25.10.1973
Sameinað þing: 8. fundur, 94. löggjafarþing.
Sjá dálk 191 í B-deild Alþingistíðinda. (113)

13. mál, útbreiðsla sjónvarps

Halldór Blöndal:

Herra forseti. Ég vil aðeins segja það í sambandi við ummæli hv. 1. þm. Vestf., að ég hygg, að við, sem stöndum að þáltill. með hv. 5. þm. Vestf., unum því vel, að eini munurinn á þessum tveim till. skuli vera sá, að við erum því meiri framkvæmdamenn heldur en þeir hinir, að við viljum gera það á tveimur árum, sem hinir vilja gera á þrem. En annars vil ég taka undir það með hv. síðasta ræðumanni, að þessi munur, 2–3 ár, þó að það sé ekki nema einn tölustafur, sem þarna er á milli, þá er þetta geysilegur efnismunur, og ég fellst þess vegna vel á það, að þetta sé ekki afrit eða endurrit af hinni till., heldur stæling og það léleg stæling.