13.12.1973
Neðri deild: 40. fundur, 94. löggjafarþing.
Sjá dálk 1373 í B-deild Alþingistíðinda. (1189)

93. mál, sjálfskuldarábyrgð á lánum til kaupa á fiskiskipum

Björn Pálsson:

Herra forseti. Ég var óviðbúinn áðan að tala, hélt ekki, að þetta mál yrði tekið svona fljótt. Ég verð eiginlega að biðja d. afsökunar á, hvað ég talaði illa áðan, en ég vona, að þetta fari nú að lagast, því að maður liðkast alltaf. Ég bjóst við framsöguræðu, að málið yrði skýrt og upplýsingar kæmu fram um þennan álitlega rekstur, og þá var ákaflega auðvelt að ræða það. En það var ákaflega óþægileg aðstaða, sem ég hafði áðan af þessari ástæðu.

En nú eru þrír menn búnir að tala um þetta. Það hefur ekki komið fram nein rekstraráætlun af viti og yfirleitt lítið minnst á hagnýta hluti, þetta eru mælskir menn, en ekki mjög vanir miklum rekstri, nema þá þjóðarrekstri. Hv. 8. landsk. þm. er með okkar bestu ræðumönnum og ákaflega mjúkmáli og lipur ræðumaður, en ég veit ekki, hvort hann hefur sett sig inn í þetta mál frá hagnýtu sjónarmiði. Hann hefur rekið alþýðublað, en ég hygg, að hann hafi aldrei fengist neitt við að reka skip. Hann hefði átt að reka Alþýðublaðið áfram, svo að Sveinn Eyjólfsson væri ekki að erfiða við það nú. Hann fór ekkert inn á fjármál. heldur að þeir væru eitthvað fljótari að fara á milli. Ég vil nú ekki veðja um þetta, en ég vildi heldur renna á bíl mínum fyrir Hvalfjörðinn og til Reykjavíkur, ef ég ætti heima á Akranesi, heldur en vera að basla með hann niður að skipi og koma honum þar fyrir. Það þarf að koma mörgum bílum þar fyrir, og það tekur dálitla stund, það geta ekki allir verið fyrstir eða síðastir, og koma þeim svo aftur upp úr skipinu. Ég held, að ég treysti mér til að vera jafnfljótur á bíl mínum. Það er enginn að tala um, að þeir eigi ekki að hafa samgöngur eins og aðrir menn og jafnvel betri, Akurnesingar. Það er líka verið að leggja veg, það er kominn steyptur vegur áleiðis til þeirra og á eftir að batna mikið enn þá.

Það voru alveg nýjar upplýsingar, að þetta væri eyja eiginlega, Akranes. Ég hef aldrei heyrt það fyrr, að þetta væri eiginlega eyja. Ég hef oft farið þarna á milli, og ég hef aldrei séð, að þetta væri eyja. Það hefur alltaf verið þurrt land. Það væri allt öðru máli að gegna, ef þetta væri eyja, eins og Vestmannaeyjar eða Hrísey eða Grímsey. Það þarf flóabáta þar. En þetta er þá nýlega orðið, það er þá eitthvert stórflóð þarna. Ég hef ekki verið á ferðinni, þegar það flæði hefur verið, að það hafi ekki verið bílfært til Akranes. Það kemur víst fyrir, að það er blautt í Ölfusinu og á vissum bæjum í Flóanum, en ég hef aldrei heyrt, að Akranes væri eyja.

Þetta er alveg óskylt mál. Við verðum að veita þjónustu í eyjunum, og það leggur svo mikinn snjó, að lokast kannske mikinn hluta af vetrinum til Siglufjarðar. Ég veit ekki betur en Drangur haldi þar uppi mjólkurflutningum allan veturinn, og hann annast Grímsey og Hrísey. Og það er ekkert hægt að líkja þessu við Djúpbátinn, því að það er ekki vegur í kringum Djúpið, og þetta er eina samgönguleið bændanna til að koma mjólk frá sér og vörum að sér. En ég hef fylgst með vöruflutningunum hjá Akraborginni, það hafa litlir vöruflutningar verið. Akurnesingar eiga auðvitað að hafa sinar daglegu áætlunarferðir og ferðast svipað og ég og mínir líkar, en ekki hafa sérstakt skip til að sigla á milli. Það er alveg óþarfi að hafa þrjár leiðir fyrir farþegaflutninginn: skipið, veginn, flugvélina. Það er eins og að eiga þrjá bila á sama bænum. Við skiptum okkur ekkert af því, ef bóndinn getur keypt alla bílana og borgað þá. Ef það er farið að biðja um ríkisábyrgð til þess að hafa bæði fólksbíl og vörubíl og jeppa, ef snjór er, þá mundum við sjálfsagt fara að athuga, hvort maðurinn þyrfti svona marga bíla. Þetta er allt annað, þannig að við megum ekki blanda því saman.

