13.12.1973
Neðri deild: 40. fundur, 94. löggjafarþing.
Sjá dálk 1376 í B-deild Alþingistíðinda. (1190)

93. mál, sjálfskuldarábyrgð á lánum til kaupa á fiskiskipum

Hannibal Valdimarsson:

Herra forseti. Hér er verið að ræða um frv. til l. um, að ríkið taki á síg sjálfskuldarábyrgð vegna lána til nokkurra fiskiskipa og til ferjuskips. Sú gr. hljóðar þannig, með leyfi hæstv. forseta:

Ríkisstj. er heimilt, gegn þeim tryggingum, sem hún metur gildar, að veita sjálfskuldarábyrgð fyrir allt að 84% af kaupverði ferjuskips til siglinga milli Akraness og Reykjavíkur.“

Hér hefur komið fram gagnrýni á það að blanda þessu tvennu saman, þessum ábyrgðarheimildum vegna fiskiskipa og vegna ferjuskips milli Akraness og Reykjavíkur. Ég tek undir þá gagnrýni, hvort sem ég verð settur í hóp íhaldsmanna eða ekki, forstokkaðra íhaldsmanna, eins og sagt var hér áðan. Ég er þeirrar skoðunar, að hér sé verið að blanda þessu tvennu saman til þess að lauma máli að þinginu, sem ekki er búið að gera neina forsvaranlega grein fyrir. Það er ekki nema vika síðan ég frétti fyrst af því, að það mundi vera búið að festa kaup á skipi og veita eiginlega fullt loforð fyrir ríkisábyrgð til kaupa á því. Ég hafði ekki heyrt um það fyrr, og það hefur þannig verið farið leynt með þetta mál. meira leynt en réttlætanlegt er. Og það er það minnsta, að þm. geri kröfur til þess, að það sé komið beint framan að þeim í máli og gerð grein fyrir, hversu sjálfsagt það sé.

En það er meira, sem kemur hér í dagsljósið en það, að það er verið að blekkja í þessu máli og farið óhreint að, og það er það versta. Það er ekki nokkur vafi á því, að það er þörf, sem Akurnesingar hafa haft félagsskap um að halda uppi skipaferðum milli Reykjavíkur og Akraness, og þeir ætla að halda því áfram. Nú standa sakir þannig, að Akraborgin er klössunarþurfi, og það kostar mikið fé. Þá hugsa þeir til þess að kaupa sér nýtt skip. Þetta er allt saman rétt og eðlilegt. En það er á ýmislegt að líta í sambandi við það. Þessi félagsskapur ætlar að kaupa skipið og fer ekki fram á neina aðstoð Alþ. til kaupanna, svo að það má segja, að Alþ. komi það í sjálfu sér ekki við. En það væru mér mikil og góð tíðindi, gleðitíðindi, ef félagsskapurinn, sem ætlar að kaupa þetta nýja skip, sem maður er að frétta um, ef sá félagsskapur hefur ekki í huga að fá einhverja litlafingursaðstoð frá ríkisstj. til þess að reka skipið. Það hefur a. m. k. þurft til þess skips, sem hefur verið í rekstri, og það nokkrar millj. úr sameiginlegum sjóði landsmanna.

Ég verð að segja það, að þegar komið er fram með rök eins og þau, að Akranes sé nærri því eyja, þá sé ég nú ekki, að það sé meiri torfæra að komast fyrir Hvalfjörð heldur en hvern annan fjörð á Íslandi, sem aðrir landsmenn verða að gera styrkjalaust, — fá engar milljónafúlgur til þess að komast sjálfir fyrir einn fjörð, –og er þó greiðfærara að aka fyrir Hvalfjörð en flesta aðra firði á Íslandi.

