14.12.1973
Efri deild: 36. fundur, 94. löggjafarþing.
Sjá dálk 1428 í B-deild Alþingistíðinda. (1237)

94. mál, lyfjaframleiðsla

Frsm. meiri hl. (Helgi F. Seljan):

Herra forseti. Heilbr.- og trn. hefur fjallað ítarlega um frv. til l. um lyfjaframleiðslu. N. varð ekki sammála um afgreiðslu málsins og leggur meiri hl. n. til, að frv. verði samþ. með þeim breytingum, sem lagðar eru fram á þskj. 221. Minni hl. skilar hins vegar séráliti.

Frv. um lyfjaframleiðslu var lagt fram í Nd. í fyrra, en náði ekki fram að ganga. Frv. er um nokkur atriði öðruvísi nú en þá, en engu að síður þótti rétt að líta nokkuð yfir sumar umsagnir frá fyrra þingi. Hins vegar þótti n. réttast að fá til fundar við sig þá aðila, sem frv. snertir mest eða unnu að samningu þess. Hjá n. mættu því Almar Grímsson deildarstjóri í heilbrrn., Erling Edvald lyfsölustjóri, — en frv. kemur að töluverðu leyti inn á Lyfjaverslun ríkisins, svo og stjórnarformaður og framkvæmdastjóri Pharmaco h/f, þeir Sverrir Magnússon og Werner Rasmussen, en varðandi hugsanlega stofnun sameignarfyrirtækis ríkis og lyfsala hefur verið sérstaklega við þetta fyrirtæki rætt. Allir þessir aðilar veittu n. góðar upplýsingar og komu með áhendingar um margt, og skýrðust málin eins og jafnan, þegar svo er unnið.

Eins og frv. ber með sér, fjallar I. kafli þess um lyfjaframleiðslu almennt. Nm. ræddu þann kafla allnáið, og skv. sérstakri ábendingu var 3. gr. kaflans umorðuð og gerð fyllri á ýmsan hátt. Aðalatriði breytingarinnar er, að efnt skal til náins samstarfs forstöðumanna þeirra tilraunastofnana, er þar um ræðir, og framkvæmdastjóra lyfjaframleiðslufyrirtækis þess, sem ráðgert er að stofna skv. II. kafla frv. Mynda þeir samstarfsn., sem hefur það hlutverk, eins og segir í brtt. 1 á þskj. 221, „að stuðla að sem bestri nýtingu starfskrafta og tækjabúnaðar þessara stofnana til lausnar verkefnum, sem geta verið sameiginleg, svo sem gæðapróf, rannsóknir, innkaup og heildsöludreifing. Enn fremur skal n. stuðla að sameiginlegu átaki til framleiðslu nýrra lyfja fyrir innlendan og erlendan markað. — N. skal koma saman eftir þörfum og skila skýrslu um starfsemi sína á 6 mánaða fresti til hlutaðeigandi stofnana og heilbrrh.“

Ég hygg, að þessi breyting teljist til bóta um öll vinnubrögð hér að lútandi, og hygg enn fremur, að öll n. sé sammála um þetta atriði.

II. kafli frv. fjallar um sameiginlegt fyrirtæki um lyfjaframleiðslu, eða eins og segir í 5. gr. frv.: „íslenska ríkinu er heimilt að gerast stofnaðili að fyrirtæki um lyfjaframleiðslu ásamt lyfsölum og lyfjafræðingum. Fyrirtækið skal vera sjálfstæður réttaraðili með sjálfstæðan fjárhag og reikningshald.“

Þessi kafli varð hv. fulltrúum Sjálfstfl. að ásteytingarsteini í n., sumpart vegna orðalags 6. gr., þrátt fyrir orðalagsbreytingu, svo sem sjá má á þskj. 221, en þó eflaust öllu fremur vegna kaflans í heild og þeirrar stefnu, sem þar kemur fram um stofnun sameiginlegs fyrirtækis ríkis og einkaaðila. Brtt. 3 var t. d. sett sérstaklega fram til þess, að verða mætti, að n. yrði öll sammála um afgreiðslu málsins, en það hrökk ekki til.

Þessar 2 brtt., 2 og 3, eru að vísu einnig fram komnar vegna viðræðna við fulltrúa frá Pharmaco h/f, og breytingin á 8. gr. frv. er frá þeim og rn. komin í sameiningu og fullt samkomulag þar um.

