13.12.1973
Neðri deild: 40. fundur, 94. löggjafarþing.
Sjá dálk 1384 í B-deild Alþingistíðinda. (1193)

93. mál, sjálfskuldarábyrgð á lánum til kaupa á fiskiskipum

Hannibal Valdimarsson:

Herra forseti. Ekki vil ég una því, að það sé talið ósæmilegt af minni hendi að vitna í skjöl, sem n. eru send. Ég vitnaði hér í grg, þess manns, sem er ráðunautur ríkisstj. í þessum málum, flóabátamálunum, og ráðunautur Alþ. Hann segir, að rekstrarspá í tvennu lagi hafi verið lögð fram fyrir hið væntanlega skip, Tungenes, í ferðum í stað Akraborgar, en hann telur, að áberandi veilur virðist vera í þessari spá. Ég vænti þess, að hann geti staðið við það, að hann telji áberandi veilur vera í þessari .spá.

Veilurnar voru þessi þrjú atriði, sem ég nefndi:

1. Hann segir, að á Akraborginni séu nú aðeins 8 skipverjar. Virðist reiknað með sama fjölda eða einum manni meira á Tungenes. Síðan segir: „Ólíklegt er, að það yrði í reynd samþykkt, enda mun ekki hafa verið rætt við farmannasamtökin um þetta.“ Dettur hv. þm. í hug, að helmingi stærra skip fengi samþykki sjómannasamtakanna hér á landi til að vera með 8 manna áhöfn eða 9? Hann er jafndómbær á þetta og ég. Við vitum báðir, að slíkt er útilokað.

2. Það er reiknað með því, að vátryggingargjöld fyrir Tungenes og Akraborg séu sem næst þau sömu. Forstjóri Skipaútgerðarinnar vitnar til verðmunar skipanna og segir, að þetta sé fjarri öllum sanni. Dettur hv. 8. landsk. þm. í hug, að það sé hægt að fá helmingi dýrara skip vátryggt fyrir sömu upphæð og það skip, sem er helmingi ódýrara? Ég hygg, að hann komist að sömu niðurstöðu og ég, að slíkt sé útilokað.

3. Loks fær það ekki staðist að reikna sömu eða næstum sömu olíunotkun fyrir Tungenes og Akraborg, þar sem er rúmlega helmingsmunur á vélaorkunni. Ég skírskota enn til hv. 8. landsk. þm, og hans dómgreindar, hvort honum finnst frambærilegt að senda frá sér skjöl um það, að helmingi stærri vél þurfi ekki meira brennsluefni en helmingi minni vél. Svo er verið að saka þm. fyrir, að þeir fari með ásakanir, ákærur á hendur þeim mönnum, sem gefi þessar upplýsingar. Við erum að leggja dóm á það og erum frjálsir að því. Hér er verið að fara með blekkingar með tilliti til þess, að þetta skip verði keypt og síðan verði beðið um ríkisstyrk, svo sem eins og einn tug millj. á ári í rekstur. Það er þess vegna, sem okkur. kemur það við.

Það var áðan minnst á, að það stæði fyrir dyrum klössun á Akraborginni, og það er sjálfsagt rétt. Hvað er þetta skip gamalt? (Gripið fram í: sex ára.) Þetta nýja norska, það er sjö ára gamalt, að mér er tjáð. Og mér er tjáð, að eftir eitt ár hljóti að bera þar að 8 ára klössun, sem sé mjög dýr. Hvað þýðir þetta, ef það er rétt? Það er verið að fara úr öskunni í eldinn! Það stendur fyrir dyrum klössun á Akraborginni, og það stendur líka fyrir dyrum klössun hjá þessu skipi, ef það er 7 ára gamalt, svo sem mér er tjáð.

— En svo er að lokum eitt atriði, sem mig langar til að fá upplýsinpar um, ef hér eru menn, sem geta gefið upplýsingar um það, sem hlýtur að vera, því að einhverjum hér er sjálfsagt kunnugra um þetta mál en mér, því að ég hef ekki fengið að vita neitt um þetta mál fyrr en fyrir örfáum dögum. Hvernig er með hafnaraðstöðu á Akranesi og í Reykjavíkurhöfn handa skipi, sem er opið að aftan og er búið út til þess, að bílum verði hleypt um borð? Er búið að gera þær breytingar í Reykjavíkurhöfn, að hægt sé að veita því þá þjónustu, eða ef það er ekki búið, hvenær verður sá búnaður tilbúinn? Hvenær getur skipið fengið aðstöðu til að fá þá afgreiðslu, sem það er byggt fyrir? Verður það á þessu ári? Hvenær verður það? Og hvað mundi kosta slík breyting á aðstöðu í Akraneshöfn og Reykjavíkurhöfn? Skipið kemur ekki að fullum notum, fyrr en þetta hefur gerst. Það verður að notast við sömu afgreiðsluaðstöðu og Akraborgin hefur, þangað til þessi hafnaraðstaða er til. Ég vænti þess að fá upplýsingar um þetta, hvort farið sé að gera ráðstafanir til þessa, eða ef ekki, þá hvenær þessi aðstaða verður til, því að þessir kostir skipsins kome ekki að notum fyrr.

Ég er þeirrar skoðunar, að þarna sé verið að festa kaup á miklu stærra skipi en verkefnið krefjist. Ég er afar hræddur um, að skipið eigi illa við sitt nýja hlutverk, það sé byggt sem heldur veikbyggt innfjarðaskip, 7 ára gamalt, með klössun fyrir dyrum, með háa yfirbyggingu og illa til þess fallið að þola þá ókyrrð, sem a. m. k. er enn í Akraneshöfn, og að rekstrarkostnaðurinn verði stórkostlega miklu meiri en n. eru sendar upplýsingar um. Ég tel málið að öllu leyti þannig vaxið, að það sé fyllsta ástæða til þess fyrir Alþ. að fá nákvæmari upplýsingar um, hvernig til þessa máls sé stofnað, og það sé ekki réttlætanlegt á nokkurn hátt að blanda þessu saman við ábyrgðarbeiðni til nokkurra fiskiskipa.