12.12.1973
Sameinað þing: 35. fundur, 94. löggjafarþing.
Sjá dálk 1304 í B-deild Alþingistíðinda. (1135)

1. mál, fjárlög 1974

Bjarni Guðnason:

Herra forseti. Þegar fjárlagafrv. var lagt fram, tók ég til máls og felldi um það þau orð, sem mér þóttu henta. Nú hefur fjárlagafrv. gengið til n. og er aftur komið hér inn í þd., og mér virðist, að það, sem ég sagði um það í upphafi, fái staðist, þannig að stefnan er sú sama, og þess vegna vísa ég til fyrri ræðu minnar og verð ekki margorður, en vil þó aðeins benda á tvö, þrjú atriði.

Mér kemur nokkuð spánskt fyrir sjónir, hvað hæstv. fjmrh. virðist lítið ræða um þær uggvænlegu horfur, sem eru í efnahagsmálum þjóðarinnar. Nú standa yfir kjarasamningar. Þar þokast lítið eða ekkert, og kunnugir menn segja mér, að ef svo fer sem horfir, þá mætti jafnvel búast við verkföllum á næsta ári og það fyrr en síðar. Jafnframt þessu er orkuvandamál veraldarinnar, hækkandi verðlag og fiskverðið, sem þarf að ákveða um áramótin, og svo jafnframt þessi óðaverðbólga eða bandóðaverðbólga, allt samofið, og fer ekki milli mála, að hér er við geysilegan vanda að etja. Og mér finnst það skylda ráðamanna þjóðarinnar að ræða þessi mál hreinskilnislega og reyna ekki að slá ryki í augu þjóðarinnar og kannske allra síst þm., sem hafa töluverða reynslu í þessum málum.

Ég vil benda á eitt atriði. Þessi ríkisstj. nefndi sig sjálfa stjórn hins vinnandi fólks. En hvernig er nú komið? Það virðist ekki unnt með góðu móti að bæta kjör láglaunafólksins í landinu. Atvinnurekendur telja, að það sé enginn grundvöllur til kauphækkunar, og samt er viðurkennt, að láglaunafólkið býr við síst betri kjör en fyrir 30–40 árum. Jafnframt þessu er það helsta krafa verkalýðsfélaganna að lagfæra skattinn, einkanlega tekjuskattinn, skattpíning sé. Þó virðist engin leið að lagfæra tekjuskattinn, það er ekkert svigrúm fyrir það. Jafnframt þessu gerir frv. ráð fyrir því að skerða hag barnafjölskyldna með því að lækka fjölskyldubæturnar. Og jafnframt þessu virðist frv. gera ráð fyrir því að lækka niðurgreiðslur á helstu neysluvörum almennings. Ég fæ ekki betur séð en að í öllu þessu peningaflóði, í allri þessari verðbólgu, þá sé einmitt lítið eða ekkert svigrúm eftir til þess að bæta kjör þeirra þjóðfélagsþegna, sem ríkisstj. einmitt taldi sig leggja áherslu á að bæta.

Varðandi tekjustofna frv. blasir það við, að ríkisstj. virðist ekki hafa lengur bolmagn til þess að fara þær leiðir í tekjuöflun ríkissjóðs, sem hún helst kysi. Og hvað merkir það? Það merkir það, að hún stjórnar ekki lengur. Þegar svo er komið, að það er boðuð í grg. í fjárlagafrv. 2% söluskattshækkun frá 1. jan., síðan horfið frá því, af því að það er ekki þingfylgi fyrir því, en það merkir að sjálfsögðu, að ríkisstj. hefur ekki lengur tök á því að móta þá stefnu í efnahagsmálum, sem hún helst kysi. Þess vegna lít ég svo á, að það væri heppilegast fyrir ríkisstj. og fyrir þm. og þjóðina, að þessi ríkisstj. færi frá. Og það er óskemmtilegt að horfa upp á það varðandi tekjuskattinn, hvað þessi ríkisstj. getur reynt á langlundargeð þm., þar sem vitað er, að skattpíningin með tekjuskattinum er orðin óþolandi. En það bryddir ekki á því, að ríkisstj. telji sér skylt að gera einhverjar breytingar á því. Og hversu lengi á að reyna á þolinmæði þm. í þessum efnum?

