25.10.1973
Sameinað þing: 8. fundur, 94. löggjafarþing.
Sjá dálk 191 í B-deild Alþingistíðinda. (112)

13. mál, útbreiðsla sjónvarps

Flm. (Steingrímur Hermannsson):

Herra forseti. Ég veit, að hv. síðasti ræðumaður hefur mikið álit á þeirri till., sem hann flutti á síðasta þingi, en ég vil fullvissa hann um, að sú till., sem hér liggur fyrir, er ekki afrit af þeirri till., enda mun hann geta sannfært sig um það, ef hann les till. Ég hygg, að það fari þar ekkert á milli mála. T. d. má benda á þá einföldu staðreynd, að við gerum ráð fyrir þriggja ára framkvæmdaáætlun, í till. hv. þm. er rætt um að ljúka framkvæmdum innan tveggja ára. Við teljum þriggja ára framkvæmdatímabil raunhæfara en tveggja ára. Fleiri atriði gæti ég talið upp, sem eru þarna önnur.

Báðar till. stuðla að miklu og mikilvægu framfaramáli, og mér fyrir mitt leyti dettur ekki í hug að gera litið úr þeirri till., sem hv. þm. lagði fram á síðasta þingi og hann hefur nú lagt fram. Við flm. þáltill. á þskj. 13 höfðum að sjálfsögðu enga vissu fyrir því, að hv. flm. mundi endurflytja till. sína frá síðasta þingi.