13.12.1973
Neðri deild: 40. fundur, 94. löggjafarþing.
Sjá dálk 1361 í B-deild Alþingistíðinda. (1180)

93. mál, sjálfskuldarábyrgð á lánum til kaupa á fiskiskipum

Björn Pálsson:

Herra forseti. Ég gerði ráð fyrir því, að það yrði framsaga um svo þýðingarmikið mál, það yrði skýrt fyrir okkur efni málsins. Það er bætt við þessa till. hér: „Ríkisstj. er heimilt, gegn tryggingum, sem hún metur gildar, að veita sjálfskuldarábyrgð fyrir allt að 80% af kaupverði ferjuskips til siglinga milli Akraness og Reykjavíkur.“ Þetta mál hefur ekkert verið rætt og ekkert skýrt. Ég hef fengið upplýsingar um þetta á skotspónum, aðallega frá vini okkar, Guðjóni, sem hefur með þennan skiparekstur að gera og á að hafa töluvert vit á þessu, og Guðjóni líst ekkert á þetta.

Við höfum rætt í samgn. um þetta skip, sem gengur á milli Akraness og Reykjavíkur. Satt að segja er ég og hef verið frekar á móti styrk til rekstrar á því skipi. Ég sé ekki annað en þeir hafi betri aðstöðu til þess að fara hér á milli en flestir aðrir landsmenn. Svo er verið að borga 6–7 millj. kr. styrk árlega með þessu skipi. Það er m. ö. o. bara verið að borga vissan hluta af fargjaldi þeirra. Ég sé ekki annað en við í Húnavatnssýslunni verðum að fara fram á það að fá einhvern sérstakan hluta af því, sem við borgum fyrir sætin í bílunum, til þess að létta undir með okkur. Það er alveg sama sanngirni.

Nú er gert ráð fyrir að bæta veginn upp eftir. Það er þegar búið að steypa hann upp í Kollafjörð, það er verið að tala um að gera betri leið fyrir Hvalfjörð og jafnvel stytta þá leið eitthvað. Vitanlega er ekki nema á annan klukkutíma verið að renna frá Akranesi. Fyrir þá, sem koma að norðan á bílum og vestan, þá þurfa þeir að fara krók ofan á Akranes, ef úr þessum ferjukaupum verður, basl við að koma bílum í skip og úr skipi, og ég held, að verði meiri tímatöf að því heldur en að renna alla leið.

Viðvíkjandi rekstrinum á þessu skipi, þá liggur engin áætlun fyrir af viti, eftir því sem Guðjón segir. Hann segir t, d., að olíueyðslan hafi verið ætluð svipuð og á Akraborg, þó að vélaorkan sé tvöföld. Þessi áætlun er öll út í loftið. Svo segir hann, að þurfi stórlega að breyta hafnarskilyrðum, bæði uppskipunaraðstöðu og framskipunar, til þess hægt sé að nota þetta skip. Það er allt annað með skip milli Vestmannaeyja og meginlandsins, þeir hafa enga möguleika aðra. Svo eru þeir að fá flugvöll á Akranes. Þeir geta ferðast í lofti, og þeir geta ferðast eftir veginum, og er þá nokkur ástæða til þess að fara að kaupa skip fyrir á annað hundrað millj, til þess að flytja bílana þeirra á milli?

Nú kæmi okkur þetta ekkert við, ef þeir ætluðu að borga þetta allt saman sjálfir. Það liggur bara alls ekki fyrir. Og fyrst þeir þurftu að fá styrk til þess að reka sína Akraborg, nokkrar millj. á ári, er þá nokkuð óeðlilegt, þótt þeir færu fram á töluvert hærri styrk til þess að reka þetta skip til þess að flytja bílana á milli?

