11.12.1973
Sameinað þing: 32. fundur, 94. löggjafarþing.
Sjá dálk 1207 í B-deild Alþingistíðinda. (1112)

128. mál, bygging leiguíbúða á vegum sveitarfélaga

Félmrh. (Björn Jónsson):

Herra forseti. Í fyrsta lagi er spurt: „Hvað líður undirbúningi að byggingu íbúða á vegum sveitarfélaga í samræmi við heimild l. nr. 58 frá 30. apríl s. l. um breyt. á l. um Húsnæðismálastofnun ríkisins?“

Þessu vil ég svara á þessa leið:

1. Síðla sumars var öllum sveitarfélögum í landinu, þar sem 300 íbúar eða fleiri búa í þéttbýli, þó ekki í Reykjavík, skrifað og þau beðin að láta í ljós vilja sinn um, hve margar þessara tilteknu íbúða yrðu byggðar í hverju þeirra fyrir sig. Jafnframt voru þau beðin að greina ítarlega frá því, á hverju þessi vilji þeirra byggðist, þ. e. a. s, rökstyðja sem nákvæmlegast óskir sínar í þessu efni. Var þeim upphaflega gert að senda svör sín fyrir 15. okt. s. l., en þeim, er þá höfðu ekki gert skil, var síðan gefinn frestur til 1. des. s. l.

2. Fyrir tilstuðlan félmrn. og Húsnæðismálastofnunarinnar starfar nú áætlanadeild Framkvæmdastofnunar ríkisins að athugun á því, með hverjum hætti íbúðir þessar gætu skipst milli þeirra sveitarfélaga, sem eiga að fá að njóta þeirra. Er sú athugun m. a. byggð á svörum sveitarfélaganna, er að ofan greinir, og öðrum fyrirliggjandi upplýsingum í Framkvæmdastofnuninni. Vonast er til, að niðurstaða þessara athugunar geti legið fyrir nú í þessum mánuði.

3. Húsnæðismálastofnunin hefur allt frá því í sumar búið sig undir það starfslega séð að annast þetta mál alhliða að því leyti, sem félmrn. mun fela henni að fara með þau mál, en mín skoðun er sú, að Húsnæðismálastofnuninni verði falin framkvæmd l. að langmestu leyti.

4. Hafin er könnun á því, hvort til greina geti komið að flytja inn erlend íbúðarhús með hagkvæmum kjörum til notkunar í þessu skyni að hluta til, a. m. k. hafa farið fram undirbúningsviðræður um það. Með tilliti til þessa og enn fremur með tilliti til hugsanlegrar notkunar innlendra einingarhúsa í þessu skyni hefur húsnæðismálastjórn nýlega ákveðið að fara þess á leit við Rannsóknastofnun byggingaiðnaðarins, að hún láti fram fara í vetur mjög rækilega könnun á, hvernig öll þessi hús reynast, hin erlendu, er flutt hafa verið inn í landið á þessu ári, og hin innlendu. Verður niðurstaða hennar mikilvæg vegna framkvæmdanna á þessu sviði. M. a. hefur þetta verið íhugað vegna þess, að hér er um mörg byggðarlög að ræða, þar sem byggingartækni er ekki mikil fyrir hendi og jafnvel ekki byggingariðnaðarmenn.

5. Í félmrn. og Húsnæðismálastofnuninni hefur farið fram athugun á því, með hverjum hætti hyggilegast væri að standa að framkvæmd þessa máls. Hér er um framkvæmd að ræða, sem geti kostað 3–4 milljarða kr., og er því að mörgu að gæta, áður en sú leið verður valin, sem hagkvæmust og jákvæðust er talin fyrir alla aðila.

Í öðru lagi er spurt: „Hefur verið sett reglugerð um framkvæmd þessa?“

Því er til að svara, að á s .l. sumri fól rn. Hjálmari Vilhjálmssyni fyrrv. ráðuneytisstjóra að semja drög að reglugerð. Þau drög liggja nú fyrir og eru til athugunar hjá húsnæðismálastjórn, en ég vænti þess, að frá reglugerðinni verði hægt að ganga mjög fljótlega.

Í þriðja lagi er spurt: „Hve margar umsóknir hafa borist frá sveitarfélögum um stuðning samkv. þessum ákvæðum?“

Svarið við því er það, að 1. þ. m. höfðu borist beiðnir um 80% lán til smíði 1072 íbúða í 49 sveitarfélögum. Og ég get getið þess, ef mönnum kynni að þykja það fróðlegt, hvernig þetta skiptist á landshluta, að á Suðurlandi eru þetta nálægt 80 íbúðir, Reykjanesi 66, Vesturlandi 140, Vestfjörðum 320, Norðurlandi milli 360 og 370 og á Austurlandi 102. En samtals eru þetta, eins og ég sagði, 1072 íbúðir í 49 sveitarfélögum. En þess er þá að gæta, að þetta er samkv. þeirri könnun, sem ég gat hér um, að gerð hefði verið á þéttbýlisstöðum með meira en 300 íbúa, en að sjálfsögðu verður öðrum sveitarfélögum einnig gefinn kostur á að sækja um þessi lán, sem hér er um að ræða, og geta auðvitað komið til greina staðir, sem hafa færri íbúa en þetta. Hér var einungis um könnun að ræða, en ekki almenna auglýsingu um umsóknir.