11.12.1973
Sameinað þing: 32. fundur, 94. löggjafarþing.
Sjá dálk 1191 í B-deild Alþingistíðinda. (1089)

118. mál, hafnamál

Jón Árm. Héðinsson:

Herra forseti. Varamaður minn hér á hv. Alþingi lagði fram fyrirspurn í s. l. mánuði til hæstv. samgrh. um hafnamál, svo hljóðandi:

„Hvenær er fyrirhugað að ljúka við þær framkvæmdir við landshöfnina Keflavík, Njarðvík, sem rannsóknir hafa leitt í ljós, að gera þarf, svo að höfnin í Ytri-Njarðvík verði nothæf?“

Fyrir rúmu ári, var þm. Reykn. sent dreifibréf, þar sem undirstrikuð var nauðsyn þess, að flýtt yrði þessum framkvæmdum, svo að höfnin yrði vel nothæf. Því miður hafa þær framkvæmdir, sem nú hefur verið ráðist í fyrir allnokkru, ekki sýnt sig að gefa slíkt notagildi sem menn áttu von á, og jafnvel var í vissri átt betra að liggja utan á garðinum heldur að innanverðu. Útvegsmenn hafa sent skeyti til hæstv. samgrh. um að flýta fyrir málinu, og mun nú vera komin till. Á sínum tíma voru uppi hugmyndir um 3 úrlausnir í þessu efni. Vænti ég þess, að hæstv. ráðh. geti nú skýrt okkur frá því, hvaða niðurstaða liggi fyrir um framkvæmd og hversu skjótt við megum eiga von á, að úr verði bætt.