13.12.1973
Neðri deild: 40. fundur, 94. löggjafarþing.
Sjá dálk 1403 í B-deild Alþingistíðinda. (1200)

102. mál, veiðar með botnvörðu, flotvörpu og dragnót í fiskveiðilandhelgi

Sjútvrh. (Lúðvík Jósepsson) :

Herra forseti. Ég veit, að það er langt liðið á fundartímann, svo að ég skal nú takmarka mál mitt hér þannig, að það þurfi ekki að taka langan tíma enn af þessum fundi.

Ég þakka hv. sjútvn. fyrir það verk, sem hún hefur lagt í það að ná samkomulagi um afgreiðslu á þessu máli. Mér er ljóst varðandi þær till., sem hún leggur fram, að þar er um að ræða samkomulagstill., og hefðu eflaust ýmsir nm. viljað hafa brtt. sínar nokkuð á annan veg, ef þeir einir hefðu mátt ráða.

Ég get einnig sagt það, að í sjálfu frv., eins og það var lagt fram og samið af fiskveiðilaganefnd, voru ýmis atriði, sem voru nokkuð á annan veg en ég hefði helst kosið. Og sama er reyndar að segja um þær till., sem nú koma til breytinga á því frá hv. n. En ég tel að samkomulagið, sem n. hefur náð, sé mjög mikilvægt fyrir framgang málsins og megi segja, að í öllum aðalatriðum sé fylgt þeirri stefnu, einnig með þessu samkomulagi nm., sem fiskveiðilagan. byggði till. sínar á og aðaltill. frv. voru byggðar á. Það er að vísu rétt, að með þeim brtt., sem sjútvn. gerir, er dregið nokkuð úr þeim hömlum, sem lagðar voru á togveiðar í fiskveiðilandhelginni með till. frv., eins og þær voru, þegar frv. kom fram. Það er sem sagt gert ráð fyrir því að heimila áfram nokkru meiri togveiðar innan fiskveiðilandhelginnar en gert var ráð fyrir í frv. En það er búið að gera hér talsvert ítarlega grein fyrir því, hvernig á þessu stendur og hvar um þessar auknu heimildir er að ræða, svo að ég skal ekki fara út í það. En það eru nokkrar breytingar, sem ég tel að þurfi þó að gera við till. sjútvn., en til þess að tefja nú ekki á neinn hátt framgang málsins hér í d., mun ég hafa þann hátt á að afhenda n. þessar ábendingar mínar, sem ég tel að þurfi að taka til athugunar, svo að n. geti farið yfir þær á milli 2. og 3. umr. Ef henni sýnist ástæða til þess, sem ég ætla að verði við nánari athugun, þá þarf að gera hér á nokkrar breytingar.

Ég vil aðeins segja það, í sambandi við till., sem hér er flutt á þskj. 236 af 3 þm. úr Vesturlandskjördæmi, þar sem þeir gera ráð fyrir talsverðum breyt. frá því samkomulagi, sem sjútvn. hefur gert, að þar er aðallega um eitt atriði að ræða, sem ég held að þeir verði að gera sér grein fyrir, að geti í rauninni ekki náð fram að ganga. Þeir vilja setja inn í frv. ákvæði um það, að ráðh. sé heimilt að veita frekari togveiðiheimildir á ákveðnum tímum á ákveðnum svæðum í Breiðafirði og að þeirra vandi í sambandi við togveiðiheimildir verði leystur með þessum hætti, að ráðh. fái heimild til þess að opna frekar þetta svæði fyrir togveiði. En allt frv. er byggt upp á annarri stefnu. Það er ákveðið í frv., hvaða heimildir skuli veita. Síðan er ráðh. veitt sú allsherjarheimild, að hann má draga úr veiðiheimildunum, ef það kemur í ljós, að á því sé þörf, en ef ráðh. á að hafa heimild til þess að veita togveiðiheimildir umfram það, sem segir almennt í lögum, á hinum einstöku stöðum, þá er í rauninni verið að fara hér inn á nýja stefnu. Þá stæðum við eflaust frammi fyrir því víða við landið, að einstakir aðilar þar sendu beiðni um það, hvort ráðh. vildi ekki veita þeim togveiðiheimildir innan landhelginnar. Ég er hræddur um, að það yrði býsna erfitt mál viðureignar. Ég held því, að þó svona ákvæði væru sett inn í l., sem er í rauninni alveg þvert á stefnu l., þá mundi varla nokkur ráðh. treysta sér til þess að taka á sig þann vanda að fara að heimila sérstaklega togveiðar, þar sem heimamenn hafa sýnilega ekki getað komið sér saman um, hvernig ætti að vera. Ég tel því, að það sé í rauninni ekki hægt að taka upp þessa till., eins og hún kemur fram frá þessum hv. þm. En ef þeir vilja gera ráð fyrir togveiðiheimildum þarna fyrir báta að einhverju marki og á einhverju svæði, þá verða þeir eins og aðrir að reyna að forma það, hvernig þær heimildir eiga að vera.

Það er sem sagt þetta, að ráðh. hefur heimild til þess að draga úr veiðiheimildum, en ekki til þess að fara að heimila mönnum í rauninni að brjóta þá aðalreglu, sem l. gera ráð fyrir, að banna togveiðar í fiskveiðilandhelgi.

Þetta verður væntanlega athugað betur á milli 2. og 3. umr. af sjútvn.

Ég skal ekki bætta mér út í að ræða hér um einstök atriði. Ég verð þó að segja það rétt í leiðinni, að það er síður en svo, að ég telji, að þær till. séu til bóta hjá n., sem gera ráð fyrir breytingum á sektarákvæðum, því að menn þurfa að hafa í huga, að þessi sektarákvæði eru ekki bara fyrir þá viðkvæmu aðila, sem við hugsum mest um í þessum efnum, innlenda menn. Hér er líka um sektarákvæði fyrir brot á okkar fiskveiðilöggjöf gagnvart útlendingum að ræða, og það hefur sýnt sig, að ef á að taka eðlilega tillit til sekta í sektardómum, þá virðist vera betra að gera ráð fyrir því, að sektirnar fari verulega hækkandi eftir stærð og gerð skipanna. En sá samdráttur, sem gert er ráð fyrir af n., tel ég að sé ekki til bóta. Sömuleiðis segi ég það fyrir mitt leyti, að ég hefði frekar kosið að hafa það ákvæði, sem var í frv., að við ítrekuð brot af þessu tagi, væri hægt að dæma menn í fangelsi, eins og mörg önnur í okkar löggjöf. Þetta er mín skoðun, en ekki skal ég fara að gera þetta að ágreiningsefni, því að ég tel þetta ekkert höfuðatriði varðandi þessi mál. En vegna þess, sem hér hefur verið sagt, þykir mér ástæða til að láta þetta koma hér fram.

Ég legg höfuðáherslu á það, að reynt verði að afgreiða þetta mál hér fyrir þinghlé og að þá verði stuðst við það samkomulag, sem náðst hefur í sjútvn. á allvíðtækum grundvelli. Ég tel, það svo mikilvægt, að það sé í rauninni eina leiðin til þess að ná málinu fram, að í meginatriðum sé byggt á því samkomulagi, sem sjútvn: menn hafa gert um málið, og ég vil sem sagt þakka þeim fyrir að hafa náð þessu samkomulagi og vinna þannig að því, að það megi takast að koma málinu fram.

Ég tel svo, að þær breyt., sem þyrfti að gera frekar á frv., megi gjarnan bíða til 3. umr.