13.12.1973
Neðri deild: 40. fundur, 94. löggjafarþing.
Sjá dálk 1395 í B-deild Alþingistíðinda. (1198)

102. mál, veiðar með botnvörðu, flotvörpu og dragnót í fiskveiðilandhelgi

Friðjón Þórðarson:

Herra forseti. Á þskj. 236 hef ég leyft mér að flytja nokkrar brtt. við frv. það, sem hér um ræðir, ásamt hv. 8. landsk. og hv. 5. þm. Vesturl. Ég skal fúslega viðurkenna, að það er erfitt að setja reglur og lög um þessi efni, sem allir geti fellt sig við og sætt sig við. Það verður því áreiðanlega oft að meta stóra og margþætta hagsmuni, sem rekast illilega og harkalega á, og fara milli skers og báru, reyna að finna út miðlunarlausn og reglur, sem flestir geta fellt sig við. Sennilega hefur þó óvíða verið erfiðara að semja reglur, þar sem menn gætu mæst nokkurn veginn, eins og á Breiðfjarðarsvæðinu. Að vísu hefur sá háttur verið á hafður á þessu svæði, að þar hafa menn löngum reynt til hins ýtrasta að ná samstöðu og samkomulagi heimafyrir fyrst. En aldrei hefur það tekið jafnlangan tíma og í þessu máli. Það var því gerð lokatilraun til þess að samræma sjónarmið heimamanna með því, að nokkrir útvegsmenn, sjómenn og sveitarstjórnarmenn af Snæfellsnesi komu á fund hér í Reykjavík hinn 5. þ. m. Eftir miklar umr. og margs konar erfiðleika, því að sannarlega er hér um mikla og ólíka hagsmuni að ræða, sem rekast á, tókst þó að ná samkomulagi, sem allir felldu sig við að lokum, og skildu sáttir að kalla. Ég mun nú rekja þetta samkomulag í örfáum orðum, eins og það hefur verið útfært á þskj. 236.

Það er þá í því fólgið, að ákvæði kaflans um Breiðafjörð, sem merktur er F í þessu frv. og er á bls. 3, breytist þannig:

Í fyrsta lagi, að liður merktur F. 1 verði óbreyttur, og er þarflaust að lesa hann upp.

Í öðru lagi liður merktur F. 2 verði alveg felldur niður. Menn óttast hin stórvirku togveiðiskip, stóra skuttogara, óttast að fá þá inn í Kolluálinn á eftir fiskigöngunum. Um það eru, held ég, allir Breiðfirðingar sammála að reyna að komast hjá því, að þessi stórvirku veiðitæki vaði langt inn í Kolluálinn. Þess vegna var ég nokkuð undrandi að heyra það, sem hv. síðasti ræðumaður, 5. þm. Sunnl., hélt fram í ræðu, sem hann var að ljúka, að skoðanir manna væru mjög skiptar um þetta efni og þá sérstaklega í Grundarfirði. Ef gengið væri eftir götum í Grundarfirði, þá væri hægt að hitta menn, sem væru á algjörlega öndverðum meiði í þessu efni. Ég held, að þetta sé mælt af ókunnugleika, því að þótt menn geti deilt harkalega um flesta þætti þessa máls á Snæfellsnesi og við Breiðafjörð, þá hygg ég, að þeir mætist á þessum punkti. A. m. k. var þetta fyrsta atriðið, sem útvegsmenn og sjómenn voru algjörlega sammála um og samþykktu um einróma till. á fjölmennum fundi sem haldinn var í Ólafsvík ekki alls fyrir löngu. Hins vegar er það rétt hjá hv. ræðumanni, að einhvers staðar verða vondir að vera. Það er víst ekki hægt að mæla gegn því. En það er í fáum orðum sagt eindregin ósk og álit heimamanna, að þarna beri ekki að hleypa inn stórvirkum togurum lengra en að 12 mílum.

Þá er í þriðja lagi, að liður merktur F. 3, í kaflanum um Breiðafjörð, verði óbreyttur.

Í fjórða lagi verði liður merktur F. 4 eins og hann var í frv., er það var lagt fram á s. l. vori, þ. e. a. s. að hann bjóði eins og liður 4. F á þskj. 581 frá síðasta þingi, 241. máli.

