11.12.1973
Sameinað þing: 32. fundur, 94. löggjafarþing.
Sjá dálk 1205 í B-deild Alþingistíðinda. (1108)

391. mál, verðlagning ríkisjarða

Fjmrh. (Halldór E. Sigurðsson):

Herra forseti. Á þskj. 155 er fsp. frá hv. 11. landsk. þm. um sölu á jörðum ríkisins. Svar rn. við þessari fsp. er svo hljóðandi:

Ríkisjarðir eru ýmist seldar samkv. sénstökum heimildarlögum eða lögum nr. 102 1962 um sölu ríkisjarða til ábúenda. Þegar jarðar- eða landssala samkv. sérstökum heimildarlögum á sér stað, er oftast nær um sölu að ræða til sveitarfélaga, sem hafa þörf fyrir meira land vegna fólksfjölgunar og vaxandi byggðar. Sums staðar hafa heil þorp beinlínis byggst upp í landi þessara jarða. Auk þess hafa nokkur hreppsfélög keypt jarðir, oftast eyðibýli, til sameiginlegrar beitar fyrir hreppsfélög, stundum vegna hlunninda er fylgdu, og af fleiri ástæðum.

Við heimild til sölu á slíkum jörðum hafa oftast nær verið þau ákvæði í l., að verð skuli ákveða af matsmönnum, ef ekki næst um það samkomulag á milli seljanda og kaupanda. Reynslan er sú, að samkomulag hefur oft náðst bæði um verð og greiðsluskilmála. Hefur þá verið höfð hliðsjón af þörf sveitarfélagsins annars vegar og líklegu markaðsverði hins vegar, en jafnframt verið tekið tillit til þeirrar verðhækkunar á landinu, sem orðið hefur vegna framkvæmda og kostnaðar sveitarfélagsins, án þess að seljandi hafi lagt þar neitt af mörkum, og slík hækkun ekki látin hafa áhrif á söluverð.

Nokkrar jarðir hafa verið seldar samkv. l. nr. 102 1962, um ættaróðul, ættarjarðir, erfðaábúð og sölu þjóð- og kirkjujarða. Samkv. þeim lögum, XI, kafla, 47. gr., hefur bóndi, sem búið hefur á ríkisjörð í 3 ár og fær meðmæli hreppsnefndar, rétt til þess að kaupa ábýlisjörð sína, ef hann gerir hana að ættaróðali. Söluverð þessara jarða hefur verið miðað við fasteignamat, enda er svo ráð fyrir gert í 49. gr. fyrrnefndra laga. Fram til 1. jan. 1971 var í gildi fasteignamat frá árinu 1957. Síðustu árin var það í miklu ósamræmi við allt verðlag í landinu. Var þá söluverð landsins hækkað eftir samkomulagi við kaupendur. Hús og önnur mannvirki á jörðum þessum voru oftast að mestu eða öllu í eigu kaupandans. Ef svo var ekki, voru þau færð til samræmis við ríkjandi verðlag á hverjum tíma eftir byggingarvísitölu. Með hlunnindi var og er raunar enn farið eftir ákvæðum um afgjaldskvaðarverðmæti, þ. e. a. s. árstekjum af hlunnindum margfölduðum með tölunni 15, sbr. fasteignamat 1942.

Þá ber að geta þess, að í afsölum fyrir jörðum, hvort sem þær eru seldar einstaklingum eða sveitarfélögum, eru undanskildar námur og námuréttindi, vatns- og hitaréttindi umfram heimilisþarfir kaupanda, og áskilur ríkissjóður sér forkaupsrétt, eigi að selja landið aftur. Sala ríkisjarða er undirbúin í landbrn., og þegar sala lands á sér stað samkv. sérstökum heimildalögum, hefur landbrh. samkv. gamalli venju tekið ákvörðun um söluverðið eftir að hafa kynnt sér sjónarmið kaupanda og annað, sem áhrif kann að hafa á söluverðið.

Þetta er það, sem ég hef að segja um fsp. hv. þm.