13.12.1973
Efri deild: 34. fundur, 94. löggjafarþing.
Sjá dálk 1346 í B-deild Alþingistíðinda. (1156)

101. mál, þörungavinnsla við Breiðafjörð

Þorv. Garðar Kristjánsson:

Herra forseti. Við 1. umr. þessa máls flutti hæstv. iðnmrh. ítarlega ræðu fyrir þessu frv. Nú hefur frv. verið í n., og hv. frsm. 1. þm.Vestf. hefur haldið enn ítarlegri ræðu um þetta mál. Hann hefur flutt yfirlitserindi um málið, og það er þriðja eða fjórða yfirlitsræðan, sem hann heldur um þetta mál á þessu ári. Það er ákaflega ánægjulegt að hlýða á hv. 1. þm. Vestf. Ég geri ráð fyrir því, að hv. þdm. njóti þessara ræðuhalda, og það er nokkur söknuðu í mínum huga að sjá fram á það, að nú fær maður ekki áfram þessar ræður með vissu millibili, ef þessu máli verður nú hrundið í framkvæmd.

En það er hins vegar höfuðánægjuefnið, að nú er svo komið í þessu máli, sem varðar þörungavinnslu að Reykhólum, að þess er að vænta, að við sjáum fyrir endann á undirbúningi og setningu löggjafar um þetta fyrirtæki, þannig að vonir manna í þessu efni rætist. Og um leið og ég þakka hv. 1. þm. Vestf. fyrir hans ítarlegu ræðu, vil ég leyfa mér að þakka hæstv. iðnrh. fyrir að hafa haldið svo á þessu máli, að til raunverulegra framkvæmda virðist nú vera að koma.

Þetta mál á sér langa sögu, og það er sjaldnast byrjað á upphafi hennar, þegar um þetta mál er rætt. Það er allt frá því 1950, sem menn hafa verið á vissan hátt að undirbúa þetta mál. Þar á einn maður sérstakar þakkir skilið, en það er Sigurður V. Hallsson verkfræðingur, sem tók upp starf, athugun og rannsóknarstarf, til undirbúnings þessu máli þegar um 1950 og hefur haldið því áfram lengst af, þó að aðrir aðilar hafi komið við sögu, sérstaklega á hinum síðari stigum málsins, svo sem Rannsóknaráð ríkisins.

En ég ætla ekki hér að fara að rekja þessa sögu, það er óþarft. Í umr. um frv. að stofnun undirbúningsfélags fyrir þetta fyrirtæki fyrr á þessu ári kom ég nokkuð inn á þetta og ætla ekki að fara að endurtaka það, sem þá var sagt. En ég tel, að það sé mikið fagnaðarefni að þetta frv, er fram komið. Hér er um stórt mál að ræða á mælikvarða þeirra byggðarlaga, sem hlut eiga að máli. Og hér er gert raunhæft átak til þess að sýna vilja í verki til að efla byggðajafnvægi í landinu. Það eru allir að sjálfsögðu sammála um þetta, sammála um mikilvægi málsins, bæði þjóðhagslega og fyrir byggðarlögin í A-Barðastrandarsýslu.

En með því að þetta er svo þýðingarmikið fyrir byggðarlögin í Austur-Barðastrandarsýslu, er það mjög mikilvægt, að framkvæmd þessa máls raski ekki öðrum atvinnuvegum á þessum slóðum, eins og gæti verið hætta á, ef ekki væri gætt allrar varúðar. Þess vegna er hin vistfræðilega athugun svo mikils virði, eins og fram hefur komið, bæði hjá hæstv. ráðh. og hv. frsm. n. Það var ítarlega rætt um þetta atriði á fundum hv. iðnn., og m. a. var árangur þess sá, að í till. n. er gert ráð fyrir viðbót við 7. gr. frv. til þess að tryggja betur þetta atriði. Þar sem hv. frsm. n. hefur vikið að þessu máli, sé ég ekki ástæðu til að fara að lýsa því hér ítarlega. En ég vil leyfa mér að leggja áherslu á þetta með tilliti til þess, að það hafa komið fram vissar efasemdir í héraði í þessu efni. Og í því sambandi vil ég leyfa mér að lesa upp úr áliti hreppsnefndar Flateyjarhrepps, sem sent hefur verið iðnn., en þar segir, með leyfi hæstv. forseta:

„Við mótmælum því, að hugsanleg umhverfisáhrif hafi verið könnuð. Rétt er, að könnun er hafin, en niðurstöður geta ekki verið fengnar, sem hægt er að byggja á.“

Þetta er álit þessara manna, sem gleggst þekkja til staðhátta. Ég vil leyfa mér að vona, að þrátt fyrir þessar efasemdir, að haldið verði áfram athugun á þessu sviði, þannig að það þurfi ekki að óttast, að alvarleg mistök verði gerð í þessu efni. Sú brtt., sem n. gerir við 7. gr., eins og ég áðan vék að, miðar einmitt að því að tryggja þetta enn betur en frv. sjálft gerir ráð fyrir.

Það er í þessu efni eins og öðrum efnum affarasælast að hafa sem best og nánast samráð við heimamenn, og ég vil leyfa mér að vona það og treysta, að við framkvæmd þessa máls verði þess gætt.