Einhver lét undrun í ljós áðan yfir því, að það skyldi vera fyrrv. flóabátsframkvæmdastjóri, sem meira að segja mælti gegn þessu máli. Við skulum gera samanburð á þessu. Ég held, að flóabátsformaðurinn, framkvstj. fyrrv., hafi einmitt betri aðstöðu en við flestir þm. til þess að dæma um rekstur flóabáta. Og um flóabátana aðra er það að segja að þeir eru styrktir af ríkisfé, til þess að héraðsbúar í afskekktum héruðum komi afurðum sínum á markað. Er þessu til að dreifa hér? Að sáralitlu leyti er Akraborginni haldið í rekstri af þeirri ástæðu. Og þeir eru í öðru lagi reknir til þess að nálgast nauðsynjar frá viðskiptabæ fyrir heil héruð? Er Akraborgin rekin til þessa? Nei, hún er ekki rekin til vöruflutninga fyrir Akranes. Vöruflutningarnir á milli Reykjavíkur og Akraness fara að langmestu leyti, eins og allir vita, fram á landi. Það vörumagn, sem Akraneskaupstaður þarf, er flutt á bílum að langmestu leyti. Akraborginni er haldið í rekstri vegna farþegaflutninga á milli Reykjavíkur og Akraness, og þetta er fjölfarnasta flóabátaleið á landinu, langsamlega fjölfarnasta. Lengi voru það um 40 þús. farþegar, sem hún flutti, nú eru þeir komnir upp í 60 þús. Ef nokkur flóabátsleið ætti þess vegna að vera eitthvað í námunda við það að bera sig, þá er það þessi fjölfarnasta flóabátaleið, sem til er á landinu. En það fer fjarri því, að þetta skip hafi verið rekið hallalaust. Það hefur þurft á millj. að halda úr sameiginlegum sjóði landsmanna. Og það getur ekki verið til þess að jafna met kaupstaðar í námunda við Reykjavík á við aðra á landsbyggðinni, svo að það er ekki sambærilegt styrkjunum til flóabátanna í afskekktustu héruðum landsins.

Það er sagt: Það sparast tími við að fá nýtt skip, og það var gerð grein fyrir því áðan, hversu mikill sá sparnaður væri. Akrahorgin er nákvæmlega klukkustund á leiðinni milli Reykjavíkur og Akraness, ég hef það oft farið með henni. Hv. þm. Benedikt Gröndal upplýsti hér áðan, að þetta skip mundi verða þrjá stundarfjórðunga, það sparast kortér við nýja skipið, ef það er jafnhraðskreitt og það er sagt. Ekki er það nú mikið finnst mér. (Gripið fram í.) Það er ekki til neins að bera það saman við landleiðina, hún verður farin eftir sem áður, þó að það taki 1½ tíma. En ef bara er miðað við tímann, sem það tekur nú að ferðast með Akraborginni og svo þessu nýja skipi samkv. nýjustu og öruggustu upplýsingum, þá er það einn stundarfjórðungur, sem sparast.

Það má segja, að það sé ekki alveg komið að því, að ástæða sé til þess fyrir Alþ. að skoða, hversu skynsamleg kaup á þessu gamla skipi frá Noregi séu, af því að það séu ekki enn þá komin erindi um ríkisstyrk til rekstrar þess og ekkert erindi um fjárhagsaðstoð til kaupanna á því. En þó held ég, að það sé ekki úr vegi, að í upphafi skuli endinn skoða, því að ég geng út frá því alveg vísu, að það verði beðið um styrk til rekstrar þessa skips. Hér er um að ræða helmingi stærra skip en Akraborgin er. Þetta er fyrst og fremst farþegaskip, og að því leyti sýnist mér, að það ætti að henta í reksturinn. Það á að geta tekið 600 farþega. Eru líkur til þess, að það sé þörf á slíku skipi hér á milli? Ef við deilum þessum 60 þús. farþegum, sem nú er upplýst, að ferðist með Akrahorginni s. l. ár, niður á 3 ferðir á dag eða um 900 ferðir, þá getur þetta ekki verið meira en um 60 manns sem fara hér á milli með hverri ferð. En þegar ég hef ferðast með þessu skipi, hafa verið á því 6, 8–10 farþegar, 10 farþegar oft og tíðum. Við skulum segja, að það séu 60, sem fara hér á milli í hverri ferð, en það er þá aðeins 1/10 hluti af farþegamöguleikum skipsins, sem er notaður að meðaltali. Finnst mönnum þetta vera val á hóflega stóru skipi til þessarar farþegaþjónustu? Mér finnst það ekki. Stærð skipsins virðist vera óhófleg, og þar af leiðandi verður rekstrarkostnaður skipsins miklu meiri en ef um væri að ræða skip af hæfilegri stærð. Það hljóta allir að skilja.

