11.12.1973
Sameinað þing: 32. fundur, 94. löggjafarþing.
Sjá dálk 1214 í B-deild Alþingistíðinda. (1120)

396. mál, yfirbyggingar á Bolungarvíkurvegi

Fyrirspyrjandi (Þorv. Garðar Kristjánsson) :

Herra forseti: Ég þakka hæstv. samgrh. fyrir svar hans. Mér þykir gott að heyra, að það er gert ráð fyrir, að það verði staðið við þær fyrirætlanir að ljúka athugun og áætlanagerð um þær framkvæmdir, sem hér um ræðir, þannig að fyrir geti legið, þegar vegáætlun verður endurskoðuð síðar á þessu þingi.

En ég tók eftir því, að hæstv. ráðh. sagði, að hér væri einungis um að ræða tvö verstu gilin á veginum. Um leið og ég fagna því, að það skuli vera gert ráð fyrir að áætlunum verði lokið varðandi þessi tvö gil, verð ég að leggja áherslu á það, að hér er ekki um að ræða nema nokkurn hluta verksins. Ég hygg, að það sé augljóst mál, að það verði að gera betur og halda áfram þessum undirbúningi og gera áætlanir og athuganir á fleiri giljum. Ég vil alveg sérstaklega leggja áherslu á þetta atriði og vænti þess, að hæstv. ráðh. taki þessi orð mín til athugunar og eftirbreytni.

Ráðh. sagði réttilega, að það væri ekki hægt að hefja framkvæmdir í þessum efnum, fyrr en fjárveitingar lægju fyrir. En hann sagði jafnframt það koma til álita við endurskoðun vegáætlunarinnar fyrir árin 1974 og 1975 að veita fjármagn til þessara framkvæmda. Mér þykir gott að heyra þetta. En ég vil leggja áherslu á, að það var alla tíð gert ráð fyrir að vinna þetta undirbúningsstarf með það fyrir augum, að því væri lokið áður en vegáætlun fyrir 1974 og 1975 væri endurskoðuð. Í því felst að mínu áliti, að það hafi verið gert ráð fyrir því í raun og veru, að það yrði veitt fjármagn til þessara framkvæmda við þessa endurskoðun. Það var ekki ástæða til að leggja svo mikla áherslu á, að undirbúningi og áætlanagerðum væri lokið fyrir endurskoðunina, nema einmitt vegna þess, að menn höfðu þá í huga, að það yrði veitt fjármagn til þessara bráðnauðsynlegu framkvæmda við næstu endurskoðun vegáætlunarinnar.

Það kann að vera, að það hafi ekki legið fyrir formleg loforð eða samþykktir um þetta efni, en ég tel þó, að það sé siðferðileg skylda yfirstjórnar vegamálanna að halda svo á þessu máli, að framkvæmdir geti hafist þegar á næsta ári. Og í trausti þess, að svo geti orðið, endurtek ég þakkir mínar til hæstv. ráðh. fyrir svar hans.