13.12.1973
Neðri deild: 40. fundur, 94. löggjafarþing.
Sjá dálk 1381 í B-deild Alþingistíðinda. (1192)

93. mál, sjálfskuldarábyrgð á lánum til kaupa á fiskiskipum

Benedikt Gröndal:

Herra forseti. Ég vil hefja mál mitt með því að benda á, að það hefur komið greinilega í ljós í þessum umr., a. m. k. um hv. 3. þm. Norðurl. v., formann samvn. samgm., að hann er ekki aðeins algerlega andvígur því skipi, sem talað er um að kaupa, heldur hefur hann verið og er andvígur gamla skipinu, Akraborg. Hann er algerlega á móti því, að það sé skip á siglingaleiðinni milli Akraness og Reykjavíkur, og hefur sagt greinilega, að hann telji slíkar siglingar óþarfar. Þetta er komið fram í dagsljósið, sem menn hefur lengi grunað, sem hafa fjallað um þessi mál. og er gott, að hv. þm. skuli, þegar á hann er gengið? viðurkenna þennan sannleika umbúðalaust. Ég verð að segja, þar sem þetta er sennilega næstæðsti maður í íslenskum samgöngumálum, formaður tveggja sameiginlegra þn., að mér finnst þetta nálgast það, svo að ég noti orðtak, sem hann beitti hér sjálfur í öðrum umr. nýlega, að lambið sé að sparka rollunni ofan í holuna, þegar formaður samgöngumála hefur slíkt steinaldarviðhorf til samgangna á fjölfarinni leið, þar sem skip hafa verið til siglinga um áratugi. Hv. formaður samgn. beggja virðist hafa þær hugmyndir um samgöngur á Íslandi seint á 20. öld, að það þurfi að vera jeppafært, svo að hann geti draslast um á gamla jeppanum sínum og í gallanum. Þá er hann ánægður. En ég vil benda á, að það má finna mýmörg dæmi um allt land í sambandi við vegi, brýr, flugvelli, hafnir og siglingar, sem sýna, að þjóðin lætur sér þetta ekki nægja, hún gerir aðrar og meiri kröfur til samgangna nú á dögum, enda þótt þessi hv. þm. eigi erfitt með að skilja þær eða sætta sig við þær. Ég vil einnig benda á, að það liggja fyrir í samgrn. og raunar í fleiri opinberum skrifstofum ítarlegar skýrslur sérfræðinga um það, hversu arðbærar ýmsar vegaframkvæmdir, brúaframkvæmdir og aðrar samgönguframkvæmdir eru, og þær skýrslur gefa svo sannarlega ekki tilefni til að tala um samgöngur eins og eyðslu.

Hv. 3. þm. Vestf. flutti hér líka mjög athyglisverða ræðu. Formaður samgm. hafði að vísu talað um, að engin skýrsla, engin áætlun hefði verið lögð fram, en hjá hv. 3. þm. Vestf. kom í ljós, að lagðar hafa verið fram slíkar skýrslur í samvn. samgm., og er auðheyrt, að þær hafa verið ræddar mjög ítarlega og n. hefur fjallað um þær í viðurvist og hlustað á álit forstjóra Skipaútgerðarinnar, svo að ekki hefur upplýsingarnar skort. En ég vil átelja það, að hv. 3. þm. Vestf. skuli hér í þd. bera fram raunverulegar ákærur á stjórn Skallagríms, sem væntanlega hefur sent þessa skýrslu til n., um það, að þessi stjórn hafi gert tilraunir til að blekkja samgn. og Alþ., það sé farið óhreint að og að skýrslurnar sem þessir menn hafi sent, séu bandvitlausar. Ég tel með öllu ósæmilegt að bera fram slíkar ákærur gegn fjarstöddum mönnum hér á þingi, og ég mótmæli þeim. Ég þekki þessa menn, og ég trúi ekki, að þeir hafi vísvitandi gert neinar tilraunir til þess að blekkja einn þm. eða alla. Ég trúi því ekki, að þeir ímyndi sér, jafnvel þótt þeir vildu reyna það, að þeir gætu blekkt alþm. í þessu efni.

