11.12.1973
Sameinað þing: 32. fundur, 94. löggjafarþing.
Sjá dálk 1202 í B-deild Alþingistíðinda. (1103)

390. mál, hitun húsa með raforku

Fyrirspyrjandi (Friðjón Þórðarson) :

Herra forseti. Árið 1970 fluttu 6 þm. Sjálfstfl. í Nd. Alþ. till. til þál. um hitun húsa með raforku. 1. flm. var Jónas Pétursson, þáv. þm. Austf. Till. þessi fól í sér áskorun á hæstv. iðnrh. að beita sér fyrir aukinni notkun raforku til húsahitunar á öllum þeim svæðum, þar sem jarðhita er ekki völ sem hagkvæmari hitagjafa. Í till. sagði:

„Skal stefnt að því að gera 5 ára áætlun um framkvæmd hitunarmálsins þannig, að innlendar orkulindir hiti hvert híbýli landsins að þeim tíma liðnum.“

Í grg. var vikið að því, að Íslendingar þyrftu á mikilli hitaorku að halda í íhúðarhús og vinnustöðvar. Landið væri kalt, land elds og ísa, en byggi jafnframt yfir mikilli orku, sem enn væri ekki nýtt nema að litlu leyti. Með því að beisla orku jarðhita og fallvatna m. a. til húsahitunar og draga jafnframt úr innflutningi olíu mætti spara mikið fé og dýrmætan gjaldeyri. Einsýnt væri að nota fremur innlenda orku en innflutta. Hér væri um að ræða stórt fjárhagslegt mál. Bein þörf væri á að þrýsta á aukinn hraða í framkvæmdum á þessu sviði.

N. sú, sem fjallaði um þessa till., féllst Á hana að öðru leyti en því, að of naumt þótti að miða við 5 ára áætlun, sem hefði þýtt það, að stefnt hefði verið að því, að hvert híbýli landsins yrði hitað innlendum orkulindum árið 1976. Till. var því samþykkt í þessu formi:

Nd. Alþ. ályktar að skora á iðnrh. að beita sér fyrir aukinni notkun á raforku til húsahitunar á öllum þeim svæðum, þar sem jarðhita er ekki völ sem hagkvæmari hitagjafa. Gera skal sem fyrst áætlun, þar sem stefnt verði að því, að innlendar orkulindir verði aðalhitagjafi landsmanna.“

Þannig var þáltill. samþ. hér í hv. d. 1. marz 1971. Fyrir því er nú spurt, hvað liði framkvæmd þessarar ályktunar.