11.12.1973
Sameinað þing: 32. fundur, 94. löggjafarþing.
Sjá dálk 1197 í B-deild Alþingistíðinda. (1095)

387. mál, Aðaldalsflugvöllur og flugsamgöngur við Kópasker

Ingvar Gíslason:

Herra forseti. Ég ætla að fylgja hér eftir fsp., sem Heimir Hannesson flutti, á meðan hann sat á þingi. Þessi fsp. varðar Aðaldalsflugvöll og flugsamgöngur við Kópasker.

Í sambandi við Kópasker vil ég segja það, að sú var tíðin og allt fram á árið 1968, að fast áætlanaflug var hjá Flugfélagi Íslands milli Reykjavíkur og Kópaskers og á Kópaskeri er mjög sæmileg flugbraut, sem er fær fyrir Focker Friendship vélar Flugfélagsins.

Fólk á Kópaskeri og þar í grennd, þ. e. a. s. á Vestur-Sléttu og vestan Öxarfjarðarheiðar, er óánægt með það, að Flugfélag Íslands skuli ekki leitast við að veita því þá lágmarksþjónustu að lenda a. m. k. einu sinni í viku á Kópaskersflugvelli. T. d. gæti slíkt skeð þá daga, þegar Flugfélagið flýgur til Raufarhafnar og Þórshafnar, en það er þrisvar í viku. Því miður nýtist Raufarhafnarflugið illa fyrir þá, sem búa „vestan heiðar“ í Norður-Þingeyjarsýslu, sérstaklega á vetrum, vegna þess að vegurinn milli Kópaskers og Raufarhafnar er ekki alveg öruggur á vetrum.

En eins og er, flýgur Flugfélag Íslands ekki til Kópaskers, en hefur aftur viðkomu bæði á Raufarhöfn og Þórshöfn. Hins vegar hefur flugfélagið Norðurflug á Akureyri viðkomu á Kópaskeri tvisvar í viku og heldur þannig uppi tengslum við Akureyri og flug Flugfélagsins milli Akureyrar og Reykjavíkur. Þjónusta Norðurflugs er að sínu leyti góð og mikil úrbót, en hún er þó takmörkunum háð að áliti heimamanna í vesturparti Norður-Þingeyjarsýslu. Það væri mjög æskilegt að geta fyllt upp í þá eyðu, sem augljóslega er í flugsamgöngum við Kópasker, og þess vegna m. a. er þessi fsp. fram komin.

Um Aðaldalsflugvöll skal ég vera miklu fáorðari. Aðaldalsflugvöllur er flugvöllur fyrir Húsavík. Um hann er mjög mikil umferð. En ýmislegt þarf þar að gera, til þess að sá flugvöllur sé í góðu lagi. Það er að vísu gert ráð fyrir því nú í till. fjvn., sem ég hef staðið að, að veita talsvert mikið fé til Aðaldalsflugvallar á næsta ári, en það mun þó hvergi nærri nægja til að gera allar þær úrbætur, sem þyrfti að gera. T. d. hygg ég, að það muni ekki ná til þess að bæta að neinu ráði flugskýlið og þá sérstöku aðstöðu fyrir farþega, sem bæta þarf.