11.12.1973
Sameinað þing: 32. fundur, 94. löggjafarþing.
Sjá dálk 1206 í B-deild Alþingistíðinda. (1110)

391. mál, verðlagning ríkisjarða

Fjmrh. (Halldór E. Sigurðsson):

Herra forseti. Ég vil geta þess út af ræðu hv. 11. landsk., að í öðru tilfellinu var um sölu að ræða samkv. lagaákvæðum, en í hinu tilfellinu um sölu að ræða samkv. samkomulagi. Hins vegar hefur það verið svo, þar sem samkomulag hefur verið eða a. m. k. þar sem ég hef unnið að því, að ég hef reynt að halda mig við að leggja á það álag, sem hefur komið á fasteignamati, síðan það var síðast gert, og ég held, að því hafi nokkuð verið fylgt um þá sölu, sem ég hef staðið fyrir. Hins vegar var það svo, að ég lét í gildi haldast þær ákvarðanir, sem búið var að taka af fyrirrennara mínum um sölu á landi, m. a. til Garðahrepps, án þess að breyta því nokkuð, þó að málið hafi dregist, og taldi sanngjarnt að gera það, fyrst það var komið á afgreiðslustig. Ég held, að það sé hægt að segja, að ekki hafi verið reynt á neinn hátt að íþyngja sveitarfélögum í kaupum, en þetta hefur verið sú meginregla, sem ég hef viljað fara eftir.