11.12.1973
Sameinað þing: 32. fundur, 94. löggjafarþing.
Sjá dálk 1199 í B-deild Alþingistíðinda. (1097)

387. mál, Aðaldalsflugvöllur og flugsamgöngur við Kópasker

Ingvar Gíslason:

Herra forseti. Ég vil þakka hæstv. samgrh. svör hans. Ég fellst á það með honum, að það eru ýmis vandkvæði á því fyrir hið opinbera að skikka einkafyrirtæki til þess að gera eitt og annað. Ég veit líka, að hæstv. samgrh. er vel kunnugur af eigin reynd þeim erfiðleikum, sem þarna er við að búa, og ég fagna því, að hann vill og hefur beitt sér fyrir því eða rætt það við forráðamenn Flugfélags Íslands, að reynt verði að bæta úr þessu með einum eða öðrum hætti.

Mér líst vel á þá hugmynd, að flugvél verði staðsett á Akureyri, góð flugvél, sem stundi innanfjórðungsflug. Mér líst vel á þá hugmynd, og ég hygg, að það sé ekki mjög langt þangað til úr því verður, að sú hugmynd verður að veruleika. En eigi að síður langar mig nú enn í lokin að beina því til hæstv, ráðh. að flytja þau skilaboð til forráðamanna Flugfélagsins, að það séu uppi mjög ákveðnar óskir um það, að Flugfélag Íslands millilendi af og til á Kópaskeri í ferðum sínum til Raufarhafnar og Þórshafnar.