11.12.1973
Sameinað þing: 32. fundur, 94. löggjafarþing.
Sjá dálk 1213 í B-deild Alþingistíðinda. (1119)

396. mál, yfirbyggingar á Bolungarvíkurvegi

Félmrh. (Björn Jónsson) :

Herra forseti. Spurt er í fyrsta lagi: „Hefur verið lokið athugun á staðháttum og áætlanagerð um yfirbyggingar yfir gil á Bolungarvíkurvegi, þar sem snjóflóð falla jafnan oft á ári?“

Svar mitt við þessari fsp. er þetta: Á s. l. ári og í ár hefur verið unnið að athugun og mælingum á 6 stöðum á Bolungarvíkurvegi, þar sem talið er, að til mála komi að byggja yfir veginn til varnar gegn snjóflóðum og aurskriðum. Er stefnt að því, að við endurskoðun vegáætlunar fyrir árin 1974–1975 og gerð nýrrar vegáætlunar fyrir árin 1976 og 1977, sem gera skal lögum samkv. nú í vetur, verði unnt að leggja fram till. og kostnaðaráætlanir um yfirbyggingu á tveimur verstu giljunum.

Í öðru lagi: Þar sem yfirbyggingar fyrir snjóflóð og aurskriður eru ámóta kostnaðarsamar á hvern lengdarmetra vegar og brýr, verður ekki unnt að ráðast í slíkar framkvæmdir, fyrr en sérstakar fjárveitingar verða fyrir hendi. Gert er ráð fyrir, að framkvæmdir geti hafist nokkrum mánuðum eftir að fjárveitingar liggja fyrir. Af þessu svari mínu er ljóst, að framkvæmdir koma til álita í sambandi við gerð vegáætlunar og endurskoðunar nú í vetur.

Ég vil enn fremur taka fram í þessu sambandi, að sams konar athuganir hafa farið fram varðandi yfirbyggingu 5 gilja á Ólafsfjarðarvegi um Ólafsfjarðarmúla, og er gert ráð fyrir, að frumáætlun geti legið fyrir nú í vetur að yfirbyggingu á tveim þessara gilja, svo sem kom fram í fsp. um þetta mál í mars s. l.