12.12.1973
Sameinað þing: 35. fundur, 94. löggjafarþing.
Sjá dálk 1299 í B-deild Alþingistíðinda. (1133)

1. mál, fjárlög 1974

Ragnhildur Helgadóttir:

Herra forseti. Ég hef leyft mér að flytja till. um það, að styrkur til Bandalags íslenskra skáta verði hækkaður um 500 þús. Ástæðan til þessarar till. er sú, að raunverulegur styrkur til þessarar starfsemi hefur verið lækkaður sem þessu nemur frá því í fyrra. Það kemur þó ekki fram í sjálfum fjárl., vegna þess að frá haustinu 1969 og til 1973 hafði Bandalag ísl. skáta þau hlunnindi samkv. ákvörðun menntmrh., að kennara við gagnfræðaskóla í Reykjavík var heimilað að verja hálfum starfstíma sínum sem framkvæmdastjóri Bandalags ísl. skáta. En þegar sá maður hætti störfum sem starfsmaður Bandalags ísl. skáta, fékkst þessi heimild ekki endurnýjuð fyrir annan mann. Þess vegna er það, að þessi till. er flutt, því að annars getur þessi starfsemi dregist stórlega saman. Og við það er þessi upphæð, 500 þús., miðuð. Verður að telja, að með þessari till. sé ekki fram á mikið farið, því að raunverulega er þarna ekki verið að fara fram á stóraukinn styrk til starfseminnar, heldur aðeins reynt að halda í horfi. Það væri sannarlega ekki fráleitt að láta sér detta í bug, að heldur hefði átt að flytja till. um hækkun, til þess að unnt væri að auka og efla þessa nauðsynlegu starfsemi fyrir æskulýðinn í landinu, en mér er ljóst, að hér verður að hafa till. nokkuð við hóf, ef maður ætlar sér að fá þær samþykktar. En ég vil ekki ætla hv. fjvn., að það hafi raunverulega vakað fyrir henni að haga sínum ákvörðunum svo, að Bandalag ísl. skáta þyrfti að draga úr starfsemi sinni, heldur mun vera þarna um aðstæður að ræða, sem nm. kann að hafa verið ókunnugt um.

Ég þarf ekki að hafa mörg orð um það í þessari ræðu, hvílík nauðsyn er á því, að skátastarf geti haldist og eflst í þessu landi, og mér dettur aðeins í hug í því sambandi að minnast orða, sem ég heyrði hæstv. forseta Sþ. flytja við hátíðlegt tækifæri hjá skátum í fyrra. Þar sagði hann:

„Hafi skátastarfsemi nokkurn tíma verið nauðsynleg æskulýðnum, ekki aðeins á Íslandi, heldur í heiminum, þá er það nú í dag.“

Undir þessi orð vil ég af heilum hug taka og vænti þess, að svo muni verða um velflesta þm. Ég held, að ég þurfi ekki að hafa fleiri orð eða skýringar um þessa till. Ég held, að alveg sé ljóst, af hverju hún er fram komin.

Það eru tvö önnur atriði, sem mig langar til þess að nefna í sambandi við till. fjvn. Annað er varðandi styrk til norræns laganemamóts, sem hér á að halda á næsta sumri. Það er svo, að hin norrænu laganemamót mega teljast orðið liður í námi íslenskra lagastúdenta, og sumt, sem þar kemur fram, leggur á vissan hátt grundvöll að norrænu lagastarfi, sem er mikilvægt fyrir okkar löggjöf. En þannig er, að þessum mótum hefur jafnan verið haldið uppi mestmegnis af opinberu fé og kostnaður mótsins er áætlaður hátt á 3. millj. Fram á þá upphæð var farið við hv. fjvn., og n. var sent bænarskjal undirritað af öllum lögfræðingum, sem eiga sæti á Alþ., og þeir eru nú stundum taldir í það flesta, en mér virðist af þessu, að þeir hafi varla verið nægilega margir. A. m. k. var þeirra erindi ekki tekið til greina nema að 1/10 hluta til. Í till. fjvn. er lagt til, að til norræns laganemamóts verði varið 250 þús., og það eru tæp 10% af því, sem mótið kostar, og ég geri ráð fyrir, að með þessa upphæð verði ekki hægt að halda þetta mót.

Á þessu vildi ég vekja athygli og svo enn fremur leggja á það áherslu, að mót þessi mega teljast með nokkrum hætti liður í námi þessara stúdenta. Ég sé, að mér hefur orðið það á að geta þess ekki, að á þessu téða bænarskjali var ekki nafn eins lögfræðings, sem á sæti á Alþ., en hann var fjarverandi þann dag, sem ég afhenti skjalið. Það var sjálfur hæstv. fors.- og dómsmrh. En ég læt mér ekki detta í hug, að það standi á hans stuðningi við þetta mál, enda hefur framkvæmd slíkra móta, að því er hið opinbera varðar, jafnan verið í höndum dómsmrn. Ekki vil ég heldur ætla hv. fjvn. það, að henni hafi ekki þótt skjalið nægilega fínt, fyrst þar var ekki nafn sjálfs forsrh. En það liggur vissulega nærri að láta sér detta þá skýringu í hug. A. m. k. hefur nefndin ekki talið lögfræðingana, sem undirskrifuðu, nægilega marga eða þá þennan lið í námi íslensku stúdentanna nægilega merkilegan. Ég flyt ekki um þetta sérstaka till., en leyfi mér að beina því eindregið til hv. n., að hún endurskoði þessa afstöðu, ef nokkur einustu föng eru á.

