ættu í styrjöld á miðunum og okkar her, varðskipin, þyrftu að verja íslenska fiskveiðilögsögu. Það var styrjöld, sem við áttum i, í þessu tilfelli við breska ræningja. Og þá verð ég nú að segja, að þó að það þurfi að sækja fóðurbæti fyrir eitt bóndabýli, og það í því kjördæmi, sem ég er frá, og hvar sem það hefur verið, þá finnst mér tæplega hægt, þegar Ísland á í styrjöld, að taka af flotanum til þess að flytja nokkur tonn af fóðurbæti. Hitt hefði verið sönnu nær og sjálfsagt að fá einhvern bát til þess að flytja þetta, en minnka ekki gæsluna að sama skapi. Ég er hræddur um það, að eitthvað hefði verið sagt í Bretlandi á stríðstímunum, ef Churchill hefði kallað á Montgomery úr baráttunni við Rommel og skipað honum að koma heim til Bretlands með allan 8. herinn til að taka upp kartöflur. Ég er hræddur um, að það hefði eitthvað verið sagt þá. Það er ósköp eðlilegt, að komi fram gagnrýni, þegar gæslan er veikt undir slíkum kringumstæðum sem þessum. Og það er það, sem menn hafa fullt leyfi til þess að gagnrýna.

En það, sem við gagnrýnum og viljum gagnrýna, er það, að hæstv. dómsmrh. sagði í umr., sem urðu hér utan dagskrár út af landhelgisgæslunni, að það væri komið annað skip við gæsluna og gæslan væri hert verulega. Þessu hefur verið mótmælt af öðrum aðilum, sjómönnum og útgerðarmönnum, að hafi átt sér stað, og þess vegna liggur nokkurn veginn ljóst fyrir, að ekki var staðið við þessi orð að herða á gæslunni, og það er það, sem við viljum fá úr skorið, þó að það hefði kannske mátt hafa einhvern annan hátt á en þennan. Hitt tek ég ekki aftur, sem ég sagði við þessar umr., þegar þær fóru fram 22. nóv., að það er fátítt, að stjórnarþm. flytji rannsóknartill. á ráðh., sem þeir styðja, og það hefur ekki átt sér stað áður. Það hlýtur að liggja í augum uppi, að stjórnarþm. eiga greiðari aðgang að ráðh., þó að þeir séu ekki úr sama flokki, heldur sé um að ræða ráðh., sem þessir þm. styðja, að fá glöggar og fullnægjandi upplýsingar um það, sem þeim liggur á hjarta. Það er skiljanlegra, að ráðh. séu undir sömu kringumstæðum ekki eins fúsir að veita okkur stjórnarandstæðingum allar slíkar upplýsingar, sérstaklega ef það er í einhverjum málum, sem þeir telja, að komi þeim illa. Ég spurði þennan hv. þm. að því, hvort flm. hafi ekki reynt að fá þessar upplýsingar með öðrum hætti, en hann fór í kringum þá spurningu í ræðunni áðan, eins og köttur í kringum heitan graut. Sannleikur málsins er sá, að hv. fyrri flm. þessarar till. hefur verið að draga í land, frá því að till. kom fram og til þessa dags. Hann hefur dregið í land á öllum sviðum, nema raddstyrkurinn hefur ekki minnkað. Það er það eina, sem eftir er.

Ég ætla svo ekki að halda þessum umr. lengur áfram. En það er líka eftirtektarvert í sambandi við flutning þessarar till„ að þegar flm. kvarta undan því, að till. þeirra komi ekki til umr. vikum saman, þá reyna þeir að halda uppi málþófi um eigin till. í staðinn fyrir að reyna að gera allt, sem hægt er, til þess að till. komist til n. og fái þinglega afgreiðslu. Af hverju er það gert? Oft og tíðum er það þannig, að þegar menn flytja mál og jafnvel tilefni gefast til einhverra andsvara, þá vilja flm. máls ekki lengja umr. til þess að koma ekki í veg fyrir, að forseti taki málið út af dagskrá, þannig að málið komist til n. og fái þinglega afgreiðslu. En í þessu tilfelli hefur fyrri flm. þessarar till. gert sér leik að því að efna til áframhaldandi umr. um þessa till., til þess eiginlega að þreyta forseta og þingheim og til þess að umr. sé haldið áfram, og sennilega í trausti þess, að umr. verði einu sinni enn frestað og till. komist ekki til n. og fái ekki þinglega afgreiðslu. Þetta er enn ein sönnun þess, að hv. fyrri flm. þessarar till. hefur ekki mikinn áhuga á því, að hún fái þinglega meðferð.