11.12.1973
Sameinað þing: 32. fundur, 94. löggjafarþing.
Sjá dálk 1201 í B-deild Alþingistíðinda. (1101)

389. mál, raforkumál á Snæfellsnesi

Friðjón Þórðarson:

Herra forseti. Orkumál á Snæfellsnesi hafa lengi verið í ólestri, en hins vegar orkuþörf mikil og vaxandi. Ég ætla að láta örfá orð falla í þessu sambandi. Við höfum nefnilega á Vesturlandi Andakílsárvirkjun, sem hóf starfsemi sína í okt. 1947. Hún er sameignarfélag Mýra- og Borgarfjarðarsýslu og Akraneskaupstaðar. Hún hefur reynst mjög vel á sínu svæði. Nú er mikill vilji fyrir því heima í héraði, að þetta farsæla samstarf færi nokkuð út kvíarnar, þ. e. um Snæfellsnes og Dali. Yrði þá væntanlega stofnað félag til að annast orkuvinnslu og flutning á öllu svæðinu milli Hvalfjarðar og Gilsfjarðar. Aðilar þessa félags yrðu þá öll sýslufélögin á svæðinu og Akraneskaupstaður og ríkið e. t. v.

Nefnd vinnur nú að þessum málum. Ætlunin var að hefja þetta aukna samstarf með því að ráðast í línulögn frá Andakíl að Vegamótum á Snæfellsnesi þegar á s. l. sumri, en fyrir því hefur ekki fengist grænt ljós eða samþykki frá hinu opinbera.

Á hinn bóginn er því lýst yfir, eins og hæstv. ráðh. tók fram, að lina þessi verði lögð á næsta ári af Rafmagnsveitum ríkisins, þ. e. á árinu 1974, og er ekki nema gott eitt um það að segja, að það er þó ákveðið. En við íbúar á Vesturlandi munum halda áfram að leitast við að auka samstarf okkar í þessum málum sem allra mest og sem fyrst, eins og ég áður sagði.