Ég átti lengi sæti í samvn. samgm., og ég veit, að forstjóri Skipaútgerðarinnar er hinn mætasti og ágætasti maður. En hann hefur haft mismunandi skoðanir á mismunandi flóabátum umhverfis allt land og ekki alltaf þær sömu frá einu ári til annars. Ég mundi því vilja hlusta á einhverja fleiri og tel, að það væri rétt, að n. kallaði á þá, sem sent hafa skýrslurnar, og ræddi við þá og gæfi þeim kost á að skýra þær, áður en nm. koma fram opinberlega á Alþ. og ákæra stjórn Skallagríms um að reyna að blekkja Alþ., fara aftan að Alþ. og senda því bandvitlausar upplýsingar. Það er með öllu óhugsandi, að slíkt geti átt sér stað, enda þótt skoðanir þeirra eða mat á staðreyndum kunni að vera að einhverju leyti öðruvísi en skoðanir og mat forstjóra Skipaútgerðarinnar.

Í sambandi við kaupin á þessu skipi vil ég aðeins segja það, að eftir þeim upplýsingum, sem mér hafa verið gefnar, — ég hef haft kynni af þessu fyrirtæki og rekstri þess alla þá tíð, sem ég hef setið á Alþ., og raunar lengur, — þá vil ég geta þess, að ég veit ekki betur en fulltrúi frá Skipaeftirlitinu hafi farið til Noregs, skoðað þetta skip vandlega og látið í ljós álit sitt varðandi það, áður en nokkur ákvörðun var tekin um kaup á skipinu. Ég hef ekki þekkingu eða aðstöðu til að deila við hv. þm. um skipið sjálft, það er best að láta fagmenn fjalla um það, og legg ég því engan dóm á það. En ég er ekki viss um, að hv. fyrrv. samgrh. sé mjög miklu meiri sérfræðingur í þeim efnum heldur en ég, og ég hefði talið hyggilegra af honum að spara sér stóru orðin um stjórn Skallagríms og skýrslurnar, sem sú stjórn hefur sent, eða innihald þeirra.

Um einstök atriði þarf ég ekki að fara mörgum orðum frekar. Það er að sjálfsögðu gömul saga, hvað sementsflutningum fylgir mikið ryk, og er það mjög leitt, ef formaður samvn. samgm. Alþ. er búinn að einsetja sér að stíga aldrei um borð í þetta skip og hleypa ekki einu sinni reiðhestum sinum um borð í það. En ég hygg, að bæði honum og öðrum væri fullkomlega óhætt hvað snertir hreinlæti og heilsu að fara með nýju sementsflutningaskipi, eins og þar er um búið. Ég geri ráð fyrir því, að sú athugun, sem nú fer fram á möguleikum á sementsflutningum, byggist á því, að hægt sé að dæla sementi í geyma í skipinu, án þess að það verði til að valda farþegum nokkrum óþægindum.

60. þús. manns hafa ferðast með þessu skipi, og það eru atkv. um það, hvort skips er þörf eða ekki, — að sjálfsögðu ekki pólitísk atkv., þó að ég notaði það orð, — en það eru vissulega röksemdir fyrir því, að þörf er fyrir þetta skip, röksemdir gegn því steinaldarsjónarmiði hv. 3. þm. Norðl. v., að við Íslendingar eigum að láta okkur nægja jeppafærar slóðir um landið, þá getum við verið ánægðir.