Varðandi 6. gr. frv., er fjallar um eignarhald, kom fram, að fulltrúar Pharmaco h/f vildu illa sætta sig við orðalagið: „Ríkið skal eiga minnst helming.“ Orðalagi var breytt nokkuð, en vafasamt er, að fulltrúar Pharmaco h/f muni telja það fullnægjandi. Þó mun framkvæmdastjóri hafa talið það til bóta.

Í frv. í fyrra voru helmingaskipti fastákveðin varðandi eignaraðild, og það kom fram, eins og ráðherra hafði áður bent á hér í d., að fulltrúar Pharmaco lýstu þá áhyggjum sínum vegna þessa ákvæðis af þeim sökum, eins og þeir orðuðu það, að ríkið gæti viljað hafa fyrirtækið svo stórt og hlutafé svo hátt, að hæpið væri, að þeir gætu lagt fram helming fjármagns í slíkt fyrirtæki. Hér stangast á nokkuð um fyrri afstöðu og núverandi, og skal ég engan dóm á það leggja, hvaða ástæða liggur þar að baki. A. m. k. er rétt að taka skýrt fram, að brtt. 3 á þskj. 221, þ. e. 8. gr., eins og hún nú hljóðar, er beinlínis fyrir þá Pharmaco-menn gerð, og skal ekki öðru trúað en að sú skipan auðveldi alla samninga ríkisins og fyrirtækis þessa, ef af verður, um stofnsetningu fyrirtækisins, en gr. er svo nú:

„Stjórn fyrirtækisins skal skipuð 4 mönnum til 2 ára í senn. Félag lyfsala og lyfjafræðinga kýs 2 stjórnarmenn á aðalfundi sínum, og skal a. m. k. annar þeirra vera lyfjafræðingur að mennt. Heilbrrh, skipar 2 stjórnarmenn á sama hátt og félagið. Jafnmargir varamenn skulu skipaðir á sama hátt. Stjórnin kýs sér formann og varaformann til eins árs í senn, og skal formennskan færast til skiptis milli eignaraðila.“

Auðvitað mun reynslan skera úr um, hvort samningar um slíkt fyrirtæki takast, en vissulega telur meiri hl. n., að það væri spor í framfaraátt, ef þar mætti vel til takast.

Ég ætla ekki á þessu stigi að fara náið út í það ágreiningsefni, sem mun aðalástæða tveggja nál. í þessu máli, þ. e. a. s. hvort og að hve miklu leyti ríkið eigi að hafa afskipti af málum sem þessum, — hver ríkisafskipti eigi að vera yfirleitt. Þar er um grundvallarstefnumun að ræða, og deilur um það nú mundu aðeins tefja tímann og e. t. v. hindra framgang málsins nú fyrir jól, en það teldi meiri hl. n. óæskilegt. Ég sá reyndar nú rétt áðan, að fulltrúar Sjálfstfl. leggja til, að frv. verði vísað frá með rökstuddri dagskrá. Sá rökstuðningur, sem mér sýnist í fljótu bragði þar uppi hafður, staðfestir aðeins þennan grundvallarágreining, en að öðru leyti þannig, að ekki er ástæða til að elta við hann ólar og verður ekki gert af mér.

Það væri vissulega ástæða til þess að fara um þetta frv. í heild mörgum fleiri orðum og þá kosti, sem við í meiri hl. teljum, að því fylgi að koma þeirri skipan á, sem hér um ræðir. En það hefur áður verið gert svo ítarlega hér í d., að ég sé ekki ástæðu til þess. Það hefði einnig verið freistandi að vitna í ýmsar umsagnir hér, sérstaklega umsögn frá Félagi ísl. stórkaupmanna, sem mælti á móti frv., en lét fylgja nokkrar hugleiðingar um æskileg og óæskileg ríkisafskipti, — æskileg ríkisafskipti, þar sem einkareksturinn stæði höllum fæti, en óæskileg ríkisafskipti, þar sem einkagróðinn gæti verið nógur, en hér skal það ekki gert. Þar er komið að kjarna þess ágreinings, sem veldur klofningi n.

Meiri hl. n. leggur eindregið til, að frv. verði samþ. með þeim breytingum, er eru á þskj. 221, en fjarverandi afgreiðslu málsins var hv. þm. Geir Gunnarsson.