13.12.1973
Neðri deild: 40. fundur, 94. löggjafarþing.
Sjá dálk 1419 í B-deild Alþingistíðinda. (1212)

141. mál, námslán og námsstyrkir

Sjútvrh. (Lúðvík Jósepsson):

Herra forseti. Frv. þetta gerir ráð fyrir því, að nemendur Fiskvinnsluskólans, þeir sem stunda nám í 2. og 3. áfanga við skólann, geti orðið aðnjótandi að lánum og styrkjum úr lánasjóði námsmanna. Ég tel sanngjarnt, að þessir nemendur geti fengið lán og styrki úr þessum sjóði á hliðstæðan hátt og nemendur margra annarra skóla. Ég hafði lýst því yfir nú fyrir nokkru í samskiptum mínum við nemendur þessa skóla, að ég vildi gjarnan beita mér fyrir því, að þeir fengju þessi réttindi, og í beinu framhaldi af því er þetta frv. flutt. Ég vil vænta þess, að sú n., sem fær málið til athugunar, greiði fyrir því, að það nái fram að ganga.

E. t. v. þarf að gera hér víðtækari breytingar á l. um námslán og námsstyrki, þannig að nemendur enn fleiri skóla fái þessi sömu réttindi, en eins og ég hef sagt, er frv. flutt í beinu framhaldi af yfirlýsingu, sem gefin var af mér í sambandi við réttindamál þeirra, að það skyldi unnið að því að afla þeim þessara réttinda.

Hér er um svo einfalt mál að ræða, að ég sé ekki þörf á því að eyða löngum tíma á þessum þingfundi til að ræða málið, en legg til, herra forseti, að að lokinni þessari umr. verði málinu vísað til 2, umr. og hv. menntmn. til fyrirgreiðslu.