Annars er farið að ganga of langt eyðslusemin hjá okkur Íslendingum. Við eyðum um það bil einum milljarði á ári í ferðalög til annarra landa, og svo þykjumst við ekki geta ferðast á milli Akraness og Reykjavíkur nema kaupa ferju, sem getur flutt fólkið og bílana, og hún kostar á annað hundrað millj. kr., að mér skilst, og hver ætli rekstrarkostnaðurinn verði. Þetta er bara að eyða peningum í vitleysu. Við megum gæta þess, þegar verið er að samþykkja hér fjárlög, sem eru hærri en nokkurn tíma hefur áður þekkst. Það er hægt að lækka framlag til verklegra framkvæmda, en það er ekki hægt að gera neinar verulegar breytingar nema með lagabreytingum. Á hverju einasta þingi erum við að samþykkja einhver lög, sem útheimta meiri greiðslur. Það var verið að taka dagheimili barna inn á fjárlög, samþ., lög um það í fyrra. að ég ætla. Nú er 70–80 millj. varið til þess. Þetta er afleiðing af þeirri lagasmíð. Það má deila um, hvort ríkið eigi að greiða þetta eða bæjarfélögin. Er ekki miklu eðlilegra, að hvert bæjarfélag sjái um sín dagheimili, því að það er ekki öll þjóðin, sem nýtur góðs af þessu. Þetta er sérmál bæjarfélaganna að miklu leyti. Það er ekki nóg að tala um, að fjárlög hækki, og deila á það. Við megum ekki samþykkja lög, sem valda því.

Eins og ég tók fram áðan, skiptir þetta okkur ekki máli, ef Akranes ætlaði að sjá um þetta. Við vitum, að með Akraborginni eru svo til eingöngu farþegaflutningar. Borgarnes notar t.d. alls ekki Akraborgina, það er allt flutt þaðan á bílum. Hví geta Akurnesingar ekki notað veginn alveg eins og Borgnesingar, miklu skemmri leið? Ég held, að þarna sé verið að gera fjármálalega glópsku. Það má vera, að það hafi verið gert á fleiri sviðum, það sé búið að kaupa of mörg fiskiskip o. s. frv. En hitt gefur auga leið, að fiskiskipin skapa þó verðmæti, og þó að þau séu e. t. v. rekin með halla, þá getur það verið til hagnaðar fyrir þjóðarheildina og viðkomandi bæjarfélag, að skipið sé rekið. En þetta skapar aðeins eyðslu, því að tímasparnaðurinn er ákaflega lítill. Ég vildi heldur fara með minn bíl eftir veginum en hætta á í misjöfnum veðrum að fara með hann út í skip. Það gæti verið, að hann skemmdist þar. Mér þætti vissara að aka honum sjálfur hér á milli. Annars er það náttúrlega mál Akurnesinga. Við verðum að bera ábyrgð á okkar gerðum, og þó að enginn annar greiði atkv. á móti þessu, þá ætla ég að gera það. Ég ætla ekki að samþykkja svona vitleysu.

Svo liggur ekkert fyrir um, hvort skipið er hentugt eða ekki. Hví eru Norðmenn að selja skipið? Guðjón forstjóri Ríkisskips er ákaflega krítískur út í þetta. Náttúrlega er hann ekki alvitur, það er fjarri því. En ég held að þarna sé ekki sérstök ráðdeild á ferðinni. Ég get ekki séð, hvað óskaplega Akurnesingum liggur á að ferðast til Reykjavíkur meira en öðrum mönnum. Geta ekki Keflvíkingar og Hafnfirðingar farið að finna upp á því að vilja ferðast hér á einhverri lystisnekkju á milli og láta borga hluta af kosnaðinum? Það eiga engir hægara með að fara hér á milli en Akurnesingar. Það lagaðist reksturinn á Akraborginni í fyrra. Ég fór upp í rn, tvisvar eða þrisvar og talaði bæði við starfsmenn rn, og Hannibal Valdimarsson um, hvað væri vitlaust að hafa fargjöldin svona lág og greiða jafnmikið með bátnum og gert var. Það varð til þess, að hann hækkaði fargjöldin um 50%, svo að hann bar sig nú betur. Annars hefði orðið að stórhækka framlögin til hans. Það hefðu orðið 10 millj. á ári, ef ekki hefðu verið hækkuð fargjöldin. Má vera, að það hefði átt að hækka þau enn meir. En það liggur ekkert fyrir um, að þetta skip muni bera sig.