Í fimmta lagi eru menn sammála um það, að ráðh. verði veitt heimild til að veita frekari togveiðiheimildir en greindar eru í lögum þessum í takmarkaðan tíma og á tilgreindum veiðisvæðum vegna þeirrar sérstöðu, sem er í verstöðvum við Breiðafjörð, að fiskibátar eru flestir undir 105 tonnum að stærð og hafa stundað veiðar á grunnmiðum kringum Snæfellsnes, enda komi til meðmæli Hafrannsóknastofnunarinnar. Þarna kem ég að atriði, sem er mikið hagsmunamál margra aðila við Breiðafjörð, ekki síst Grundfirðinga, sem eiga mikið af smábátum og þyrftu sannast sagna að fá umþóttunartíma til þess að laga sig að breyttum aðstæðum og stórauknum friðunaraðgerðum. Á þennan hátt tókst þó mönnum að ná nokkurn veginn samkomulagi, og að skilja sáttir að kella, eins og ég sagði áðan.

Ég treysti hv. þm. til þess að líta á þetta mál, reyna að setja sig í spor okkar Breiðfirðinga, vega það og meta, hvað hér er um mikilvæg málefni að ræða, sem snerta svo til hag hvers einasta manns við Breiðafjörð á einn eða annan veg. Ég bendi á, eins og ég raunar gerði í upphafi máls míns, að Breiðfirðingar hafa jafnan reynt að ná samstöðu í þessum efnum. Ég bendi á það, sem sérstakt má kalla, að þeir hafa í nokkur ár, nokkuð mörg ár, alfriðað svæði á Breiðafirði fyrir netaveiðum. Það er svæði, sem bannar allar netaveiðar á Breiðafirði fyrir innan línu, sem hugsast dregin úr Skor í Eyrarfjall við Grundarfjörð. Um þessa reglu standa allir saman. Breiðfirðingar halda því fram, að hún hafi gefið góða raun, jafnvel þótt fiskifræðingar séu ekki allir á því máli, — og eru ákveðnir að halda þessari friðun áfram. Ég hygg, að þeir séu síður en svo minni friðunarmenn en hverjir aðrir, þó að þeir séu allmargir hverjir ekki nógu vel í stakk búnir til þess að mæta stórauknum friðunaraðgerðum án nokkurs aðlögunartíma.

Ég held, að það sé óþarft að fara um þessar brtt. fleiri orðum. Við höfum reynt að koma þeim greinilega á framfæri á þskj. 236, eins og ég áðan sagði. En áður en ég lýk máli mínu, ætla ég aðeins að benda á eitt atriði, sem ég tók eftir í brtt. n. Það segir svo í 10. gr. frv., sem hv. frsm. fjallaði nokkuð um, í niðurlagi l. tölul., þar sem fjallað er um dragnótaveiðar: „Heimild þessi til veitingar dragnótaveiðileyfa skal ekki notuð til l. júlí 1976 að því er varðar veiðar á Faxaflóa innan línu, sem dregin er úr punkti 4 sjóm. réttvísandi vestur af Garðskagavita í punkt 4 sjóm. réttvísandi suðaustur af Gáluvíkurtanga: Ég sé í þeim brtt., sem sjútvn. leggur fram við frv. það er á bls. 2, 4. tölul. c, að þar er sagt: „Niðurlag l. tölul. frá og með orðunum „Heimild þessi“ falli niður“. Enda vék hv. 5. þm. Sunnl. nokkuð að þessu atriði.

Það er óþarft að fara mörgum orðum um þetta efni, svo kunnugt sem það er, bæði hér á hv. Alþingi og utan þess. Það er óþarfi að rekja hina löngu sögu þeirra manna, sem börðust fyrir friðun Faxaflóa. Þess vegna vil ég leyfa mér að mótmæla þessum c-lið í brtt. n. og leggja til, að sú till. verði felld. Ég tel, fyrst þessi friðun er komin á á annað borð, þá sé a. m. k. rétt að láta standa eins og segir í frv., að „heimild þessi til veitingar dragnótaveiðileyfa skal ekki notuð til 1. júlí 1976“. Ég vil því ítreka það, að ég legg til, að þessi c-liður í 4. tölul. brtt. hv. n. verði felldur niður.