11.12.1973
Sameinað þing: 32. fundur, 94. löggjafarþing.
Sjá dálk 1212 í B-deild Alþingistíðinda. (1118)

396. mál, yfirbyggingar á Bolungarvíkurvegi

Fyrirspyrjandi (Þorv. Garðar Kristjánsson) :

Herra forseti. Fsp. sú, sem ég hef leyft mér að bera hér fram til samgrh., varðar Bolungarvíkurveginn.

Bolungarvíkurvegurinn liggur, eins og kunnugt er, milli Bolungarvíkur og Ísafjarðar. Hann er eina færa leiðin á landi milli þessara tveggja staða og er þess vegna lífæð Bolungarvíkur um allar samgöngur á landi. En þessi vegur liggur á erfiðum slóðum í brattri fjallshlið, þar sem er mikil hætta á ofanfalli og sérstaklega er hætta á snjóflóðum á vetrum, þar sem þarna er snjóþungt eins og viðast á Vestfjörðum. Sérstaklega eru hættusvæði þessa vegar bundin við gil, sem liggja í fjallshliðinni. Niður þessi gil falla alltaf á hverjum vetri snjóflóð, sem hindra samgöngur um veginn lengri eða skemmri tíma. En það er ekki nóg með það, að snjóflóðin valdi slíkum samgöngutálmum, heldur stafar hér af mikil hætta þeim mönnum, sem eiga vegferð um veginn. Með tilliti til þessa hefur verið rætt í langan tíma að byggja yfir veginn á hættulegustu stöðunum, þar sem snjóflóðahættan er mest við gilin.

Þegar núgildandi vegaáætlun var í undirbúningi, kom þetta mál sérstaklega til umr., og þá var því lofað af hálfu vegamálastjórnarinnar, að það skyldi fara fram athugun á staðháttum og í framhaldi af því, hvers konar gerð yfirbygginga kæmi til greina á þessum vegi. Jafnframt því, sem ákveðið var að gera þessar athuganir, var gengið út frá því, að þeim væri lokið, áður en vegáætlun yrði endurskoðuð fyrir árin 1974 og 1975.

Nú líður að því, að það þarf að endurskoða vegáætlunina fyrir þessi ár. Það á að gera á þessu þingi. Ef á að standa við hin gefnu fyrirheit, verður þessum athugunum og áætlanagerðum að vera lokið nú á næstunni, ef þeim er ekki lokið nú þegar.

Með tilliti til þessa hef ég leyft mér að spyrja: „Hefur verið lokið athugun á staðháttum og áætlunargerð um yfirbyggingar yfir gil á Bolungarvíkurvegi, þar sem snjóflóð falla að jafnaði oft á ári? Ef svo er, hvenær geta framkvæmdir hafist?“