Þessu er blandað saman við ábyrgð fyrir fiskiskip. Ég held, að ríkisstj. ákveði alla hluti og við séum að verða afgreiðslustofnun fyrir ríkisstj. Það má mikið vera, ef ekki er búið að kaupa þetta skip. Ég fullyrði ekkert um það, en mér hefur skilist, að það sé nokkurn veginn afgert. Það var hér stór ábyrgðarheimild á ferðinni um daginn. Nú er hér önnur. Það er komið og óskað eftir ábyrgð hjá okkur, þegar búið er að gera hlutina. Við erum bara að verða eins og afgreiðslustofnun, og við eigum að greiða atkv. með öllu, hvað vitlaust sem það er. Við skulum fara að athuga, hvað er verið að gera. Það má ekki minna vera en okkur sé tilkynnt í tíma, það sé ekki búið að afgera hlutina, þegar við eigum að samþykkja þá, þannig að ég ætla ekkert að vera að greiða atkv. með þessu og mitt álit er, að þetta sé tóm vitleysa og alveg ástæðulaust.

Það eru miklu meiri vandamál, sem kalla að á öðrum stöðum á landinu. Ég ætla ekki að bera neinn fyrir því með nöfnum, mér var sagt það í fyrra, að Akurnesingar væru aðallega að fara hingað til að horfa á íþróttir og færu þá í stórhópum á skipinu og hefðu það huggulegt. Ég sé ekki, að það sé nokkur meiri ástæða til þess að fara að borga fyrir Akurnesinga, ef þeir ætla að fara að horfa á einhverjar íþróttir, heldur en fyrir aðra landsmenn, það sé alveg ástæðulaust. Þeir geta ferðast á sinn kostnað, alveg eins og þeim sýnist. En að fara að borga með slíku, til þess sé ég enga ástæðu. Akraborgin er e. t. v. ekki sérstaklega hentugt farartæki. En það hafa verið smámunir að styðja við bakið á þeim rekstri í samanburði við það, sem verður með þetta skip.

Ég skal svo ekki fjölyrða um þetta meir, en við skulum gæta að því hér á Alþ. að vera ekki alltaf að samþykkja eitthvað, sem verður til þess að stórauka ríkisútgjöldin. Ætli það verði ekki heldur seint, sem þeir borga allan stofnkostnaðinn, Akurnesingar? Þeir eru þá eitthvað rausnarlegri en þeir voru með Akraborgina.

Það var hér mál fyrir tveimur eða þremar dögum, sem forsrh. flutti, það var um umboðsmann Alþingis. Það er nú þannig, að ef einhver heyrir einhverja vitleysu í nágrannalöndum okkar þá hleypur einhver þm. til og kemur með þáltill. um, að við eigum nú að fara að hafa það eins. Það hörmulega skeði, að það var nú vinur minn, Pétur Sigurðsson, sem með þáltill. fyrir einu eða tveimur árum um að búa til þennan umboðsmann. Þetta er ein vitleysan. Er því að Danir, Svíar og Norðmenn hafi einhvern umboðsmann, þá eigum við, 200 þús. hræður, líka að fara að hafa umboðsmann. Forsrh. var það vitur, því að hann er vitur, sem betur fer, að hann óskaði eftir því, að þessu væri ekkert hraðað, sem ég skildi þannig, að hann óskaði helst eftir því, að þetta yrði ekkert samþykkt. En af hlýðni við þessa vitleysisþál. hefur ríkisstj. samt komið með þetta. Ég vona, að það verði svæft, eins og mér skildist, að forsrh. óskaði eftir.

Við megum gæta þess að vera ekki alltaf að samþykkja einhverja vitleysu, koma svo, þegar afleiðingarnar eru komnar af þessum samþykktum okkar, og rífast út af því, að fjárl. séu of há, því að það er ekki hægt að skamma fjmrh, eða ríkisstj. fyrir það, þó að hún fari eftir þeim lögum, sem við erum búnir að samþykkja.

Ég hef ekki fengið miklar upplýsingar um þetta skip, en mér líst ekkert á þennan rekstur, og ég held, að það verði ekki til þess að lækka fjárl. að kaupa þessa ferju.