Ég hef alltaf haldið því fram, að Akraborgin væri óþörf, síðan vegasambandið varð svona gott og hætt var að flytja annað með henni en fólk. Borgnesingar fluttu með henni áður fyrr. Nú þykir þeim hagkvæmara að nota sína bila og flytja vörur sínar þannig. Það voru ekki fluttar mjölvörur með Akraborginni, ekki sást það á reikningunum. En nú allt í einu finnur fjmrh., — hann er hagsýnn maður, eins og þið vitið, upp á því að flytja sement með skemmtiferðafólkinu. Ég hélt, að það væri ill meðferð á nautgripum að flytja þá innan um sementsryk og óþverra, en alveg ófær á bílum og mönnum, því að þetta eru ekki neinir slorkarlar, sem eru að ferðast hér á milli. Þeir eru í fínum fötum, og bílarnir þeirra eru allir prýðilega pússaðir, og fá svo sementsrykið. Það gæti rifnað poki í stroffunni og orðið rykugt á þilfarinu. (Gripið fram í.) Ég hef aldrei heyrt, að það ætti að fara saman, skemmtiferðaskip og sementsflutningar, því að það eru einhverjir alóþverralegustu flutningar, sem til eru. En þetta er alveg ný hugmynd og ný kenning, ef við álítum að það sé hæfilegt fyrir Akurnesinga að flytja þá á sementsskipum innan um allt það ryk og skít, sem þar er, í sparifötunum og með lúxusbílana, ef þetta á að vera aðalsementsflutningaskipið á milli, — það getur eðlilega breytt rekstrargrundvellinum. Ég hafði ekki heyrt þetta áður. Ef á að bjóða Akurnesingum upp á það að flytja þá með sementinu, þá er ekki mitt mál að skipta mér af því, þá má vera, að það sé vegur að láta skipið nokkurn veginn bera sig. En ég hélt nú bara, að þetta ætti ekki saman. Ég hefði enga löngun til að vera þarna innan um sements óþverrann, jafnvel þótt ég væri í vinnufötunum, því að það er hér um bil ómögulegt að ná sementi úr fötum. En þetta er alveg ný hugmynd, ég veit ekki, hver á hana.

Eins og ég sagði áðan, skrifaði Guðjón Teitsson okkur, og ég ætla leyfa mér, með leyfi forseta, að lesa hluta af því, bara þrjá liði, sem hann bendir á:

1. Á Akraborg eru nú aðeins 8 skipverjar, en virðist reiknað með sama eða einum manni meira á Tungenes. En ólíklegt er, að það yrði samþykkt, enda mun ekki hafa verið rætt við farmannasamtökin um þetta.

2. Reiknað er með líku vátryggingagjaldi fyrir Tungenes og Akraborg, en það fær ekki staðist, þar sem verðmætismunur er talinn 100 millj. kr. ,og dýrara skipið í tiltölulega meiri hættu vegna sinnar stærðar og gerðar.

3. Loks fær það ekki staðist að reikna sömu eða næstum sömu olíunotkun fyrir Tungenes og Akraborg, þar sem rúmlega helmingsmunur er á vélarafli.

M. ö. o.: hann hefur athugað þessa áætlun, hún er tóm vitleysa að hans áliti. Á þetta taldi ég mér skylt að benda.

Það er auðvelt að koma til fjmrh., hann er þm. kjördæmisins, biðja hann um ábyrgð fyrir þessu skipi. Ég veit ekki, hvort þeir hafa talað um sementsflutninginn í leiðinni. Það vilja allir þm. gera allt fyrir sína kjósendur, en þörf er að setja sig inn í reksturinn og inn í þörfina fyrir hann.

Akraborgin hefur aðeins verið fyrir farþega, og satt að segja tel ég það óþarfa að hafa sérstakt skip til að flytja fólk og bíla hér á milli, þegar það hefur vegina færa alla tíma ársins. Það væri allt annað, ef þeir væru lokaðir marga mánuði á ári, þá þyrftu þeir skip. En ég hefði álitið, að þyrfti annað skip til sementsflutninga, að það færi ekki saman, bílar hjá skemmtiferðamönnum, þegar þeir eru vel klæddir með hvítan flibba, og svo sementsrykið. En það má vera, að Akurnesingar sætti sig við það.