Í öðru lagi er á það bent af þeim manni, sem þekkir mjög vel til skipaútgerðar, þ. e. Guðjóni Teitssyni forstjóra Skipaútgerðar ríkisins, hann bendir á stærð skipsins og telur hana vera óhóflega. Í öðru lagi segir hann, að þetta skip sé háyfirbyggt og henti þannig illa á þessari siglingaleið. Ef á nokkurri siglingaleið er að öllu jafnaði um hliðarvind að ræða, þá er það á þessari siglingaleið milli Reykjavikur og Akraness. Það er nálega alltaf sigling í hliðarvindi. Og háyfirbyggt skip hentar illa, það þori ég að fullyrða, til slíkrar ferðar. — Í því hefur Guðjón Teitsson alveg rétt fyrir sér.

Um traustleika skipsins veit ég hins vegar ekki. Mér er þó sagt, að það sé byggt sem innfjarðaskip í Noregi, og mér þykir þess vegna ólíklegt, að það henti við þær aðstæður, sem hér eru, við þann óróleik sem enn þá a. m. k. er í Akraneshöfn, sem hefur reynt mjög á styrkleika Akraborgar. Það er varla sjón að sjá hana vegna þess, hvernig hún er útleikin af hreyfingunni, sem er á skipinu í Akraneshöfn. Þetta skip má því vera og hlýtur að vera traustlega byggt, ef það á að koma að gagni og ekki verða ónýtt eftir örfá ár. Ég veit ekki, hvort það er svo traustbyggt. Það væri full ástæða til þess, að þeir, sem biðja um ríkisábyrgð, geri grein fyrir því, hvernig þetta skip er.

Þá segir Guðjón Teitsson, að í þriðja lagi sé skipið ekki með hliðarskrúfu og það sé mikill ókostur, þar sem skipið verður þrisvar sinnum á degi hverjum í hvorri höfn að leggja að bryggju. En er þá ekki hægt að bæta úr því? Það er mjög torvelt, segir hann. Hjálparvél og orka skipsins eru mjög takmörkuð, svo að hliðarskrúfu yrði varla hætt á skipið nema með auknum rafvélabúnaði jafnhliða eða þá öðrum alldýrum búnaði. Sök sér hefði verið, ef hefði verið auðvelt að bæta úr þessu, en forstjóri Skipaútgerðar ríkisins telur þetta mjög kostnaðarsama aðgerð, en nauðsynlega. Þarna sýnist mér vera bent á, að á skipinu séu miklir annmarkar, og í annan stað, að ef úr þeim þurfi að bæta, þá kosti það mikið fé.

Það var sagt hér áðan, að það kostaði mikið fé að klassa Akraborgina, og það má vel vera. En þarna kemur þá bending um, að það þurfi líka vegna breytinga á þessu skipi að verja allmiklum fjárfúlgum til þess, svo að það er þá að fara úr öskunni í eldinn. — Þetta hefur forstjóri Skipaútgerðarinnar að segja okkur til aðvörunar varðandi kaup á hinu nýja skipi.

