11.12.1973
Sameinað þing: 32. fundur, 94. löggjafarþing.
Sjá dálk 1194 í B-deild Alþingistíðinda. (1093)

126. mál, málefni útflutningsiðnaðar og lagmetis

Heilbr.- og trmrh. (Magnús Kjartansson) :

Herra forseti. Þegar sýnt var, að þær gengishækkanir, sem komið höfðu til framkvæmda í ár, yrðu iðnaðinum og þó einkum útflutningsiðnaðinum þungar í skauti, fól iðarn. hagrannsóknadeild Framkvæmdastofnunar ásamt starfsmanni iðnþróunarnefndar að gera úttekt á stöðu útflutningsiðnaðarins. Álitsgerðin var í tveimur skýrslum, og er sú síðari tiltölulega nýkomin til rn. Skv. þessum skýrslum er staða útflutningsiðnaðarins mjög misjöfn, í sumum greinum góð eða sæmileg, öðrum slæm eða afleit. En áður en ég greini nánar frá þessum niðurstöðum, vil ég í fáum orðum minna á nokkrar þær þjóðhagslegu orsakir, sem valda þeim vandkvæðum, sem iðnaðurinn horfist nú í augu við.

Þegar gengi ísl. krónu var lækkað fyrir ári, var sú ákvörðun rökstudd með slæmri afkomu sjávarútvegsins, bæði að því er varðar minnkandi þorskafla og óhagstæðar verðlagshorfur á erlendum mörkuðum. En þær forsendur, sem raðað var saman af svo miklum hagleik í árslok 1973, voru fljótar að hrynja. Verðlag á fiski erlendis fór ört hækkandi í upphafi þessa árs, og hefur sú hækkun haldist út árið, þótt hún hafi eitthvað hægt á sér að undanförnu. Þessar miklu verðhækkanir erlendis komu fram sem tekjuaukning í sjávarútvegi, en hún jók síðan verulega heildareftirspurn og þenslu í hagkerfinu.

Sjávarútvegur er þess háttar atvinnugrein, að sveiflur í honum, bæði í aflamagni og í verðlagi, eru mjög miklar, svo ríkur þáttur sem hann er í efnahagskerfi okkar. Það er því undir góðri hagstjórn komið, hversu vel tekst til að hafa tök á afleiðingunum af þessum sveiflum. Sveiflurnar sjálfar eru lítt á valdi stjórnvalda. Þar ræður náttúran að hluta, en erlend hagþróun að hluta.

Eitt þeirra tækja, sem komið var á fót til að hafa áhrif á afleiðingarnar af sveiflum í sjávarútvegi, var Verðjöfnunarsjóður fiskiðnaðarins. Með markvissri beitingu hans var ætlunin að hafa gát á afleiðingum verðsveiflna og nota sjóðinn til að stjórna tekjuinnstreyminu í hagkerfi hjá sjávarútvegi, taka af kúfinn í góðærum, borga til baka, ef búskellur yrði.

Ég hef áður látið í ljós þá skoðun, að ég tel þessa hugmynd hafa verið rétta og að auka þurfi verksvið sjóðsins og gera hann að tekjujöfnunarsjóði fyrir efnahagskerfið sem heild. Sjóðnum hefur hins vegar ekki verið beitt í ár nema að óverulegu leyti, en í staðinn var genginu breytt. En gengisbreyting er almenn efnahagsráðstöfun, sem hefur áhrif á allar hagstærðir. Íslenskur iðnaður býr við allt önnur skilyrði en sjávarútvegurinn, og því getur almenn efnahagsráðstöfun, sem tekur mið af stöðu eins atvinnuvegar, í þessu tilviki hins mikilvæga sjávarútvegs, haft ófyrirsjáanlegar afleiðingar fyrir annan atvinnuveg, iðnaðinn, og efnahagskerfið í heild. Einmitt þetta hefur gerst, og því á iðnaðurinn, einkum sá hluti hans, sem stundar útflutning, í nokkrum erfiðleikum.

Ríkisstj. var ljóst, að útflutningsiðnaðurinn gæti lent í tímabundnum vandkvæðum vegna gengishækkananna, og af hennar hálfu hefur verið lýst yfir því, að hún væri reiðubúin til að athuga það mál sérstaklega.

Hv. fyrirspyrjandi nefndi áðan tölur um tap í iðnaði af völdum gengishækkananna. Ég hygg, að þær tölur, sem hann nefndi, séu fullháar. Það kemur fram í þeim skýrslum, sem ég hef fengið og ég minntist á áðan, að tap útflutningsiðnaðarins á þessu ári nemi um 64 millj. kr.

Að öðru leyti er niðurstaða þessarar skýrslu, sem ég gat um að framan, m. a. sú, að skinnaiðnaðurinn standi sæmilega að vígi, þrátt fyrir nokkurt tjón af gengishækkunum. Rekstrarskilyrði á ársgrundvelli og miðað við verðlag í árslok 1973 eru áætluð heldur betri en þau voru að meðaltali á árinu 1972. Þrátt fyrir það virðast rekstrarskilyrði í dag erfið, þótt nokkuð hafi ræst úr í haust.

