11.12.1973
Sameinað þing: 32. fundur, 94. löggjafarþing.
Sjá dálk 1190 í B-deild Alþingistíðinda. (1087)

380. mál, mál togarans Henriette

Forsrh. (Ólafur Jóhannesson):

Herra forseti. Í 4. lið á þskj. 137 er borin fram fsp. um mál belgíska togarans Henriette frá Ostende, sem sætti skoðun veiðarfæra við bryggju í Höfn í Hornafirði 8. f. m.

Málefni það, sem um er fjallað, sætir ekki síður meðferð sjútvrn. og utanrrn. en dómsmrn. Sýnist þó rétt, að ég geri grein fyrir meðferð þess í samhengi.

Samkv. beiðni Landhelgisgæslunnar framkvæmdu löggæslumenn í Höfn ásamt netagerðarmeistara skoðun á botnvörpu þessa togara, en hann hafði flutt slasaðan mann til Hafnar og lá þar við bryggju. Kom í ljós, að varpa togarans var ekki útbúin í samræmi við reglur um möskvastærðir, sem gilda um botnvörpuveiðar á hafinu umhverfis Ísland. Áður sama dag höfðu 2 yfirmenn á íslenskum fiskibáti, ásamt einum þeirra, er framkvæmdi síðari skoðunina, veitt því athygli, er þeir skoðuðu vörpu togarans, að poki hennar var klæddur smáriðnu neti. Var sú klæðning horfin við síðari skoðunina. Skýrsla um skoðunina barst Landhelgisgæslunni 16. okt. og dómsmrn. 17. okt., og var málið lagt fyrir utanrrn. og sjútvrn. Var málinu lokið með þeim hætti, að sjútvrn. fól utanrrn. að koma á framfæri ábendingum til hlutaðeiganda um að gæta þess, að slík brot kæmu ekki fyrir aftur enda yrðu skip, er það henti, svipt veiðileyfi, ef slíkt kæmi fyrir aftur. Jafnframt fól sjútvrn. Landhelgisgæslunni, sem á aðild að nefnd til framkvæmdar veiðarfæraeftirlits í Norður-Atlantshafinu, að tilkynna n. umrætt brot og meðferð þess.

Með þessu ætla ég, að svarað sé, í raun og veru fsp. beint. En í framhaldi af því, langar mig aðeins til að bæta því við, að einmitt eftir þetta tilefni og í framhaldi af því voru bréf skrifuð af hálfu dómsmrn. til Landhelgisgæslunnar varðandi þessi efni.

Fyrra bréfið, sem hér um ræðir, er frá 23. okt. 1973, og er svo hljóðandi:

„Með vísan til viðræðna þeirra, sem fram hafa farið að undanförnu varðandi þátttöku hafrannsóknarskipa í alþjóðlegu fiskveiðieftirliti utan landhelgi og fiskveiðilögsögu, sbr. reglugerð nr. 263 1970, tilkynnist hér með, að sjútvrn. hefur staðfest, að af þess hálfu og Hafrannsóknastofnunarinnar sé ekkert því til fyrirstöðu, að hafrannsóknarskipið Bjarni Sæmundsson verði notað til framkvæmdar alþjóðlegra eftirlitsstarfa, samkv. nefndri reglugerð.

Fylgir hér með ljósrit af bréfi sjútvrn. til þessa ráðuneytis, dags. 23. þ.m., ásamt ljósriti af bréfi þess ráðuneytis til Hafrannsóknastofnunarinnar.

Er Landhelgisgæslunni falin frekari framkvæmd máls þessa í samráði við Hafrannsóknastofnunina.“

Til frekari áherslu var í síðasta mánuði, eftir að möguleikar voru á að koma við virkara eftirliti en áður, skrifað svo hljóðandi bréf frá dómsmrn. til Landhelgisgæslunnar:

„Með því að aðstæður á miðunum kringum landið hafa nú breyst í það horf, að mögulegt er orðið að mestu að koma við athugunum á veiðarfærabúnaði fiskiskipa, erlendra sem innlendra, samkv. reglum um alþjóðlegt fiskveiðieftirlit utan landhelgi og í fiskveiðilögsögu, svo og innan, vill ráðuneytið leggja ríka áherslu á, að hert verði, svo sem tök eru á, á eftirliti með veiðarfæraútbúnaði erlendra sem innlendra veiðiskipa. Rétt væri, að tekið væri til athugunar og þá einnig í samráði við sjútvrn., hvort hentugt væri að gefa út með einhverjum hætti, auglýsingar og ábendingar til áherslu á skyldu veiðiskipanna til að hafa veiðarfæri sín í samræmi við lög og alþjóðlegar reglur.“

Þetta bréf er ritað forstjóra Landhelgisgæslunnar og afrit sent sjútvrn. Í framhaldi af þessu bréfi, hefur Landhelgisgæslan hert mjög á þessu eftirliti og hefur síðan framkvæmt allmargar skoðanir, bæði á innlendum og erlendum og þá sérstaklega breskum togurum, og þær skoðanir á veiðarfærabúnaði breskra togara hafa ekki mætt neinni mótstöðu. Niðurstaðan af þessum skoðunum, jafnt hjá innlendum og erlendum, hefur yfirleitt orðið sú, að veiðarfæri hafa verið í sæmilegu lagi á þessu tímabili, sem skoðað hefur verið nú að undanförnu.