Nútímasamgöngur eru alls staðar mikið vandamál, og þær eru sú blóðrás efnahagskerfa, sem tryggir þeim vöxt og líf. Það er alveg rétt, að farþegaflutningar hafa verið aðalverkefni Akraborgar, og má búast við því, að farþegaflutningar verði aðalverkefni hins nýja skips. Hins vegar er það algerlega óreynt, hve bílaflutningar verða miklir og þar á meðal flutningar á vöruflutningabilum, því að þeir menn, sem reka vöruflutningabíla, geta að sjálfsögðu reiknað út, hvort þeim er hagkvæmt að ferðast með þessu skipi eða ekki, þeim sem koma frá Akranesi og öðrum stöðum vestan- og norðanlands, svo að það liggur alls ekki fyrir og er þvert á móti veruleg ástæða til þess að ætla, að það geti orðið um töluverða slíka flutninga að ræða.

Það er ekki nema hálfur sannleikur að segja, að flóabátastyrkirnir séu eingöngu til þess að tryggja mönnum, sem búa við erfiðastar samgöngur, að koma afurðum frá sér og aðföng á varningi, sem þeir þarfnast. Flóabátastyrkirnir hafa verið notaðir til hinna ólíkustu verkefna. Þeir hafa verið notaðir til þess að tryggja Vestmanneyingum svipað mjólkurverð og aðrir hafa. Þeir hafa verið notaðir til þess að greiða niður flutninga með bílum landleiðina austur í Skaftafellssýslu. Að sjálfsögðu er þetta nauðsynlegt. En farþegaflutningar á milli Reykjavíkur og Akraness eru líka nauðsynlegir, og það er ekki til þess að hafa í flimtingum eða vanmeta, þegar jafn miklir flutningar eru og jafnmikill hópur farþega getur sparað sér a. m. k. klukkustundar ferðalag. Við verðum að bera þetta skip, alveg eins og Akrahorgina, saman við landleiðina, en aðalatriði málsins er ekki að bera þetta nýja skip saman við Akraborgina, vegna þess að við eigum þess ekki kost mjög lengi enn að hafa Akraborgina í flutningum.

Ég vil svo að lokum lýsa undrun minni yfir því, að menn skuli hneykslast á því, að tvö mál, þar sem um er að ræða ríkisábyrgð vegna kaupa á skipum, skuli vera í sama frv. Ég veit ekki betur en það séu mýmörg dæmi þess, svo að segja á hverju einasta þingi, að óskyldari mál komi saman í eitt frv. en hér er um að ræða, og undrast, að langreyndir þm. skuli andmæla slíku. Vorum við ekki að afgreiða fjárlög í dag? Hvað er í fjárl.? Er það ekki allt milli himins og jarðar í íslensku þjóðlífi, sem hefur ekkert sameiginlegt annað en það, að greitt er fé til þess úr ríkissjóði? Ég held, að það sé minna, sem tengir saman greinarnar og undirliðina og undirundirliðina þar, heldur en það, sem tengir saman greinarnar í þessu frv. Þetta er furðulegur málflutningur, og við þurfum ekkert að undrast, þó að frv. hlaði skylduverkefnum á sig á leið þeirra í gegnum þingið, það er algengt. Ég hygg, að hv. þm. hafi sjálfir tekið þátt í því svo oft áður, að þeir ættu ekki að beita svo léttvægum rökum í þessu máli.

Herra forseti. Ég tel sjálfsagt að kanna þetta mál jafndjúpt og þm. vilja og ég tel sjálfsagt, að n. fái allar þær upplýsingar, sem þær telja sig þurfa. En ég tel illa viðeigandi og mótmæli því á nýjan leik, að það skuli vera bornar fram í d. ásakanir á hendur tilgreindum mönnum um vítaverða framkomu gagnvart Alþ. Ég vil því vænta þess, að samvn. samgm. skoði þessi mál betur og gefi háðum aðilum tækifæri til að skýra sitt mál og stjórn Skallagríms þurfi ekki að liggja undir slíkum ákærum sem hér hafa komið fram og teljist af þeim saklaus, þangað til sannað verður, að hún hafi komið fram gagnvart Alþ. á þann hátt, sem hér var á hana borið.