Hv. 8. landsk. talaði um bandorma. Þeir hafa aldrei þótt hreinlegir, bandormarnir. Þetta hafa þótt óþverradýr, og þegar menn eru með þessa bandorma í frumvörpum, eru þeir vanalega að læða einhverri vitleysu í gegn í þessum bandormum sínum, þannig að það eru engin meðmæli. Þessi bandormakenning er ekki meðmæli með þessu máli. Það er venjulega eitthvað óhreint við það. Þetta á ekkert skylt við fiskiskip. Fiskiskip aflar fyrir 60–70 millj. kr. á ári, en þetta skip eyðir fyrir svona 30–40 millj. á ári. Það er tvennt ólíkt.

Viðvíkjandi því, að ég væri með allra hörðustu íhaldsmönnum, hvað kalla menn íhaldsmenn? Ég hef alla mína ævi verið að hasla við að laga eitthvað í kringum mig og gera eitthvert gagn. Ég hef reynt að gera það af viti og tapa ekki á hlutunum. Ef það heitir að vera íhaldsmaður að vilja haga sér eins og viti borinn maður, að vera ekki að gana í neitt, sem er vitleysa, það er allt í lagi þá, að ég heiti íhaldsmaður. Ég hélt, að það væri kostur, jafnvel þótt maður teldi sig krata, þá væri það nú kostur að vera — eigi fjármálafífl.

Svo eru það þessir 60 þús. menn, mér skildist, að það ylti á 60 þús. atkv. Þeir fara nú sumir oftar en einu sinni. Og svo hefði ég álitið Akurnesinga það þroskaða í pólitík, að það réði ekki alveg úrslitum um sannfæringu þeirra í landsmálum, hvort þeir færu á milli á bíl eða skipi. Það er eins og blessaðir stúdentarnir, sem voru að skrifa okkur um daginn og höfðu bara 4 þús. atkv. á einni hendi, ef við gerðum ekki svo vel að samþykkja allt, sem þeir fundu upp á. Það voru bara 4000 atkv. til eða frá. Þarna eru það 60 þús., svo er nú það.

Ég tel það algera móðgun að ætla að fara að flytja Akurnesinga á sementsskipi hér á milli, því að ég mundi ekki flytja reiðhestinn minn þar, hvað þá heldur vilja fara sjálfur með slíku skipi.

Það var ekkert sérstakt hjá fjmrh., nema þetta með sementið, held ég. Hann var að tala um, hvers vegna hann hefði ekki mætt og þetta ætti ekkert að vera óhagstæðara en Akraborgin. Það liggur nú fyrir. Áætlunin er ekkert nema vitleysa, ef hún er nokkur til, það liggur bara ekkert fyrir, þannig að það er algerlega út í loftið hjá hæstv. fjmrh. að segja, að það muni ekki verða óhagstæðara, því að vitanlega veit maðurinn ekki nokkurn skapaðan hlut um það. En ég álit málið ákaflega óviðkunnanlega flutt að vera að hnýta þessu aftan í alveg óskylt mál. Það er allt annað að veiða fisk eða ferðast með bílinn sinn á milli Akraness og Reykjavíkur. Þarna er blandað saman óskyldum málum á allan hátt. Ég veit ekki einu sinni, hvort þeir hafa fengið mann, sem hefur vit á skipi, til þess að skoða það. Ég held, að þetta sé einhver bjánaskapur út í loftið. Það liggur ekkert fyrir um það, það hefur ekkert verið skýrt. Það er engin áætlun og engin lýsing. Það á að fara með okkur eins og þegar rollur eru reknar í hús. Við erum að verða afgreiðslustofnun, við eigum bara að rétta höndina upp.

Það er eins og ég sagði áðan, við megum vara okkur á því að vera ekki að samþykkja lög, sem verða til byrði fyrir ríkissjóðinn. Vitanlega er það margt fleira, ég ætla ekki að fara út í fjármál hér, en það er ótalmargt búið að samþykkja, sem er meira eða minna gallað eða vitlaust, og þess vegna hafa fjárl. hækkað svona. Þess vegna skulum við athuga, hvað við erum að gera. Það er skylda okkar. Og með þessari vitleysu ætla ég ekki að greiða atkv.