11.12.1973
Sameinað þing: 32. fundur, 94. löggjafarþing.
Sjá dálk 1189 í B-deild Alþingistíðinda. (1086)

380. mál, mál togarans Henriette

Fyrirspyrjandi (Hannibal Valdimarsson) :

Hérna forseti. Hinn 8. okt. í haust kom til Hafnar í Hornafirði belgískur togari, Henriette 236 frá Ostende. Meðan togarinn var þarna í höfn, fóru lögreglumaður, netagerðarmeistari og tollþjónn um borð í skipið, skoðuðu veiðarfæri þess og gengu örugglega úr skugga um, að poki vörpunnar var of smáriðinn, og enn fremur, að poki vörpunnar var klæddur innan með smáriðnu nælonneti. Svo var aftur farið um borð í togarann, og þá var skipshöfnin búin að fjarlægja nælonklæðninguna innan úr vörpunni, og vissi þannig hundur, hvað étið hafði, það var greinilegt. Síðan reyndi togarinn að strjúka út úr höfninni, en þá tókst ekki hödulegar til en svo, að hann strandaði, kallaði á hjálp og var losaður af grunni, og þar hvarf hann sjónum Íslendinga í það sinn.

Nú fýsir mig mjög að vita um framhaldið. Ég hef fyrir satt, að kæra hafi borist dómsmrn., og sennilega hefur sú kæra farið frá dómsmrn. til utanrrn. og þaðan til belgískra stjórnvalda. Undir öllum kringumstæðum er þarna um að ræða brot á Norður-Atlantshafssamþykktinni, en spurningin er sú, hvort þarna sé einnig um að ræða sannanlegt brot á sérsamningum við Belgíu.

Af þessu tilefni hef ég leyft mér, herra forseti, að bera fram við dómsmrh. þessar fsp.: „1. Hvað hefur gerst í máli belgíska togarans Henriette 236 frá Ostende, sem staðinn var að því á Höfn í Hornafirði 8. okt. s. l. að vera með of smáriðna vörpu og enn fremur að hafa klætt poka vörpunnar innan með of smáriðnu nælonneti?

2. Gefur slíkt brot á samningnum við Belgíu um heimild til að veiða innan fiskveiðilögsögu Íslands ekki tilefni til að taka togarann Henriette af skrá yfir þá belgíska togara, sem hér hafi veiðileyfi, eða heldur þessi lögbrjótur áfram veiði hér við land, eins og ekkert hafi í skorist?“

Þetta er það, sem mig hefði langað til að fá upplýsingar um, þ. e. a. s. um framhald þessa máls. Undir öllum kringumstæðum er hann brotlegur við Norður-Atlantshafssamþykktina.