En svo þegar kemur að rekstrinum, þá segi ég, að það slær mig illa, að það skuli vera bornar fyrir samvn. samgm. mjög augljósar blekkingar í sambandi við þetta, því að það fer ekkert á milli mála, að samanburðurinn og áætlunin, sem gerð er, er gert til þess að kasta ryki í augu nm., en ekki til þess að upplýsa þá um staðreyndir. Það er þannig alveg sami flöturinn, sem veit að okkur alþm. um það eins og um formið á málinu, hvernig það er lagt fyrir Alþ. Það virðist ekki vera hreinlega að farið. Það er upplýst, að núna séu 8 skipverjar á Akraborg. Það er búið að fækka þeim, frá því er ég vissi seinast, þegar ég spurði skipstjórnarmenn, þá voru þeir 11. Það má vera að fengist hafi samþykki sjómannasamtakanna til þess að fækka þarna skipverjum, og ég rengi ekki þessa tölu þess vegna. En að helmingi stærra skip fengi leyfi sjómannasamtaka og farmannasamtaka til þess að vera með 8 manna skipshöfn, það þarf ekki að segja mér, svo að þar er farið með blekkingu. Ég tel það alveg útilokað. En það er ekki búið með blekkingarnar þrátt fyrir þetta. Skipið Tungenes er a. m. k. 100 millj. kr. dýrara skip en Akraborgin, og þá er spurning um það, hvað kasti að tryggja það. Þarf að segja það nokkrum manni, að tryggingarkostnaður á því skipi verði ekki hærri en á Akraborginni? Nei, ég held, að það verði ekki tekin sem góð og gild vara af neinum. Í áætluninni er líka gengið út frá þessu svona. — Og þá er það olíunotkunin. Vélaraflið er 2x1040 í nýja skipinu, en 2x500 í Akraborginni. Þar munar ekki miklu, að um tvöfalt vélarafl sé að ræða. Hjá okkur í samvn. samgm. voru menn, sem vissu nákvæmlega, hvað væri reiknað olíuverð á hestöfl í skipi, það væri ákveðin formúla, og þá er ekkert um það að villast, að þarna mætti reikna með allt að því helmingi meiri olíunotkun heldur en hjá Akraborginni. En þarna er verið að slá upp áætlun um það, að það verði sama olíunotkun hjá báðum skipunum. Það er eins og þessi áætlun hafi bara verið send til einhverra krakka og ætlast til þess, að þeir tryðu öllu saman. En þarna er farið með blekkingar, því miður, og það gerir málið tortryggilegt. Það er sama, hvort litið er á skipakaupin sjálf, það virðist svo sem margt bendi til þess að skipið sé óhentugt til þessa hlutverks, óþarflega stórt og óþarflega dýrt, og einnig að því er snertir rekstrarkostnaðinn, þá verði það sama upp á teningnum, að hann hlýtur að verða miklu, miklu meiri en hjá því skipi, sem nú annast þessar ferðir.

Af hverju er þá verið að senda samvn. samgm. svona bandvitlausa rekstraráætlun? Auðvitað til þess, að n. rísi ekki gegn málinu með tilliti til hugsanlegra styrkveitinga til rekstrar þessa skips. Þannig er alveg augljóst, að þetta er gert í blekkingarskyni.

Ég hef ekki fleiri orð um þetta, en það er fullréttmæt krafa af hendi alþm., að þetta mál sé afgreitt sem sérstakt mál, fyrir því gerð full grein, af því að það vita allir, að það kemur til þess, að það verður beðið um flóabátastyrk til þessa skips, og Alþ. er það þannig ekki óviðkomandi, þó að ekki sé verið að biðja um styrk til kaupanna. Það á að skoða vandlega, hvort nokkurt vit er í kaupum þessa skips, og það á að gefa sannar upplýsingar um rekstrarkostnað þess, því að það mál kemur Alþ. við fyrr eða síðar.

Ég lýsi því yfir, að ég er andvígur þessu máli, þangað til fyllri upplýsingar og sannari liggja hér fyrir, sem hægt er að byggja á.