Hér verður ekki annað sagt en það þurfi að fara að taka efnahagsmálin traustari tökum, og það verður að gerast, að minni hyggju, með samstöðu allra þingflokkanna, stjórnmálaflokkanna, þannig að þeir gætu saman gert þær óvinsælu ráðstafanir, standa að því að leita eftir því, hvað megi skera niður, hvað sé hægt að spara í ríkisstofnunum, á hvaða liðum er hægt að draga úr útgjöldum. Þetta eru óvinsælar ráðstafanir, og ég teldi, að það væri ábyrg afstaða hjá þingfl. öllum að koma saman og fara í gegnum þessi mál, og að sjálfsögðu ætti hæstv. fjmrh. að hafa forgöngu um það efni. Og ég er alveg sannfærður um það, að allir þingfl. munu vera fúsir að axla þá byrði að taka á sig þann vanda, ef frumkvæðið kæmi frá núv. ríkisstj., því að það er hreinn misskilningur að láta þetta fljóta svona, og síðan endar þetta í ósköpum.

Ég sagði fyrir 2 árum, að mér sýndist, að örlög þessarar ríkisstj. yrðu þau, að verðbólgan mundi gleypa hana. Þetta er að sannast. Hún er komin upp að hálsi í ófreskjuna. Og það má vel vera, að hún geti þraukað nokkurn tíma enn, en allt fer þetta á eina leið. Ég held, að ástandið, eins og það er núna, hljóti að kalla á samvinnu flokkanna, því að ef svo fer fram sem horfir, þá blasir við að mínu viti gengisfelling á næsta leiti, með kjararýrnun fyrir launþega, auknu eignamisrétti o. s. frv. Allt þetta er gömul saga, en það er eins og það sé engin önnur leið til.

Hæstv. fjmrh. hefur svarað gagnrýni um óðaverðbólgu og mikil ríkisútgjöld á þá lund, að spyrja þm.: „Viljið þið ekki byggja hafnir, viljið þið ekki byggja sjúkrahús, viljið þið ekki lækna sjúka o. s. frv. Þetta er ákaflega ódýr aðferð, og það er ekki um þessa hluti að ræða. Það er fyrst og fremst um það að ræða, að fara svo bratt í uppbyggingu, eins og efnahagsaðstæður leyfa. Það er kjarni málsins. Og þegar ég hef látið þau orð falla, t. d. í sambandi við skuttogarakaupin, að það hefði átt að fara með miklu meiri skynsemi í þau mál, þá þýðir ekki að koma og segja: Bjarni Guðnason er á móti því að kaupa skuttogara, hann er á móti því að byggja upp atvinnulífið, hann er á móti byggðastefnu. — Þetta eru óheiðarlegar röksemdir, enda er það ekki kjarni málsins. Það, sem er kannske það eðlilega í sambandi við skuttogarakaupin, er, að það hefði átt að kaupa svona 10 togara á ári, byggja flotann hægt upp, en það hefur verið rokið í þetta og að mér skilst fram hjá sjálfri Framkvæmdastofnun ríkisins, sem átti beinlínis að gera áætlanir um uppbyggingu atvinnulífsins.

Ekki skal ég fara nánar út í þessa sálma, en þar sem ég tel, að vandi efnahagsmálanna sé orðinn slíkur, að það þurfi að fara hér að spyrna við fæti, og við hljótum að fara í gegnum svipaða stjórnmálaþróun og er í nágrannalöndum, þá er enginn vafi á því, að ég er helst þeirrar skoðunar, úr því að núv. ríkisstj. lokar skilningarvitum sínum og vill ekki horfa á vandann, að þá væri e. t. v. eðlilegast að láta þjóðina segja til um þessa hluti. Ég hygg, að það væri skynsamlegt að efna sem fyrst til almennra þingkosninga, þá gætu þeir flokkar, sem við tækju, byrjað á nýjan leik og gert þær ráðstafanir sem þurfa, gert úttekt á öllu apparatinu á fjárl. og ríkiskerfinu, og byrjað þannig á nýjan leik, og þetta held ég, að sé hið eina skynsamlega í raun og veru. Ef svo reynist, að stefna ríkisstj. í verðbólgumálum á sér fylgi meðal þjóðarinnar, þá geri ég ráð fyrir því, að ríkisstj. muni koma tvíefld aftur inn í þingsalina og geti þá áfram haldið sinni stefnu. Ef þjóðin er annarrar skoðunar, þá verður öðrum mönnum falin stjórnarstefnan. Og úr því að við erum nú lýðræðisríki, búum við þingræði, þá held ég, að það sé tími til kominn að spyrja þjóðina ráða og reyna þannig á nýjan leik að glíma við þessi stóru vandamál.