Ég sé ekki ástæðu til þess að fjölyrða um brtt. iðnn. Hv. frsm. hefur gert það, og n. stendur öll að þeim brtt. En á þskj. 228 hef ég leyft mér að bera fram sérstaka brtt., og það er till. um það, að 2. gr. frv. orðist svo, með leyfi hæstv. forseta:

Til samvinnu um stofnun eða starfrækslu hlutafélags skv. 1. gr. skal ríkisstj. heimilt að kveðja hvers konar aðila, sem áhuga hafa á málinu, innlenda og erlenda. Þó skal ekki minna en 51% af hlutafé félagsins jafnan vera samtals í eign ríkisins og sveitarfélaganna í A.-Barð. Sveitarfélögunum í A.-Barð. skal standa til boða að kaupa hluta af hlutafjáreign ríkisins með þeim skilmálum, sem ríkisstj. setur. Iðnrh. fer með mál, er snerta eignaraðild ríkisins í hlutafélaginu.“

Hv. frsm. n. vék nokkrum orðum að þessari till. minni, og kvaðst ekki mundu greiða atkv. með henni. En aðalefni till. er það, að í staðinn fyrir að það verði ákveðið, að ríkið eitt eigi minnst 51% af hlutafé félagsins, þá skuli það vera ríkið og sveitarfélögin í A.- Barð., sem sameiginlega eigi minnst 51% af hlutafé félagsins.

Ég tel, að það sé eðlilegt að gera þessa breytingu. Mér þykir það algerlega óeðlilegt, að því skuli vera slegið föstu, að ríkið þurfi að eiga minnst 51% af hlutafé í félaginu. Ef menn hafa í huga, að það sé nauðsynlegt til framgangs þessa máls, að opinberir aðilar eigi meiri hl., og það má auðvitað færa rök fyrir því, þá sýnist mér, að það komi í sama stað niður, hvort þeir opinberu aðilar eru að einhverjum hluta, meiri eða minni, íbúar héraðanna sjálfir eða sveitarfélögin. Ég segi, að það komi í sama stað niður. Raunar er skoðun mín sú, að það væri eðlilegra, að sveitarfélögin ættu sem stærstan hluta af geira hins opinhera af hlutafjáreigninni. Fyrir þessari skoðun má að sjálfsögðu færa mörg rök, en ég skal ekki þreyta hv. þm. með því að vera langorður í þeim efnum. Það er augljóst, hvað ég á við með þessari tillögugerð. Ég tel, að það sé eðlilegt að dreifa valdinu í þessu efni og það sé þeim mun betur farið með valdið, þar sem menn, sem með það fara, hafa meiri staðarþekkingu. Það er nú á síðustu tímum talað mikið um dreifingu valdsins. Það er að sjálfsögðu stefnuskráratriði okkar sjálfstæðismanna. En ég hygg, að það séu ekki margir, sem í orði kveðnu tjá sig ekki fylgjandi þeirri hugsun út af fyrir sig, að það sé eðlilegt að dreifa valdinu. En menn segja, að það sé ekki hægt af ýmsum ástæðum, sem þeir finna til í hvert og eitt skipti. Og það er einmitt þetta, sem hefur skeð í málflutningi hv. frsm. iðan. Hann segist ekki vilja greiða þessari till. minni atkv., en hann mælti ekki sterklega á móti henni. Af orðum hans mátti raunar með velviljaðri skýringu marka það, að í raun og veru væri hann ekkert á móti þessu. En hann sagði, að þetta mætti athuga, ef aðstæður breyttust, og þá yrði að setja skilyrði fyrir þeirri eignayfirfærslu, sem af þessu leiddi. Þetta er alveg rétt, og þetta er raunar alveg það sama og ég á við með minni till. Ég er ekki að leggja til, að þetta gerist núna á næstunni. Ég er aðeins að leggja til, að frá löggjöf þeirri, sem Alþingi setur um þörungavinnsluna á Reykhólum eða við Breiðafjörð, sé þannig gengið, að það sé hægt að koma þessari breytingu á, ef aðstæður eru fyrir hendi einhvern tíma síðar. Og ég er að vona, að hv. frsm. iðnn., sem fer hér á Alþingi með umboð m. a. þess fólks, sem hér á í hlut í þessum byggðarlögum, ætli ekki að gerast harður andmælandi þess, að það fái þannig beina aðild, ef möguleikar eru á, að þessu fyrirtæki. Og raunar vil ég ekki trúa því, fyrr en ég reyni. Ég vænti þess, að hv. þm. hugsi nú ráð sitt eilítið betur, í von um það, að hann sjái sér fært að greiða atkv. með brtt. minni, þar sem mér virðist, eins og ég sagði áðan, að hann sé efnislega ekki andvígur henni, en telji hana bara ekki tímabæra. En eins og ég hef áður vikið að, tel ég, að það sé misskilningur hjá þessum hv. þm.

Í upphafi þessara orða, sem ég hér mæli, vék ég að þýðingu þessa fyrirtækis fyrir byggðarlögin sjálf. Það er að sjálfsögðu á margvíslegan hátt, sem þessi framkvæmd hefur þýðingu. Hún hefur þýðingu m. a. — og við skulum ekki gera lítið úr því — til að draga úr vissri vantrú, sem verið hefur á undanförnum árum og í lengri tíma á þessum slóðum á því, að hægt væri að sporna við þeirri alvarlegu þróun, sem þessi byggðarlög hafa orðið að þola vegna fólksflutninga. Mér finnst, að við ættum nú, þegar svo myndarleg tilraun er gerð til þess að snúa þróuninni við á þessum slóðum, að gera það djarflega og af fullri einurð og í vitund þess, að það getur komið að því, að þessi byggðarlög eflist, m. a. vegna þessa framtaks, svo að það sé raunhæft að gera ráð fyrir því, að sveitarfélögin sjálf vilji gerast verulegir þátttakendur í þeim atvinnurekstri, sem hér er verið að koma á fót.

Ég tel því, að þessi till. mín sé í fullu samræmi við efni og anda þess frv., sem hér liggur fyrir, og geri mér von um, að hv. þm. sjái þið líka.