13.12.1973
Neðri deild: 40. fundur, 94. löggjafarþing.
Sjá dálk 1413 í B-deild Alþingistíðinda. (1203)

102. mál, veiðar með botnvörðu, flotvörpu og dragnót í fiskveiðilandhelgi

Sverrir Hermannsson:

Herra forseti. Ég ætla ekki að lengja þessar umr. nema um örfá orð. Mér var ljóst fyrir alllöngu, að því frv., sem var borið fram hér í fyrra, yrði ekki breytt að neinu verulegu leyti, a. m. k, ekki í þá átt, sem ég hefði kosið, að þessi lög hefðu verið byggð á, því að þessar till. og reglur eru byggðar á allt öðrum forsendum en ég hefði kosið. Ég hefði kosið, að lögin um nýtingu landhelginnar hefðu verið mjög rúm rammalög, þar sem hefði verið heimildorákvæði til þess að nýta landhelgina eftir því, sem þar til kjörin nefnd aðila, sem hefði til þess besta aðstöðu legði til, að hún yrði nýtt hverju sinni. Þetta eru grundvallarskoðanir mínar á því, hvernig nýta eigi landhelgina. Þess vegna er það, að ég mun ekki ræða þessar till. nú efnislega né heldur þær brtt., sem fram hafa komið.

Í þessum till. eru hreppasjónarmiðin allsráðandi, enda hefur þeim vasklega verið safnað saman, og fékk sú n., sem þetta samdi, sérstakt hól fyrir að hafa lagt land undir fót til að ná í sem allra fjölbreytilegastar skoðanir einstakra aðila í landinu á því, hvernig þessu skyldi niður skipað. Ég ætla ekki að setja á tölur um það, en mín skoðun er sú, að menn séu, og ekki síður hv. þm. en aðrir haldnir mjög miklum fordómum varðandi fiskveiðar almennt, um sókn í stofna, stærð skipa, veiðibúnað o. s. frv. Ég held, að við þurfum nokkurn tíma til þess að átta okkur á nýjum viðhorfum í þessu. Ég geri ráð fyrir því, að þá fyrst getum við rætt þetta á heilbrigðum grundvelli, þegar við höfum náð um þá landhelgi alla, 50 mílur a. m. k. og jafnvel 200 mílur, sem við höfum nú ætlað okkur. En það er hægt að færa að því ótal rök, byggð á rannsóknum fiskifræðinga, að til séu önnur veiðarfæri en það, sem hefur tíðkast um langan aldur, eða allt frá því að Bretar skörkuðu með botnvörpu upp í kálgarða, sem telja má fullsannað, að séu á vissum svæðum a. m. k. miklu skaðlegri en hin fræga botnvarpa. Ég ætla ekki að fara fleiri orðum um það. Það er gersamlega þýðingarlaust að koma á neinum breytingum, sem að mínum dómi skipta máli. Þess vegna hef ég ekki lagt til og á enga brtt. við það frv., sem hér liggur fyrir til afgreiðslu.

Ég hef að undanförnu kynnt mér nokkuð viðhorf vísindamanna á þessu sviði, og þau viðhorf fara alls ekki saman við þær forsendur, sem liggja til grundvallar þessu frv. Ég hef þess vegna sérstaklega nú verið að velta því fyrir mér að undanförnu og vona, að það komi einhvers staðar í ljós fljótlega, að við hljótum að fara að líta lengra og til fleiri átta. Við þurfum vitanlega að hlífa meira en við gerum okkar fiskistofnum. Þótt okkur skorti mjög á allar rannsóknir í þeim efnum, þá dylst það engum, að mjög hefur verið sótt um of a. m. k. í vissa fiskistofna og þeir þurfa hlífðar við. Fyrir því er það, að ég hef nú um hríð verið að láta rannsaka þann möguleika að auka rannsóknir á nýjum miðum, t. d. með því, að stærstu og öflugustu skipin gætu sótt um miklu lengri veg í nýja nýtanlega fiskstofna.

Og þá hefur það sérstaklega komið í ljós undanfarin ár, þótt ekki hafi verið nægjanlega rannsakað enn, að e. t. v. eigum við hér í boði djúpt suður og vestur af landinu ný karfamið, sem ekki hafa enn þá verið nýtt. Talið er, að það sé gífurlegt magn af úthafskarfa, sem hefst þar við, sem menn marka af gífurlegu magni seiða, og enn fremur hefur fundist á feiknalega stóru svæði karfi af þessari tegund. Fiskifræðingar halda því fram, að á vissum tímum ársins hljóti hann eð finnast í veiðanlegu ástandi í þau veiðarfæri, sem við getum beitt fyrir okkur, eins og tf1 að mynda flotvörpu. Þjóðverjar hafa rannsakað þessa hluti allmjög, einnig Íslendingar og Rússar. Þjóðverjar hafa stundað með allgóðum árangri veiðar í flotvörpu, en þó meira nær botni, nær landinu en talið er, að þessi karfastofn haldi sig. Þarna er um gífurlega mikla möguleika að tefla, sem við þurfum að leggja alla áherzlu á að rannsaka, til þess að við getum beitt hinum öflugu, nýju og stórvirku veiðitækjum á önnur mið en okkar heimamið, sem — enda þótt við vitum það ekki með fullri vissu, — okkur býður fastlega í grun, að kunni að vera meira en fullnýtt. Að vísu greinir okkur mjög á um það í sambandi við þær umr., sem hér fara fram um nýtingartill. þessar. Við álítum margir, að með þessum reglum sé verið að beina ýmsum stórvirkum togskipum t. d. af svæðum og miðum fullþroska fisks yfir á svæði, þar sem ókynþroska fiskur heldur sig. En um það fer ég ekki fleiri orðum. Þetta er svo margrætt og þýðingarlaust, meðan ekki háttar öðruvísi til að ætla sér þá dul að fá neinu um þessi mál breytt nú. En þetta gildir um fleira en þessa möguleika, sem nýjustu rannsóknir, þótt skammt séu á veg komnar, hafa bent til.

Við þurfum vitanlega að stórauka allar fiskirannsóknir. En þá verðum við líka að taka það með í reikninginn og vera við því búnir að fara eitthvað eftir þeim niðurstöðum, sem þær rannsóknir gefa. En ég gæti líka nefnt, að sannanlega hefur alls ekki, nema að mjög svo óverulegu leyti, verið farið eftir áliti fiskifræðinga varðandi þær nýtingartill., sem hér liggja fyrir. Allt þarf málið að skoðast miklu betur. En úr því sem komið er og eins og til þessa var stofnað, þá sé ég enga aðra leið en að gjalda jáyrði samt með þessu. Menn hafa lagt sig í framkróka um að ná samkomulagi, og það hefur tekist. Þótt öll uppsetningin sé með allt öðrum hætti og á allt öðrum forsendum en ég hefði kosið, tel ég samt, að þetta sé, eins og nú stendur á, eini kosturinn, .sem völ er á, og fyrir því mun ég fylgja þeim brtt., sem síðast hafa komið fram frá hv. sjútvn., en hins vegar mun ég aðstoða við að bægja frá öðrum till., sem ég tel, að séu til skaða og hins verra.