Í ullar-, prjóna- og fataiðnaði er ástandið ekki jafngott. Afkoma á ársgrundvelli, miðað við rekstrarskilyrði í árslok 1973, er áætluð mun lakari en hún var að meðaltali á árinu 1972. En hér kemur fleira til en gengisbreytingar. Alvarlegir söluerfiðleikar erlendis hafa látið á sér kræla á þessu ári, ekki síst hjá Álafossi, en þeir hafa gert smáfyrirtæki verkefnalaus, þ. e. a. s. prjónastofur víða úti um land, og afkoma þeirra er því afleit. Athuga verður þetta mál sérstaklega og leysa það svo sem skjótast.

Í öðrum útflutningsiðnaði, svo sem útflutningi á málningu, veiðarfærum, pappaöskjum og leirvörum, er áætlað, að rekstrarskilyrði hafi versnað nokkuð á árinu 1973, en árið á undan voru þau mjög góð.

Ekki liggur enn fyrir rekstraryfirlit lagmetisiðnaðar, þannig að erfitt er að gera sér heildarmynd af iðngreininni. Þó er víst að lagmetisiðnaðurinn hefur orðið fyrir áföllum vegna gengishækkananna.

Iðnrn. hefur haft þessi mál til athugunar nú að undanförnu og gert till. til ríkisstj. Við þá tillögugerð var haft í huga að jafna stöðu iðnaðarins gagnvart sjávarútvegi og bæta þannig aðstöðu útflutningsiðnaðarins gagnvart erlendri samkeppni. Sú aðferð til stuðnings útflutningsiðnaðinum, sem ráðuneytið og iðnþróunarnefnd telja heppilegasta og fullnægja ætti skilyrðum um heppileg langtímaáhrif og jafnframt gengur ekki í berhögg við ákvæði samninganna við EFTA og Efnahagsbandalag Evrópu, er, að tekin verði upp endurgreiðsla á þeim opinberu greiðslum, sem leggjast nú á kostnaðarliði útflutningsiðnaðarins. Eins og er, greiðir iðnaður tolla og/eða söluskatt, af innflutningi á viðhalds- og fjárfestingarvörum og ýmsum rekstraraðföngum öðrum en hráefnum. Þessir þætti nema um 2.5% af heildarsöluverði iðnaðarins samkv. mati, en er lítilsháttar mismunandi fyrir einstakar greinar.

Það eðlilega sjónarmið, að útflutningsiðnaður geti framleitt á nettó-grundvelli, án opinberra álaga í tollum og söluskatti, verður ekki að fullu framkvæmt, fyrr en kerfi virðisaukaskatts kemur til framkvæmda. Fram til þess tíma leggur ráðuneytið til. að tekin verði upp metin jafnaðarendurgreiðsla, er reiknist 2.5% af skilaverðmæti útflutnings í iðnaði, öðrum en ál- og kísilgúrframleiðslu, kjötvörum, mjólkur- og sláturafurðum. Hér er ekki um útflutningsuppbætur að ræða, heldur tímabundnar endurgreiðslur tolla og skatta, á meðan virðisaukakerfið er ekki komið til framkvæmda hér, en er í gildi í samkeppnislöndum okkar. Þá er lagt til vegna erfiðleika útflutningsiðnaðarins í ár, að endurgreiðsla þessi verði látin ná aftur fyrir sig og gilda fyrir útflutning sömu greina iðnaðarins á yfirstandandi ári.

Samkv. áætlunum hagrannsóknadeildar nemur útflutningsverðmæti íslensks iðnaðar, að meðtöldum lagmetisiðnaði, en að undanskilinni ál- og kísilgúrframleiðslu, nálægt 320 millj. kr. árið 1973, og mundi endurgreiðsla því nema um 33 millj. kr. fyrir þetta ár.

Skipting þessara greiðslna eftir greinum er þannig: Lagmetisiðnaður 7.1 millj. kr., skinnaiðnaður 10.5 millj., ullar- og fataiðnaður 12 millj., annar iðnaður 3.4 millj., eða samtals 33 millj.

Samkvæmt þessum áætlunum gætu slíkar endurgreiðslur fyrir árin 1973 og 1974 numið samtals um 75 millj. kr.

Hins vegar, eins og ég gat um áðan, er hér aðeins um tillögur iðnrn. að ræða um þessi efni, og ríkisstj. hefur ekki enn tekið ákvörðun um, hvernig að þessu máli skuli staðið. Hins vegar geri ég mér vonir um, að ákvörðun verði tekin næstu daga um þessar aðgerðir eða einhverjar aðrar til þess að létta undir með útflutningsiðnaðinum vegna vandamála nú.