11.12.1973
Sameinað þing: 32. fundur, 94. löggjafarþing.
Sjá dálk 1187 í B-deild Alþingistíðinda. (1083)

378. mál, sala á tækjum til ölgerðar

Fyrirspyrjandi (Helgt F. Seljan):

Herra forseti. Í 8. gr. áfengislaga segir orðrétt: „Upptæk skal gera og ónýta öll áhöld, sem nota á eða hafa verið notuð við bruggun eða tilbúning áfengra drykkja.“

Hér er að mínu viti allskýrt að orði kveðið, þar sem eru orðin „sem nota á“. Nú er það staðreynd, að í dag eru um land allt seld tæki og efni til ölgerðar ásamt meðfylgjandi leiðbeiningum á ensku og íslensku um réttar aðferðir við ölgerðina. Eftir að þessar leiðbeiningar á íslenskunni hafa minnt á íslensku áfengislöggjöfina, sem mæli svo fyrir, að ekki megi búa til drykki eða annan vökva með meiri vínanda en 21/4 % að rúmmáli, segir svo í leiðbeiningunum orðrétt :

„Af þessum sökum verðum við að skera niður það sykurmagn, sem mælt er með í ensku uppskriftinni, til að forðast lögbrot.“

Ég vil taka skýrt fram, eð ég vil ekki í neinu drótta því að seljanda þessara efna og tækja, að neitt annað viðhorf eða ætlan liggi hér að baki en þarna stendur skýrum stöfum, sem sagt, að seljandi ætlist ekki til lögbrota af því tagi, sem bruggun áfengis bjórs er hérlendis. En hitt liggur í augum uppi, að auðveld og auðrötuð er leiðin til hrösunar, eftir að ensku leiðbeiningarnar hafa verið grandlesnar. Ég held því, að á því sé enginn vafi, að tækin séu notuð til lögbrota af þeim, sem til þeirra verka hafa fullan vilja, og þeir munu ófáir. Ekki dettur mér í hug að loka augunum fyrir því, að menn geta vissulega notað aðrar og eldri aðferðir til slíkra lögbrota, og veit reyndar um þau mýmörg dæmi, sem sanna, að þrátt fyrir alla áfengissöluna stendur ekki á mönnum að grípa til annarra aðferða við að svipta sig ráði og rænu. En hér er óneitanlega um auðvelda og vel auglýsta aðferð að ræða, sem ég veit einnig víða að, að hefur verið notuð, ekki eins og á íslenskunni segir, til að forðast lögbrot, heldur þvert á móti. Sé sala sem þessi heimil, er hér vissulega í áfengislögunum um alvarlega gloppu að ræða, sem ekki er viðunandi. Mér er um það kunnugt, að áfengisvarnarráð spurði dómsmrn. strax í vor, hvort sala sem þessi væri heimil samkv. áfengislögum. Þar sem ég vissi, að skriflegt svar hafði ekki borist, þótti mér rétt að spyrja hæstv. dómsmrh. þessarar spurningar:

„Er sala í verslunum á tækjum og efni til ölgerðar ásamt meðfylgjandi leiðbeiningum um bruggun áfengs öls heimil samkv. áfengislögum?“

Ég veit, að hæstv. ráðh. er manna lögfróðastur og því forvitnilegt að heyra svör hans og þá lærdóma, sem af því mætti draga.