13.12.1973
Efri deild: 34. fundur, 94. löggjafarþing.
Sjá dálk 1327 í B-deild Alþingistíðinda. (1147)

71. mál, lögheimili

Frsm. (Björn Fr. Björnsson):

Herra forseti. Aðalatriði þessa frv., sem hér er til umr., er ákvæðið í 2, gr. þess, sem er þess efnis, að þeir, sem áttu lögheimili í Vestmannaeyjum að kvöldi 22. jan. 1972, skuli eiga rétt á að telja sig heimilisfasta þar til 1. júní 1974 án tillits til þeirra ákvæða, sem gilda um lögheimili og heimilisfesti að öðru leyti.

Eins og er og allir vita, ríkir hin mesta óvissa um framtíðarheimilisfang íbúanna í Eyjum. Þess vegna hefur þótt nauðsynlegt að lögfesta ákvæði, sem fái Vestmanneyingum, þ. e. a. s. þeim, sem dveljast á meginlandinu, sjálfdæmi um það, um ákveðið tímabil þó, hvort þeir vilji halda lögheimili í Vestmannaeyjum eða flytjast þaðan, og um þetta mun enginn ágreiningur vera með þeim, sem hlut eiga að þessu máli. Þetta ákvæði hefur ótvíræða þýðingu, fyrst og fremst um álagningu útsvara í Vestmannaeyjum á næsta ári, og það má okkur öllum vera ljóst, að það er mikil nauðsyn á öflun tekna til þeirrar uppbyggingar, sem þarf að eiga sér stað í Vestmannaeyjum. Þá fara einnig fram kosningar til bæjarstjórna á næsta ári eða síðasta sunnudag í maí, ef að vanda lætur. Þeir Vestmanneyingar, sem í landi eru enn eða kunna að vera þá, hljóta eðlilega að vilja hafa áhrif á stjórn Eyjanna, hvernig háttað verði um það uppbyggingarstarf, sem fyrir höndum er, en til þess þurfa þeir og eiga að hafa þar kosningarrétt og einnig kjörgengi.

Bæjarstjórn Vestmannaeyja hefur sent félmn. umsögn um frv., og þar segir, að hún sé sammála um efni þess, en vilji jafnframt benda á, að eðlilegra væri að miða tímamörkin við 1. okt. 1974 eða jafnvel 1. des. 1974, fremur en 1. júní það ár. Og rök bæjarstjórnarinnar fyrir þessari ábendingu eru þau, að mjög margir Vestmanneyingar ætli sér að flytja til Vestmannaeyja á ýmsum tímum næsta sumar. N. féllst að nokkru á þessa ábendingu, og af því tilefni flytur hún brtt. á þskj. 226. Brtt. er á þá leið, að í stað tímamarksins 1. júní 1974 komi 1. október 1974.

Frá öðrum ákvæðum frv. skal ég greina í stuttu máli. Ákvæði 1. gr. þess er tilkomið vegna till. frá Hagstofu Íslands. Í umsögn Hagstofunnar segir, með leyfi hæstv. forseta:

„Talsverð brögð munu vera að því, að menn reyni að misnota ákvæði í 3. gr. lögheimilislaga um tvö eða fleiri heimili manna, og þetta ákvæði á að stefna og stefnir að því að binda að mestu leyti eða öllu leyti enda á þessa vansmið eða misnotkun.“

Í 2. mgr. 2. gr. frv. er ákvæði, sem einnig er fram komið fyrir ósk Hagstofu Íslands. Er um að ræða nauðsynlega ráðstöfun til að skapa öryggi og festu í framkvæmd á aðalákvæðinu, sem ég drap á fyrst í máli mínu. Fyrirhugað er að gera sérstakt eyðublað eða eyðublöð til yfirlýsinga af hálfu Vestmanneyinga um, að þeir séu samþykkir kröfu sveitarfélags þess, sem þeir hafa dvalist í um skeið, — kröfu sveitarfélags til þjóðskrár um, að þeir verði fluttir á íbúaskrá þess sveitarfélags, sem kröfuna gerir, miðað við 1. des. 1973. Krafa sveitarstjórnar um slíkan flutning á heimilisfangi yrði þannig ekki tekin til greina af þjóðskrármönnum, nema henni fylgi ótvíræð staðfesting hlutaðeigandi einstaklings á þar til gerðu eyðublaði. En ákvæðið í þessum hluta 2. gr. segir fyrir um framkvæmdina einmitt með þessum hætti.

Hagstofa Íslands hefur sent umsögn sína um þetta frv. í heild og mælir eindregið, eins og þar segir, með samþykkt þess og leggur höfuðáherslu á, að frv. geti orðið samþ. endanlega frá Alþ. fyrir jól.

Félmn. þessarar hv. d. leggur einróma til, að frv. verði samþ. með þeirri breytingu, sem ég gat um og er að finna á þskj. 226.