Svo er þriðja atriðið, sem mig langar til þess að nefna, og það er sýnu stærra en þessi tvö. Þannig var, að á öndverðu þingi í vetur flutti hv. 3. þm. Reykn., Oddur Ólafsson, fsp. um það, hvað liði byggingu geðdeildar Landsspítalans, hvenær væri fyrirhugað að taka þá byggingu í notkun. Þá sagði hæstv. heilbrrh. m.a. svo:

„Byggingarframkvæmdir eru ekki hafnar, en öllum undirbúningi vegna byggingar I. áfanga er lokið, og hafa fullgerðar teikningar verið til athugunar hjá hagsýslustofnun og framkvæmdadeild Innkaupastofnunar ríkisins síðustu vikurnar. Samkv. verkáætlun, sem samin var í sept., var gert ráð fyrir, að byggingarframkvæmdir gætu hafist á þessu ári, og þá var gert ráð fyrir að ljúka byggingunni á þrem árum eða hún gæti orðið tilbúin til notkunar í árslok 1976. Til þess að þessi framkvæmd gæti orðið, þarf að ætla til byggingarinnar um 350 millj. á þessum tíma, og þá þarf jafnframt að gera ráð fyrir því, að þær framkvæmdir, sem áætlaðar voru í ár, færist yfir og þeim ljúki á árinu 1974 jafnframt þeim framkvæmdum, sem þá voru áætlaðar.“ Og hæstv. ráðh. heldur áfram: „Það kemur til kasta þm. að taka ákvörðun um það, hvort þeir vilji hraða byggingu geðdeildar Landsspítalans, svo að hún geti komist í not í árslok 1976. Til þess þarf að hækka verulega þá fjárveitingu, sem áformuð er til byggingarinnar á árinu 1974. Í fjárlagafrv. eru áætlaðar 60 millj. til byggingarinnar, en þyrftu samkv. áætlun að vera um 90 millj. á árinu 1974, til þess að hægt verði að standa við fyrrgreinda áætlun. Þetta mál mun m. ö. o. koma til afgreiðslu Alþ., við afgreiðslu fjárlaga.“

Þetta sagði hæstv. heilbrrh. Bæði ég og margir aðrir þm. gerðu fastlega ráð fyrir því eftir þessum ummælum, að sá hugur fylgdi máli hæstv. ráðh., að hann mundi beita sér fyrir því við hv. fjvn., að þessar 90 millj. yrðu ætlaðar til þessarar nefndu byggingar, þ. e. a. s. að um hefði verið að ræða 30 millj. kr. hækkun frá frv., eins og það var lagt fram í haust. Eftir þeim upplýsingum, sem ég hef aflað mér, hefur ekki orðið vart við þessa tilburði ráðh. Ég verð að segja, að mér finnst það æði hart aðgöngu, að ráðh. geti látið sér slíkt um munn fara sem hann gerði, við þessa umr., vinna svo ekkert að því sjálfur, að þessi fjárveiting fáist og varpa ábyrgðinni af því, að of lítið fé verði veitt, til þess að við áætlun verði staðið, yfir á herðar þm. Ég veit, að það þýðir ekki að varpa hér fram fsp. eða biðja um upplýsingar frá ráðh., sem er fjarstaddur, en hins vegar geri ég ráð fyrir, að það samband muni þó einhverjir viðstaddra, þótt fáir séu, a. m. k. hv. formaður fjvn., kannske hafa við þennan hæstv. ráðh., að hann gangi eftir því hjá honum hvort ekki sé ætlunin að gera neinar ráðstafanir í þá átt, að þessi fjárveiting fáist. Tilraunir hans í þá átt hafa farið mjög hljóðlega eftir þeim upplýsingum, sem ég hef aflað mér, og væri þá fróðlegt að vita, í hverju þeir tilburðir hæstv. ráðh. hafa komið fram. Og komi í ljós, að hæstv. ráðh. hafi ekki heitt sér fyrir þessu og geri það ekki milli umr., þá leyfi ég mér að áskilja mér rétt til þess að flytja till. um þetta við 3. umr., til þess er fullkomin ástæða.

Ég vænti þess, að hæstv. ráðh. og þeir, sem hann styðja, samþykki þá till. Annars get ég ekki litið svo á, að það séu ábyrg orð, sem hann flytur hér í haust, þegar hann varpar ábyrgðinni af þessum fjárskorti yfir á herðar þm, og hefst svo sjálfur ekki að. Þetta finnst mér mjög alvarlegt atriði og vil láta á það reyna, hvort þarna hefur ekki raunverulega hugur fylgt máli. Ég vil satt að segja ekki ætla hæstv. ráðh. það, að hann varpi fram slíkum athugasemdum algerlega í ábyrgðarleysi.