11.12.1973
Sameinað þing: 32. fundur, 94. löggjafarþing.
Sjá dálk 1201 í B-deild Alþingistíðinda. (1102)

389. mál, raforkumál á Snæfellsnesi

Fyrirspyrjandi (Benedikt Gröndal) :

Herra forseti. Ég vil þakka hæstv. orkumrh. fyrir svör hans við fsp. minni, svo og fyrir þau almennu ummæli, sem hann lét falla um viðhorf í orkumálum og ég get tekið undir að öllu leyti.

Það eru vafalaust góð tíðindi fyrir Snæfellinga, að tengilínan, sem mun vera veigamesta umbótin sem sjáanleg er fram undan í raforkumálum þeirra, skuli koma á næsta ári. En eins og hæstv. síðasti ræðumaður tók fram, höfðu Snæfellingar lengi vel gert sér sterkar vonir um það, að þeir fengju þessa línu s. l. sumar. Upptalning hæstv. ráðh, á umbótum á raforkumálum í þessum hluta Vesturlands, sem ýmist eru ráðgerðar eða stefnt er að, eru í sjálfu sér staðfesting á því, hversu mikilla umbóta sé þörf á þessu svæði. Ég vil leggja á það ríka áherslu, að þetta er stórt svæði, sem hefur mikla framleiðsluatvinnuvegi og þarf á mikilli orku að halda. Ég vænti þess, að það verði unnið að því áfram, eftir að þetta svæði hefur verið tengt við aðalkerfi landsins, að bæta raforkuþjónustuna þar.